Umhverfis húsakynni Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, er blandaður skógur með gönguleiðum við rætur Esjunnar.

Almennt um skóginn

Fjölmargir hafa farið um skógana í Esjuhlíðum á leiðinni á toppinn, en sjálfsagt hafa færri komið í skóginn í kringum og fyrir ofan aðsetur Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Þar er blandaður skógur og merkt klónasafn Mógilsár. Fjölmargir stígar og stíganet tengist Esjustígum.

Staðsetning og aðgengi

Mógilsá er við þjóðveg 1, innst í Kollafirði. Beygt er af þjóðveginum við Esjustofu og strax til hægri. Eftir spölkorn á afleggjaranum með fram tjörninni er heimreiðin að Mógilsá á vinstri hönd.

Aðstaða og afþreying

Fjölmargir stígar liggja um skóginn, yfir læki og bakka, skógi vaxnar hlíðar í umgjörð Esju, eins vinsælasta útivistarsvæðis höfuðborgarinnar. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum (sjá kort að neðan) en margir minni stígarnir eru í raun tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu; styttri Esjuganga í sjálfu sér.

Saga jarðarinnar

Árið 1967 var ákveðið að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var reist rannsóknarhús á jörðinni Mógilsá í Kollafirði fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum. Tilefni þjóðargjafarinnar var heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961. Eðlilegur þáttur í skógræktarrannsóknum er að reyna nýjar trjátegundir og hefur mikið af því efni endað í brekkunni fyrir ofan við húsakynni Mógilsár. Þar er því einhver fjölbreyttasti skógur landsins og margt forvitnilegt að sjá.

Trjárækt í skóginum

Skógurinn er einna mestur í kringum hús rannsóknasviðs á Mógilsá og nú er hann formlega orðinn trjásafn með tegundum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur, nordmannsþinur, svartelri og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en flestar trjátegundir eru merktar.

Annað áhugavert í skóginum

Á Mógilsá er fjölbreytt fuglalíf á vorin og í byrjun sumars, enda koma margir flækingar við á Mógilsá. Landslag í undirhlíðum Esju er skemmtilegt, með hólum, giljum og lækjum.

Kort af skóginum

Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum, eins og sjá má á kortinu. Litmerktum leiðum er lýst í gönguleiðabæklingi Mógilsár sem m.a. má nálgast á Mógilsá og í Esjustofu. Rétt er að vekja athygli á því að leiðirnar eru miserfiðar og þær erfiðustu sem liggja upp úr skóginum og alla leið á Esjubrún geta verið varasamar í bleytutíð og á vetrum. Lesið vandlega leiðarlýsingar og farið eftir leiðbeiningum í hvívetna. Gott er að skilja eftir ferðaáætlun á safetravel.is áður en lagt er upp.

Hlaða niður bæklingi með gönguleiðakorti

Download a leaflet with hiking trail map