Vísindaleg og reglubundin söfnun upplýsinga um skóga og skógrækt á Íslandi. Vöktunarverkefni

ÍSÚ er verkefnahópur sem hefur það að meginmarkmiði að safna saman á vísindalegan hátt upplýsingum um skóga og skógrækt á Íslandi. Úr upplýsingunum sem verkefnahópurinn safnar eru unnin gögn í:

  • árlega skýrslu Íslands til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og fleiri skýrslur tengda kolefnisbókhaldi skóga og skógræktar.
  • skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, um ástand skóga heimsins sem kemur út á 5 ára fresti, Global Forest Resources Assessments. Síðasta skýrslan, FRA 2020, kom út árið 2020.
  • skýrslu skógræktarmálaráðherra Evrópulanda um stöðu skóga í Evrópu sem gefin er út á 5 ára fresti. Síðasta skýrsla kom líka út 2020, State of Europe’s Forests 2020 Report.
  • erlendar og innlendar skýrslur og greinar fyrir stjórnvöld og almenning.

Meginverkefni ÍSÚ eru:

Gagnagrunnur um skóga á Íslandi

Safnað er saman árlega í landfræðilegan gagnagrunn upplýsingum um staðsetningu og afmörkun nýskógræktar á vegum opinberra stofnana og verkefna ásamt kortlagningu eldri skógræktar. Þessi grunnur er m.a. nýttur til að leggja út mælifleti í Landskógarúttekt (sjá hér á neðan). Vefsjá um skóglendi á Íslandi, bæði ræktaða skóga og náttúrulegt birki, má nálgast á vef Skógræktarinnar. Þar má einnig nálgast landupplýsingagögn um skóglendi á Íslandi.

Landsskógarúttekt

Í Landsskógarúttekt eru lagðir út mælifletir í skógum landsins á tilviljunarkenndan hátt. Hver reitur er heimsóttur á 5 ára fresti og framkvæmdar skógmælingar, mælingar á botngróðri og fleiri athuganir. Þannig er hægt að fylgjast með framþróun skógræktar, þar með talið kolefnisbindingu skóganna.

Úttektir á náttúrulegu birki á Íslandi

Verkefnið er mikilvægur hluti af því að vakta vernd og endurheimt birkiskóga á Íslandi auk þess að vera nauðsynleg upplýsingaöflun vegna kolefnisbókhalds skóga á Íslandi. Tilviljunarkenndir mælifletir eru lagðir út á svipaðan hátt og í Landsskógarúttekt, hver reitur heimsóttur á 10 ára fresti og framkvæmdar mælingar. Árið 2020 var lokið við að mæla alla mælifleti í birkiskógum í annað sinn. Þriðja mæling á mæliflötum í birkiskógum hefst 2025.

Úrvinnsla jarðvegs- og gróðursýna úr Landsskógarúttekt

Safnað hefur verið miklu magni af jarðvegs- og gróðursýnum í landsskógarúttektum síðustu ára sem verið að vinna úr og meta kolefnisforða í jarðvegi og gróðri. Keypt voru ný greiningartæki í samstarfi með Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslunni sem nýtt eru til mælinganna.

Rannsóknarsvið

Loftslagsdeild

Tengiliður Skógræktarinnar

Arnór Snorrason

Starfsmenn Skógræktarinnar

Arnór Snorrason

Bjarki Þór Kjartansson

Björn Traustason

Ólafur Stefán Arnarsson