Þegar minnst er á skógrækt sjá líklega flestir fyrir sér vígalegan skógarhöggsmann með keðjusög í annarri hendi og lerkilurk í hinni inni í miðjum skógi. Vissulega er starf skógarmanns stór hluti af starfsemi Skógræktarinnar en innan stofnunarinnar eru þó mun fleiri störf og fjölbreytt. Það mætti halda því fram að Skógræktin hefði eitthvað fyrir alla!

Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Hlutverk Skógræktarinnar er að hafa forystu um uppbyggingu skógarauðlindar á Íslandi með víðtækri samvinnu, vinna að vernd og friðun skóga og draga fram hagrænan, umhverfislegan og samfélagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu skóga.

Skógræktin rækir hlutverk sitt með því að veita framlög og ráðgjöf til skógræktenda, rækta og hirða um þjóðskógana, endurheimta birkiskóga, sinna rannsóknum innan lands og í samstarfi við aðrar þjóðir og hafa forystu um að afla og miðla þekkingu á skógrækt á Íslandi. Jafnframt með því að hvetja til samvinnu og veita ráðgjöf á sviði skógræktar á Íslandi með áherslu á sjálfbærni, eflingu byggðar, verðmætasköpun og mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Til þess að rækja þetta hlutverk sitt þarf Skógræktin á fjölbreyttum starfsmannahóp að halda sem hefur ólíkan bakgrunn og menntun. Stofnunin er með starfstöðvar um allt land og hefur um árabil nýtt fjarfundabúnað í starfsemi sinni. Hér á eftir fylgir yfirlit yfir helstu störf innan stofnunarinnar ásamt stuttri lýsingu á hverju starfi.

 

Sérfræðingar og aðstoðarsérfræðingar

Sérfræðingar og aðstoðarsérfræðingar Skógræktarinnar heyra undir rannsóknasvið stofnunarinnar sem aðalaðsetur á Mógilsá. Þeir vinna að ýmsum rannsóknum sem tengjast skógrækt, s.s. um erfðaauðlindir, landupplýsingar, nýræktun skóga og skjólbelta, loftslagsbreytingar, trjá- og skógarheilsu, umhirðu og afurðir skóga og vistfræði skóga. Þessir starfsmenn eru menntaðir í skógfræði, landfræði, plöntufræði, vistfræði og eðlisfræði svo eitthvað sé nefnt.

Hvert skyldi vera starfsvið sérfræðings og helstu verkefni? Fáum dæmi.

Brynja
Hrafnkelsdóttir

sérfræðingur

„Ég starfa sem sérfræðingur á rannsóknasviði við spennandi og fjölbreyttar rannsóknir sem tengjast heilsufari trjáa og skóga.“

„Til að mynda vistfræðirannsóknir þar sem smádýralíf er skoðað á ólíkum svæðum, kynbótarannsóknir þar sem er reynt að finna réttan efnivið sem þolir skaðvalda betur og vöktun þar sem ástand skóga og skemmdir eftir skaðvalda eru skrásettar.“

 

Skógarverðir og aðstoðarskógarverðir

Skógarverðir og aðstoðarskógarverðir tilheyra sviði þjóðskóga sem hefur umsjón með ríflega fimmtíu lendum um allt land. Þjóðskógarnir eru öllum opnir allan ársins hring. Skógarverðir eru fjórir talsins (Austurland, Suðurland, Norðurland, Vesturland/Vestfirðir) og hafa umsjón með daglegum rekstri og framkvæmdum í þjóðskógunum, umsjón með fjármálum, eignum, tækjum og vélum, skógvernd og framþróun fjölhliða nýtingar skóga. Til að gegna stöðu skógarvarðar þarf háskólamenntun í skógfræði.

Aðstoðarskógarverðir koma að skipulagningu og framkvæmd verkefna í þjóðskógunum. Háskólamenntun í skógfræði er æskileg en ekki nauðsynleg. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa reynslu af vinnu við gróður­setn­ingu, grisjun og aðra skógarumhirðu sem og af skógmælingum og gerð skógræktaráætlana og æskilegt er að hafa reynslu af verkstjórn, mannaforráðum og notkun Arc Info. Hæfni til að stjórna verkefnum og vinna hvort heldur sem er sjálfstætt eða í hópavinnu er skilyrði.

En hvað nýtist best í starfi aðstoðarskógarvarðar?

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir

Bergrún Arna
Þorsteinsdóttir

aðstoðarskógarvörður

„Í starfi nýtist mér vel að vera alin upp í sveit og hafa unnið við bústörf og vélar frá barnsaldri en líka að hafa lært garð­yrkju­fræði.“

„Svo vann ég víða í Noregi við uppeldi skógarplantna og fékk mikla reynslu þegar ég kom til Skógræktarinnar og vann með fólki með allt að 50 ára starfsreynslu. Stutt námskeið um allt mögulegt og reynslan eftir 33 ár hjá stofnuninni, allt frá sumarstarfsmanni í tjaldvörð, starfsmanni í plöntuuppeldi í ræktunarstjóra þar til gróðrarstöðin var lögð niður á Hall­orms­stað. Þá hófst nýr kafli og ég fluttist í skógarhlutann, fór að setja mig inn í sögun, þurrkun og allt sem tilheyrir framleiðslu á timbri, umhirðu skóga og áfram mætti telja.“

 

Verkefnastjórar

Verkefnastjórar starfa á þvert á svið og sinna flestir ákveðnum verkefnum, s.s. skipulags- og umhverfismálum, kynningarmálum, fræðslumálum, mannauðsmálum, fræmálum, uppgjörsmálum og markaðsmálum. Fyrir flest þessara starfa er gerð krafa um háskólamenntun og reynslu af starfsviði.

En hver eru helstu verkefnin?

Páll
Sigurðsson

skipulagsfulltrúi

„Ég fæ fjölbreytt og skemmtileg verkefni inn á borð til mín.“

„Helstu verkefnin eru umsagnir um skipulagsmál og ýmiss konar opinbera stefnumörkun. Það er margt í þeim málum sem hefur áhrif á hvernig skógrækt og meðferð skóga verður hagað í náinni framtíð, bæði í stærra samhengi, og svo á hverjum stað. Svo er ég líka að vinna að landshlutaáætlunum í skógrækt og ýmsu fleiru.“

 

 

Verkstjórar og skógarhöggsmenn

Verkstjórar og skógarhöggsmenn tilheyra sviði þjóðskóga. Þessir starfsmenn koma að margvíslegum störfum, s.s. gróðursetningu og áburðargjöf, gönguleiða- og stígagerð, skógarumhirðu og grisjun, útkeyrslu viðar og viðarvinnslu. Ekki er gerð krafa um menntun fyrir þessi störf en menntun í skógtækni er kostur. Skógarhöggsmenn sækja námskeið í notkun og viðhaldi keðjusaga þar sem farið er ítarlega í öryggismál.

Hvað skyldi verkstjóra í skógarvinnu líka best við starfið sitt?

Níels Magnús Magnússon

Níels
Magnús
Magnússon

verkstjóri Haukadal

„Það sem mér líkar best við starfið mitt hjá Skógræktinni er fyrst og fremst að fá að vinna úti í íslenskri náttúru allan ársins hring, sérstaklega í okkar fallegu og friðsælu skógum.“

 

 

 

Skógræktarráðgjafar

Skógræktarráðgjafar tilheyra sviði skógarþjónustu. Ráðgjafar eru um allt land og í hverjum landshluta sér einn um að samræma starfið á viðkomandi svæði auk þess að sinna sjálfur verkefnum skógræktarráðgjafa. Þau snúast öll um starfsemi nytjaskóga á lögbýlum, s.s. grunnkortlagningu, áætlanagerð, ráðgjöf og tölvuvinnslu. Æskilegt er að hafa háskólagráðu í skógfræði eða tengdum greinum, reynslu af ráðgjöf, áætlanagerð, skógrækt og starfsemi bændaskógræktar. Hvernig ætli skógræktarráðgjafa líki starfið?

Kári Lefever

Kári Lefever

skógræktarráðgjafi

„Starf skógræktarráðgjafa er fjölbreytt og blessunarlega felst stór hluti starfsins í vinnu úti í skógi. Það eru góðir dagar og ánægjulegir.“

„Samvinna við skógarbændur er stór hluti af starfinu og gaman að kynnast góðu fólki í sveitum landsins. Svo er líka gaman að „eiga“ smá hlutdeild í uppvaxandi skógum Íslands og vita af nýjum skógum breiðast um sveitirnar – sem mætti þó ganga hraðar. Að vinna hjá Skógræktinni er gott. Þar er fyrirmyndar starfsandi, áhugi á viðfangsefninu mikill og starfsfólki sýnt mikið traust. Allt þetta skilar sér í góðum árangri.“

 

 

 

 

Starfsmenn á sviði rekstrar

Á rekstrarsviði starfa m.a. bókarar, launafulltrúi, skjalavörður og gjaldkeri. Þeir sinna öllum verkefnum sem lúta að bókhaldi, launahaldi og skjalavörslu. Æskilegt er að viðkomandi starfsmenn hafi menntun og reynslu sem nýtist í starfi.

Anna Pálína Jónsdóttir er launafulltrúi Skógræktarinnar. Hvað skyldi hún gera í vinnunni og hvernig ætli henni líki vinnan?


Anna Pálína Jónsdóttir

launafulltrúi

Anna Pálína Jónsdóttir

„Ég er hef unnið hjá stofnuninni í 24 ár og er mjög ánægð í mínu starfi.“

„Skemmtilegust eru samskiptin við starfsfólkið sem er alveg einstakt. Ég held utan um launaskráningu starfs­manna og launakeyrslu, skráningu orlofs og veikindadaga sem ég sendi Fjársýslunni og uppfærslu launa frá Fjár­sýsl­unni til að setja inn í bókhaldskerfið. Hef að hluta til umsjón með ráðningarsamningum, er í sambandi við ýmis stéttarfélög vegna kjarasamninga og lífeyrissjóði starfs­manna. Svara líka alls konar fyrirspurnum um fjölda stöðugilda, menntun starfsmanna, kynjahlutfall og fleira.“

 

Sviðstjórar

Sviðstjórar eru eðli málsins samkvæmt framkvæmdastjórar sviða stofnunarinnar. Einnig er vert að nefna fagmálastjóra sem er staðgengill skógræktarstjóra. Sviðstjórar bera ábyrgð á rekstri sinna sviða og daglegri stjórnun þeirra auk þess sem þeir sitja í framkvæmdaráði stofnunarinnar ásamt skógræktarstjóra. Gerð er krafa um háskólamenntun, umtalsverða reynslu og þekkingu á skógrækt auk rekstrarreynslu.

Sigríður Júlía

Hrefna Jóhannesdóttir

sviðstjóri skógarþjónustu

Skógræktin er mjög dreifð stofnun og sviðstjórar þurfa að stýra starfsfólki sem dreift er um allt land. Hvernig skyldi það vera, Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs?

„Þetta er krefjandi starf þar sem sviðstjóri þarf að vera með yfirsýn yfir starfsemi víða og setja sinn inn í fjölbreytt mál og mismunandi aðstæður.“

„Því skiptir það mjög miklu máli að sýna fólkinu traust sem vinnur á sviðinu og að það sé gagnkvæmt. Vissulega getur fjarlægðin verið til trafala en ég reyni að gera mitt besta til að hitta starfsfólkið reglulega og ef ekki í raunheimum þá í netheimum. Þá skiptir máli að bregðast hratt við og greiða úr þegar starfsfólk hefur samband,“ segir Hrefna.

 

Skógræktarstjóri

Hvers vegna skóga, þröstur? „Vegna alls þess sem skógar gefa, þá er deginum ljósara hvað það er sem vantar í skóglausu landi – meiri skóg (og minna kjaftæði).“

 

Skógræktarstjóri er æðsti yfirmaður Skógræktarinnar. Um hlutverk hans er kveðið á í lögum: „Hann skal hafa háskólagráðu á málefnasviði stofnunarinnar. Skógræktarstjóri ber ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi Skógræktarinnar og ræður annað starfsfólk hennar.“

En hvers vegna skógrækt, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri?

„Vegna alls þess sem skógar gefa, þá er deginum ljósara hvað það er sem vantar í skóglausu landi – meiri skóg (og minna kjaftæði).“