Nokkrir sjálfstæðir aðilar bjóða fólki nú að greiða fyrir skógrækt til kolefnisbindingar á Íslandi til mótvægis við ýmsar athafnir sínar eða einfaldlega til þess að draga úr magni koltvísýrings í lofthjúpnum, stækka skóglendi jarðar og leggja sitt til baráttunnar gegn röskun skóga og loftslags. Misjafnt er hvort boðið er upp á alþjóðlega vottun í þessum verkefnum Vottun er ekki nauðsynleg almenningi og smærri aðilum sem vilja binda kolefni en þurfa enns em komið er ekki að standa skil á bindingunni í kolefnisbókhaldi. Hér er því að finna úrval hentugra leiða og ástæða til að hvetja fólk til að nýta sér þær sem mest. Vaxandi áhugi er meðal almennings og fyrirtækja að leggja fé til skógræktar og einnig gætir aukins áhuga ferðafólks og ferðaþjónustufyrirtækja að stuðla að bindingu á móti þeirri losun sem af ferðalögunum stafar.
Samkvæmt tekjuskattslögum mega lögaðilar nota allt að 0,85% árstekna til kolefnisverkefna án tekjuskattsgreiðslu. Þetta á við aðgerðir í rekstri sem stuðla að kolefnisjöfnun lögaðila sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslu og endurheimtar votlendis.
Land Life Company er alþjóðlegt fyrirtæki sem stofnað var utan um þá sannfæringu að drífa mætti áfram nýsköpun í endurheimt landgæða með hjálp viðskipta og tækni. Markmið fyrirtækisins er að nýta afl viðskipta- og tæknilífsins til að finna nýjar leiðir við að breiða út á ný eitthvað af því skóglendi sem jarðarbúar hafa eytt á umliðnum árum og öldum. Nú starfa hjá Land Life yfir 70 sérfræðingar sem brenna fyrir málefninu og fyrirtækið er með starfsemi í fjórum heimsálfum. Sérstakt ráðgjafaráð stýrir starfseminni en auk þess starfar innan raða þess sérstakt vísindaráð enda eru rannsóknir og þekking snar þáttur í allri starfsemi Land Life. Nú þegar hefur Land Life fjármagnað nokkur skógræktarverkefni á Íslandi. Aðilar sem vilja starfa með Land Life og leggja fjármuni í að breiða út skóglendi heimsins, meðal annars á Íslandi, geta óskað eftir samstarfi á vef Land Life og þá hafa fulltrúar fyrirtækisins samband.
Yggdrasill Carbon (YGG) er íslenskt þekkingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í verkefnum á sviði vottaðra verkefna sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni. YGG vinnur að verkefnum sem stuðla að bindingu kolefnis með skógrækt. Það er gert með því að beita alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði við mælingu raunávinnings einstakra verkefna sem leiðir til þess að út eru gefnar vottaðar kolefniseiningar. Vottun stuðlar að gegnsærri kolefnisjöfnun sem styður við markmið um kolefnishlutleysi og er í auknum mæli kallað eftir því gagnsæi. YGG leitar sérstaklega eftir samstarfi við landeigendur og fyrirtæki sem vilja grípa til aðgerða sem minnka losun og binda kolefni, með það að markmiði að auka verðmætasköpun við landnýtingu eða í rekstri fyrirtækja.
eru góðgerðarsamtök með það markmið að auðvelda fólki að bæta umhverfið með gróðursetningu trjáa. Verkefni þeirra eru víða um heim og fara fram í samstarfi við nærsamfélög og sérfræðinga til að skapa ágóða fyrir náttúruna, fólk og dýralíf. Skógrækt endurreisir skóga í kjölfar skógareyðingar, hefur jákvæð samfélagsleg áhrif t.d. með því að skapa störf, bindur kolefni úr andrúmsloftinu og eflir líffjölbreytni. Verkefnin ná fjölþættum markmiðum og skapa margs konar ágóða sem styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fyrsta verkefni One Tree Planted á Íslandi er að Ormsstöðum í Breiðdal. Hægt er að fræðast um One Tree Planted á vef samtakanna.
Súrefni er íslenskt fyrirtæki sem gerir öllum kleift að taka ábyrgð á eigin kolefnisfótspori með kolefnisbindingu í skógrækt. Fyrirtækjum og einstaklingum er boðin sérsniðin þjónusta til að draga úr eigin kolefnisfótspori og binda umfram losun. Á vegum Súrefnis er eingöngu gróðursett í vottunarhæfum kolefnisjöfnunarskógi í samstarfi við Skógræktina og alþjóðlegar vottunarstofur. Markmiðið er að öll kolefnisjöfnunarskógrækt á vegum Súrefnis verði vottuð með alþjóðlegri vottun. Félagið býður upp á reiknivél þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta reiknað út losun sína til að átta sig á hversu mikið þurfi að binda á móti. Einnig er í boði einföld lausn fyrir fólk sem vill einfaldlega kaupa tré í stykkjatali og stækka þar með skóglendi heimsins.
er verkefni á vegum Skógræktarfélags Íslands og Landverndar sem býður fólki að greiða fyrir gróðursetningu á þeim fjölda trjáa sem það óskar. Gróðursett er í löndum skógræktarfélaga víða um land. Í reiknivél á vef verkefnisins getur fólk reiknað út kolefnislosun heimilisbílsins og flugferða. Reiknivélin gefur upplýsingar um hversu mörg tré þurfi að gróðursetja til að jafnmikið kolefni bindist í trjám og jarðvegi og svo getur fólk greitt fyrir gróðursetninguna.
er verkefni á vegum ferðaskrifstofunnar Nordic Green Travel með höfuðstöðvar í Þorlákshöfn. Ferðafólki er boðið að kaupa tiltekinn fjölda trjáa í nokkrum flokkum sem gróðursett verða á svæði sem fyrirtækið hefur fengið til skógræktar. Einnig er í boði að fólk geti sjálft tekið þátt í gróðursetningu sem hluta af ferðaupplifun sinni á Íslandi.