Ýmsir koma að skógrækt hér á landi í gegnum skógræktarverkefni, félagasamtök og fleira. Skógrækt á Íslandi má skipta annars vegar í ríkis- og atvinnutengda skógrækt og hins vegar í skógrækt áhugamanna og félaga. Ef smellt er á aðalflipann „Skógrækt“ efst á síðunni hægra megin má finna ýmsar upplýsingar og fróðleik um skógrækt, skógarumhirðu, trjátegundir, skaðvalda, félagsmál og fleira.
„Hvor vi ikke kan slå og hvor vi ikke kan så, der skal et træ stå.“
(danskt máltæki)
Trjátegundir og trjáheilsa
Hér er að finna fróðleik um helstu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi, annars vegar lauftré og hins vegar barrtré. Algengast er að flokka tegundir til trjáa sem náð geta sex metra hæð fullvaxnar en hér á Íslandi, þar sem þjóðin hefur vanist lágvöxnu birki, teljast tveggja metra birkiplöntur hiklaust til trjáa. Tré eru langlífar jurtir þótt tegundir trjáa geti orðið mjög misgamlar.
Fræðsluefni og skógarnám
Á fræðsluvef Skógræktarinnar um er birt margvíslegt fræðsluefni um skógrækt, skógarumhirðu og skógarnytjar en einnig um almenna skógarfræðslu, skógarleiðsögn, útinám og fleira. Fræðsla er mikilvægur þáttur í skógræktarstarfi. Ef skógurinn er ræktaður af kunnáttusemi og natni frá upphafi lifa fleiri tré að vaxa úr grasi, trén verða hraustari og fallegri og skógurinn þar með betri og verðmætari. Útivist í skógi er ein tegund skógarnytja og mikilvægt er að byggja upp skógarmenningu í landinu samhliða því að skógarauðlindin verður til. Fræðsluefni þessu er beint að þeim skógræktendum sem njóta stuðnings hins opinbera til skógræktar á lögbýlum en ekki síður að kennurum og nemendum í skólum landsins og öllum almenningi.
Skógræktarverkefni
Ríkis- og atvinnutengd skógræktarverkefni sem unnið er að hérlendis eru fjölbreytileg. Með tilkomu skógræktarverkefna á lögbýlum var skapaður grundvöllur fyrir fólk um allt land sem vildi búa áfram á jörðum sínum þrátt fyrir að búskapur stæði einn og sér ekki undir rekstri búsins. Þessi verkefni urðu hluti af Skógræktinni þegar hún tók til starfa 1. júlí 2016. Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Skógræktina og ráðuneytið. Hugmyndin með Hekluskógaverkefninu var síðan að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu.
Félög og samtök
Að skógrækt koma ýmis félagasamtök. Fjölmennust eru þau ríflega sextíu skógræktarfélög sem starfrækt eru um allt land undir hatti Skógræktarfélags Íslands. Auk skógræktarfélaganna ræktar umtalsverður fjöldi bænda um allt land skóga og starfrækja þeir Landssamtök skógareigenda. Að lokum má nefna Skógfræðingafélag Íslands en markmið félagsins er að efla samheldni skógfræðinga í því skyni að bæta aðstöðu þeirra faglega og félagslega.
Lög og reglugerðir
Alþingi hefur sett ýmis lög er varða skógrækt. Auk þeirra verður að huga að reglum um skógrækt við ýmis tilefni, t.a.m. þegar unnið er að skipulagsmálum.
Siðareglur
Skógræktin hefur sett sér siðareglur sem meðal annars er ætlað að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra starfsmanna í samskiptum við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir.