Markmiðið með skógræktarverkefnum á lögbýlum sem áður voru kölluð landshlutaverkefni í skógrækt er að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í fjölnytjaþróun og viðhaldi byggðar í öllum landshlutum, jafnframt því að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir.
Miðað hefur verið við að umfang skóganna verði um 5% af landi undir 400 m.y.s. Verkefnin skapa grundvöll fyrir marga til að halda áfram búsetu á jörðum sínum og fyrir aðra skapa þau nýtingarmöguleika á jörðum sem áður voru lítið nýttar.
Nokkur skógarbýli
Fræðslubæklingar
Fimm skref þarf að taka til að hefja skógrækt á lögbýlum. Fyrst er sótt um þátttöku, því næst er væntanlegt skógræktarsvæði tekið út, að því búnu er hægt að gera skógræktarsamning og í kjölfarið hefst vinna við kortlagningu skógræktarsvæðisins og gerð skógræktaráætlunar. Loks er skógarbónda skylt að sækja grunnnámskeið í skógrækt áður en hafist er handa við undirbúning lands og gróðursetningu.
1. Umsókn
„Þýðing skóga fyrir mannkynið og reyndar allt líf á jörðinni er svo mikil og margslungin að ógjörningur er að telja allt upp.“
Þ.E.
Umsóknum um þátttöku í skógrækt skal skila til Skógræktarinnar á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknir eru sendar til skógræktarráðgjafa í umdæmi viðkomandi jarðar. Umsóknir eru bundnar við þá einstaklinga sem um sækja. Verði eigendaskipti á jörðum falla umsóknir sem ekki hafa verið afgreiddar úr gildi. Umsóknir sem fengið hafa jákvæða afgreiðslu falla einnig niður liggi undirritaður samningur ekki fyrir innan eins árs frá samþykkt.
Skógræktarsamning geta landeigendur eða forráðamenn jarða fengið ef viðunandi skógræktarskilyrði eru fyrir hendi að mati skógræktarráðgjafa. Sé ábúandi og landeigandi ekki sá sami verður ábúandi að hafa samþykki landeiganda. Ekki er heimilt að gera skógræktarsamninga á löndum í óskiptri sameign tveggja eða fleiri lögbýla. Óski ábúandi ríkisjarðar eftir samningi um skógrækt, ber honum áður að kynna hugmyndir sínar fyrir jarðaumsýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Einstaklingar sem hafa áhuga á gerð skógræktarsamnings leita til skógræktarráðgjafa sem veita skulu allar tiltækar upplýsingar, afhenda viðkomandi umsóknareyðublað eða leiðbeina um hvar hægt sé að nálgast það. Eyðublöð er einnig að finna á vef Skógræktarinnar, skogur.is.
2. Úttekt skógræktarsvæðis
Skógræktarráðgjafi heimsækir jörð umsækjanda. Í heimsókninni er unnið samkvæmt vettvangskönnun á væntanlegu skógræktarsvæði (gátlisti). Ráðgjafa ber að kalla sér til aðstoðar annan skógræktarráðgjafa úr nágrenni sínu. Lágmarksstærð skógræktarsvæðis er 10 hektarar. Að loknum athugunum og mati samkv. vettvangskönnun gerir skógræktarráðgjafi tillögu til sviðstjóra um hvort ganga skuli til samnings eða ekki. Tillagan á að vera í formi skýrslu þar sem m.a. eru tilgreind mörk væntanlegs samningssvæðis á hnitsettu myndkorti. Þá sækir umsækjandi um framkvæmdaleyfi til sveitarfélags. Þegar það liggur fyrir er hægt að ganga frá gerð skógræktarsamnings.
3. Skógræktarsamningur
Verkefnisstjóri uppgjörs og samninga sér um gerð skógræktarsamnings. Liggi ekki fyrir undirritaður skógræktarsamningur innan árs frá formlegri samþykkt telst umsóknin fallin úr gildi. Sækja þarf skriflega um frestun á gerð skógræktarsamnings innan þess tíma. Skógræktin skal tilkynna viðkomandi skógarbændum skriflega að umsóknin falli úr gildi a.m.k. 2 mánuðum fyrir þann tíma og nauðsynlegt er að skógræktarráðgjafar fylgist með framvindu samningsferilsins og geti ýtt við bæði verðandi skógarbónda og verkefnisstjóra uppgjörs ef mál dragast á langinn.
4. Kortlagning og áætlanagerð
Ekki skal hefja vinnu við kortlagningu og áætlanagerð fyrr en fyrir liggur þinglýstur samningur. Liggi samningssvæði að landamerkjum jarða er nágrönnum send mynd af tillögum um útlínur samnings og beðið um athugasemdir innan ákveðins frests ef ekki er samkomulag um jarðamörk. Þá þarf að liggja fyrir svar viðkomandi sveitarfélags um hvort framkvæmdaleyfis sé krafist áður en landeigandi fer af stað með framkvæmdir við skógræktina.
5. Grunnnámskeið í skógrækt
Landeiganda eða skógarbónda sem gerir samning um skógrækt er skylt að sækja grunnnámskeið í skógrækt áður en framkvæmdir hefjast á jörðinni.