Baldur Þorsteinsson skógfræðingur endurskoðaði og gaf út árið 2001 skrá um þau fræ sem Skógrækt ríkisins hafði aflað og afhent á árabilinu 1933 til 1992. Skráin var í kjölfarið gefin út á vef Skógræktarfélags Íslands með leyfi höfundar og í samvinnu við hann. Skógræktin heldur utan um skráningu fræja þegar skrám Baldurs sleppir.
Fræskrá Baldurs sem nær frá árinu 1933 til 1992 er hér birt í tvennu lagi í töfluriti (Excel-skrá), annars vegar skrá fyrir barrtré og hins vegar skrá fyrir lauftré. Úr þeim má tína margvíslegar upplýsingar um ýmsar trjátegundir, kvæmi, söfnunarstaði eða önnur gagnleg atriði. Mikill fengur var að þessu heildaryfirliti þegar það kom út og er enn. Þetta er dýrmæt heimild um sögu skógræktar á fyrstu áratugum markvissra skógræktarverkefna hérlendis.
Þegar skrám Baldurs sleppir tekur fræskrá Skógræktarinnar við og er hún uppfærð reglulega. Þar eru barrtré og lauftré saman í einni skrá. Í þeirri skrá er ekki tiltekið hvert fræin voru afgreidd eins og í skrám Baldurs.
Eldri fræskrár til niðurhals (Excel-skrár):
- Fræskrá 1933-1992 I - Barrtré
- Fræskrár 1933-1992 II - Lauftré
- Fræskrá Skógræktarinnar 1992-2018
Athugasemdum við fræskrána og ábendingum má koma til Valgerðar Jónsdóttur, verkefnastjóra fjölgunarefnis hjá Skógræktinni. Netfang hennar er valgerdur@skogur.is og sími 862 7854.
Saga fræskráninga hjá Skógræktinni
Baldur skrifaði góðan formála að fræskrá sinni þegar hún kom út 2001 og fer hann hér á eftir. Í formálanum rekur hann ýmsar lagfæringar sem gerðar voru fyrir þessa útgáfu, meðal annars leiðréttingar á frænúmerum. Hann fjallar um fræsöfnunarferðir sem voru farnar til útlanda á árabilinu sem fræskráin nær yfir, athuganir sínar á bréfaskiptum, skýrslum og fleiri gögnum sem leiddu til breytinga á tilteknum atriðum í skránni og fleira.
Núverandi fræskrár frá 1992 eru unnar jafnóðum upp úr þeim fræviðskiptum sem verða hverju sinni hjá Skógræktinni. Ekki er talin ástæða til að hafa með upplýsingar um hverjir hafa keypt fræ hverju sinni enda eru kaupendur nú orðið mjög margir, magnið mismikið og ekki gott að segja hvaða gagn geti verið að þessum upplýsingum. Ef nauðsyn krefur og þess er óskað er þó í mörgum tilfellum hægt að finna þessar upplýsingar í gögnum Skógræktarinnar. Núverandi fræskrá skarast um tvö ár við fræskrár Baldurs Þorsteinssonar. Til fróðleiks er hér birtur formálinn sem Baldur skrifaði þegar fræskrár hans komu út árið 2001.
Formáli að Fræskrá
„Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt“. Úr kvæðinu Aldamót eftir Einar Benediktsson (Ljóðmæli II. bindi 1945).
Fræskrá þessi er tölvutækt gagnasafn yfir móttekið og afhent trjáfræ á vegum Skógræktar ríkisins árin 1933-1992. Skráin er í tveimur hlutum. Sá fyrri, Fræskrá I. Barrtré, var gefinn út af Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins árið 1994, en síðari hlutinn, Fræskrá II. Lauftré, hefir ekki verið gefinn út áður.
Lýsing á fræskránni, efni hennar og gerð, birtist í Skógræktarritinu 2000, 2. hefti, bls. 67-77.
I. Um lagfæringar
Í tilefni nýrrar útgáfu, hefir Fræskrá I. Barrtré verið vandlega endurskoðuð og ýmislegt lagfært, sem betur mátti fara. Viðauki við hana, sem tekinn hafði verið saman fyrir nokkru, var um leið felldur inn í aðalskrána. Þá var einnig breytt nöfnum á fáeinum fræsöfnunarstöðum í samræmi við nýjar athuganir.
Sem dæmi má nefna douglasgreni (Pseud.men. 343004). Gerð var grein fyrir þeirri nafnbreytingu í Skógræktarritinu 2000, 2. hefti, bls. 108-109.
Breytingum á nafni söfnunarstaðar og söfnunarári þallarfræs og á skráningu lerkifræs verður lýst hér á eftir, aðallega til þess að sýna dæmi um sérstök vafaatriði, sem ekki hafði áður gefist tóm til að finna viðunandi lausn á, en óhjákvæmilegt var að ljúka. Við þessa endurskoðun var þó mest áhersla lögð á að leita uppi og leiðrétta villur í frænúmerum, því þau eru undirstaða allra skráninga, frá sáningum til gróðursetninga og jafnvel lengur. Sitthvað fleira var lagfært, sem ekki er ástæða til að tíunda hér.
II. Um fræsöfnun
Á undanförnum tveimur áratugum hafa verið farnar nokkrar fræsöfnunarferðir til Norður-Ameríku og Asíu, en lítill hlut þess fræs, sem þá var safnað, er færður inn í Fræskrá 1933-1992.
Árið 1971 söfnuðu þeir Ágúst Árnason og Þórarinn Benedikz 95 fræsýnum af 12 tegundum barrtrjáa í Bandaríkjunum og Kanada, en aðeins 14 þeirra eru í fræskránni.
Árið 1985 söfnuðu þeir Óli Valur Hansson, Ágúst Árnason og Böðvar Guðmundsson 50 fræsýnum af 9 tegundum barrtrjáa og 109 fræsýnum af 5 tegundum lauftrjáa í Alaska og Yukon, en aðeins 15 af þessum sýnum eru í skránni.
Ekkert af því fræi, sem var safnað í Austur-Síbiríu, Magadan og Kamtsjatka, árin 1989 og 1991 er innfært hér.
Á tímabilinu 1940-1950 var sáð trjáfræi í reitum skógræktarfélaga víða um land. Nokkrar þeirra sáninga eru í fræskránni, en upplýsingar skorti um allnokkrar.
Með þeim undantekningum, sem að ofan greinir, hefir vonandi tekist, að mestu leyti, að draga hér saman á einn stað þær upplýsingar, sem að var stefnt og rúmuðust innan þess ramma, sem settur var í upphafi. Stundum getur þó þurft að hafa nokkurn vara á við notkun þeirra. Í aftasta dálki fræskránna er bent á þetta með ýmsum athugasemdum, eins og t. d. „v. upplýs.“, „kvæmi óv.“og „áætlað“.
III. Um breytingar
Hér að ofan var nefnt, að breytt hefði verið nafni söfnunarstaðar og söfnunarári þallarfræs, frá fyrri útgáfu á Fræskrá I.
Ástæðan er sú, að við nánari athugun á heimildum varð ljóst, að ekki fór saman ætlað söfnunarár, sáningarár og söfnunarstaður fræsins. Um er að ræða fræ af fjallaþöll (Tsuga mer. 453004), sem sáð var á Hallormsstað og í Múlakoti vorið 1945 . Kvæmið er þar talið vera Pigot Bay í Alaska. Um söfnunina sá Vigfús Jakobsson.
Þegar fræskráin var endurskoðuð, var á ný farið yfir bréfaskipti Vigfúsar og Skógræktar ríkisins árin 1943-1945, auk annarra tiltækra gagna um fræsöfnun í Alaska á þessum árum. Í ljós kom, að þallarfræ, sem var safnað í Alaska, haustið 1945, kom ekki til Íslands fyrr en í byrjun árs 1946, að undanteknum 1-2 smáprufum. Þegar árin 1943 og 1944 voru athuguð nánar, sást af bréfum Vigfúsar Jakobssonar, að 1943 var afar lélegt fræár, nema helst á svartgreni, enda safnaði hann þá aðeins nokkrum pokum af svartgrenikönglum, auk smávegis af hvítgreni- og sitkagrenikönglum. En haustið 1944 safnaði hann 6 pokum af fjallaþallarkönglum og 1-2 pokum af sitkagreni- og hvítgrenikönglum frá Gull Rock við Turn Again Arm, samkvæmt bréfi, dagsettu í Seward 5. október 1944.
Þótt ekki hafi fundist frekari gögn um þessa söfnun, er gert ráð fyrir, að fræið hafi verið sent til Íslands snemma árs 1945, og rauninni virðist þetta vera eina fræið af fjallaþöll, sem gæti hafa verið handbært til sáningar það vor. Við endurskoðun á fræskránni var því ákveðið að breyta nafni söfnunarstaðarins úr Pigot Bay í Turnagain Arm, en frænúmer yrði óbreytt, 453004.
Ef í ljós skyldu koma einhver gögn á Hallormsstað frá árinu 1945, þegar þallarfræinu er sáð, árinu 1948, þegar plönturnar eru dreifsettar, eða árinu, sem þær eru gróðursettar, gæti það sannað eða afsannað þessa niðurstöðu.
Í frásögn sinni af Alaskaför haustið 1945 (Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1946, bls. 30) getur Hákon Bjarnason þess, að Vigfús Jakobsson hafi safnað ofurlitlu af fjallaþallarkönglum í hlíðinni upp af Pigot Bay. Þótt engar frekari upplýsingar hafi fundist um þá söfnun, er hún látin halda sér í fræskránni, en með nýju frænúmeri, 463055, í samræmi við þá ályktun, að fræið hafi borist til Íslands árið 1946.
Að því er varðar lerkifræið, sem var nefnt hér áður, þá er um að ræða fræsendingu í tvennu lagi frá Mustila í Finnlandi árið 1951, sem skráð var á tveimur frænúmerum 511007 og 511008, en undir einu nafni, L.gm.xsuk., (nú ritað L.gme.xsuk.).
Ástæða þess, að sama nafn var notað fyrir bæði frænúmerin, er einkum mistúlkun á fremur óljósum gögnum. Í sáningaskýrslum frá gróðrarstöðinni á Tumastöðum fyrir árin 1951 og 1952 stendur „Larix X“ í athugasemdum við frænúmer 511007, en „japonica“ við frænúmer 511008. Þegar hugað var betur að þessu, út frá þeirri forsendu, að hér væri aðallega um dáríulerki að ræða, þótti líklegast, að „Larix X“ merkti kynblending dáríulerkis (L. gmelini) og rússalerkis (L. sukaczewii), og nafnið á þeim hluta fræsins væri því rétt. Hins vegar væri „japonica“ stytting á nafninu L. gmelini var. japonica (kúrileyjalerki), og frænúmer 511008 yrði því L.gme.jap. Önnur atriði verða óbreytt.
IV. Um tegundir og kvæmi
Ekki er ætlunin að fara hér út í sérstaka greiningu á efni fræskránna, og því verða aðeins nefnd nokkur atriði. Af barrtrjám eru skráð nöfn á 59 innfluttum tegundum, afbrigðum og kynblendingum. Kvæmin eru talin vera 680-685. Af lauftrjám eru skráðar 27 tegundir af rúmlega 100 kvæmum. Undanskilið í kvæmafjölda er allt innflutt frægarðafræ, fræ af innfluttum tegundum og fræ af íslensku birki.
Þegar athugað er, hvernig kvæmin skiptast á tegundir í Fræskrá I. Barrtré, kemur í ljós að rauðgrenikvæmin eru langflest eða um 90, hvítgreni um 50, skógarfura og stafafura um 48 hvor, sitkagreni um 44, fjallaþinur 30, blágreni og evrópulerki 27 hvor, fjallaþöll og svartgreni 24 hvor, bergfura 22, douglasgreni 19, síbirísk lindifura 18, rússalerki 17, síbiríulerki 15, balsamþinur 14, alpalindifura 10, broddfura, dvergfura, sveigfura, mýrarlerki og marþöll 9 kvæmi hver, hvítsitkagreni (sitkabastarður) 8, alaskasýprus og sifjalerki um 7 hvor, fjallafurur 16 kvæmi alls, og aðrar tegundir 1-6 kvæmi hver, alls um 75 kvæmi.
Fræskrá II. Lauftré er mun minni að vöxtum en Fræskrá I. Barrtré, og íslenskt birki fyllir langstærstan hluta hennar. Hér eru alls nöfn 27 tegunda, en fæstar þeirra hafa hagnýtt gildi til skóg- eða trjáræktar og eru þarna nánast upp á punt, ef svo má segja, t.d. askur og beyki. Kvæmin 100 skiptast þannig á tegundir, að af gráelri eru 25, alaskabirki 16, vörtubirki 14, sitkaelri 10, og af öðrum tegundum 1-6 kvæmi hverri, þar af eru 12 tegundir með aðeins 1 kvæmi. Eðli málsins samkvæmt eru ekki skráðar hér neinar tegundir af þeim lauftrjám, sem alla jafna er fjölgað með stiklingum. Því eru hér engar aspa- eða víðitegundir. Þá vantar einnig mörg lauftré, sem svo til eingöngu eru notuð sem skrúðtré, t. d. allan reynivið.
V. Fræmagn
Í fjölriti Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins nr. 5, 1994, “Um fræöflun og fræskráningu”, er tafla yfir móttekið fræ samkvæmt Fræskrá 1933 - 1992. I. Barrtré. Þar má sjá, að fræþyngdin er alls 3.927 kg. Sitkagrenifræ er rúmur fjórði hluti, 1.037 kg, rússalerkifræ 604 kg og rauðgrenifræ 395 kg, svo nefnd séu nokkur dæmi, en í rauninni hefir það enga þýðingu að bera saman fræmagn eftir þyngdinni einni, án tillits til fræþyngdar einstakra tegunda, eins og útskýrt er í fyrrnefndri grein um fræskrána í Skógræktarritinu 2000. Þegar viðaukinn, sem minnst var á hér á undan, hafði verið felldur inn í fræskrána, bættust við rétt 100 kg af fræi. Mest munar þar um sitkagreni, 38 kg og lindifuru, 35 kg. Afgangurinn skiptist á 12 tegundir.
Að því er varðar fræmagn í Fræskrá 1933-1992. II. Lauftré, skal aðeins nefnt, að íslenskt birkifræ vegur hátt í 3.000 kg. Rúmum þriðjungi þess var safnað í Bæjarstaðaskógi og Hálsum í Morsárdal. Næst að þyngd er fræ frá Skaftafelli, tæp 800 kg. Fræ úr Hallormsstaðaskógi er rúm 350 kg og úr Vaglaskógi tæp 300 kg. Afgangurinn dreifist á ýmsa staði í öllum landsfjórðungum. Stærsta einstök söfnun á birkifræi var 250 kg í Skaftafelli árið 1942.
VI. Aðrar athugasemdir
Það er ekki fyrr en árið 1957, sem byrjað er að færa íslenskt birkfræ í fræspjaldskrá Skógræktar ríkisins. Þurfti eftir ýmsum krókaleiðum að fylla inn í 24 ára eyðu. Er þess mjög oft getið í athugasemdum í fræskránni, að tölur fyrir söfnun og afhendingu á íslenska birkifræinu séu áætlaðar eða upplýsingar vanti. Reyndar var þetta sú trjátegund í fræskránni, sem hvað erfiðast var að henda reiður á.
Þótt áhersla hafi verið lögð á það, við endurskoðun á fræskránni, að leita uppi villur og leiðrétta þær, er ekki loku fyrir það skotið, að einhverjar slíkar leynist þar enn.
Verði einhver var við villur, er þess vinsamlegast óskað, að upplýsingar um það, verði sendar skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Skúlatúni 6 í Reykjavík eða með tölvupósti á netfangið skog@skog.is til að flýta fyrir lagfæringum og gera fræskrána sem áreiðanlegasta eins og stefnt hefir verið að við gerð hennar frá upphafi.
Einari Gunnarssyni, skógræktarfræðingi og Jóhanni F. Gunnarssyni þakka ég ánægjulega samvinnu við frágang og birtingu fræskrár og formála á heimasíðu félagsins.
Síðasta vetrardag árið 2001,
Baldur Þorsteinsson