Hér verður stuttlega farið yfir áburðargjöf á skógarplöntur.

Áburðargjöf á nýgróður­sett­ar skógarplöntur hefur lengi verið stunduð í trjárækt á Íslandi. Bæði hefur verið notaður tilbúinn áburður, kjötmjöl eða fiskimjöl, sem og húsdýraáburður. Vel á við hið forn­kveðna, lengi býr að fyrstu gerð. Áburður­inn sem trjáplöntunum er gefinn í upphafi getur verið mikilvægt nesti til þeirrar löngu ferðar sem tréð á fyrir höndum þar til það verður fullvaxið nytjatré.

Nýgróðursett lerkiplanta í eldri skógi með áburðarkornum í kringÁburðartilraunir hafa verið gerðar í skóg­rækt á síðustu áratugum og niðurstöður þeirra sýna að í flestum tilfellum er gagn að hóflegri áburðargjöf. Áburðargjöf með litlum skömmtum, 10-15 g af tilbúnum áburði við gróðursetningu, eykur almennt lífslíkur og vöxt fyrstu árin. Mikilvægt er að áburðinum sé aðeins dreift í kringum plöntur eða hann settur í holu 5-10 cm frá plöntunni. Tilbúinn áburð má ekki setja að rótum eða stofni plantna og alls ekki ofan í holu. Áburðarsölt í tilbúnum áburði sjúga í sig raka og þurrka þannig eða „brenna“ rætur komist áburðurinn of nálægt rótum. Það sama gildir um þurran lífrænan áburð s.s. fiskimjöl, kjötmjöl eða hænsnaskít, hann dregur raka úr rótum plantna og getur þurrkað og drepið plöntur sé hann settur í holuna með þeim. Áburðargjöf í grasgefnu landi þar sem engin jarðvinnsla hefur farið fram getur einnig gert ógagn. Í landi þar sem frostlyfting er mikil getur áburðargjöf hins vegar dregið úr frostlyftingu, þar sem rótarkerfi plantna verður öflugra á fyrsta sumri og gróðurmotta myndast í kringum plöntuna.

Hvers konar áburð skal nota?

  • Húsdýraáburður er oftast góður, en notkun hans hefur talsverða vinnu í för með sér.
  • Kjötmjöl, fiskimjöl eða hænsnaskítur sem borinn er sem þurrt mjöl eykur vöxt, en þess ber að gæta að ekki má setja kjöt- eða fiskimjöl ofan í holu með plöntunni eða við plöntuna því hætta er á að refir og mögulega fuglar renni á lyktina, grafi eftir áburðinum og róti trjáplöntunum upp.
  • Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á notkun húsdýraáburðar, moltu og ormamoldar í nýskógrækt, en líklegt er að slíkur áburður auki vöxt, sér í lagi hjá trjáplöntum í rýrum jarðvegi. Molta hefur t.d. reynst mjög vel við ræktun birkis á berum sandi á Hólasandi. Prófanir þar benda líka sterklega til þess að dreifing moltu á gróðurlaust land flýti fyrir framvindu lággróðurs og búi þannig í haginn fyrir gróðursetningu trjáplantna.
  • Ef notaður er tilbúinn áburður er mælt með áburði sem inniheldur köfnunarefni (nitur N), fosfór (P) og brennistein (S). Ekki virðist skipta máli hvort hin 15-17 frumefnin sem nauðsynleg eru plöntum til vaxtar eru borin á, t.d. kalí (K), magnesín (Mg) eða kalsín / kalk (Ca). Nóg virðist vera af aðgengilegum næringarefnum í íslenskum jarðvegi öðrum en N, P og S.
  • Ekki skiptir höfuðmáli hvaða hlutfall er notað af N og P í tilbúnum áburði en mikilvægt er að bæði N og P sé í áburðinum. Algeng hlutföll af N-P eru 26-13, 25-5, 23-12, 25-5, 24-9. Brennistein (S) er alltaf að finna í slíkum áburði. Helstu seljendur tilbúins áburðar bjóða upp á tilbúinn NP-áburð.
  • Tekið skal fram að það skaðar ekki plöntur þótt fleiri efni séu í áburðinum en eins og áður sagði benda tilraunir ekki til þess að önnur næringarefni en N-P-S bæti árangurinn í skógræktinni.

Hversu mikinn áburð skal nota?

  • Á ungplöntur er mælt með 10-15 g af auðleystum / tilbúnum áburði.  Það er u.þ.b. ein matskeið. Of mikill áburðarskammtur, t.d. „ein lúka“ eða „slatti“ getur drepið ungplöntur!
  • Kjötmjöl og fiskimjöl inniheldur um þriðjung af nitri (N) miðað við tilbúinn áburð, en áburðurinn er seinleystur og því þola plöntur stærri skammt. Því má dreifa 30-50 g af slíkum áburði í kringum plöntur.
  • Húsdýraáburður inniheldur mun minna af nitri og má blanda slíkum áburði saman við jarðveg áður en gróðursett er, t.d. einni skóflu.

Hvernig skal bera á?

  • Á gróðurlitlu landi eða þar sem búið er að jarðvinna (fjarlægja gróður) er mælt með að dreifa áburðinum jafnt í kringum plöntuna (u.þ.b. 15 cm radíus).
  • Á vel grónu eða grasgefnu landi er mælt með að setja áburðinn í holu við hlið plöntunnar í ca. 5-10 cm fjarlægð.
  • Varast ber að gróðursetja plöntur beint í húsdýraáburð. Fyrst á að blanda skítnum saman við jarðveginn og svo að gróðursetja plöntuna.    

Hvenær skal bera á?

  • Ungplöntur njóta góðs af áburðargjöf með tilbúnum áburði, sér í lagi að vori eða fyrri hluta sumars þegar gróðursett er, en gagn er að áburðargjöf fram á mitt sumar. Sé slíkur áburður borinn á síðsumars, gæti það valdið því að plöntur ná ekki að hausta sig á réttum tíma og verða fremur fyrir frostskemmdum að hausti.
  • Ef gróðursett er að hausti er mælt með því að bera á plönturnar síðla vors eða í sumarbyrjun árið eftir.
  • Ef notuð er mjöl, húsdýraáburður, molta eða annað seinleyst og lífrænt, skiptir ekki máli hvenær borið er á.

 

Fræðslumyndband um gróðursetningu: