Hverjar eru helstu gerðir skógræktar á Íslandi?

Skipta má skógrækt í sjö meginflokka, auk fjölnytjaskógræktar þar sem markmiðin skarast.

Ýmsar stofnanir og samtök unnu að verkefninu Skógrækt í sátt við umhverfið á fyrsta áratug aldarinnar og árið 2009 var afraksturinn gefinn út í formi tillögu að stefnumótun í skógrækt á Íslandi. Í verkefninu voru settir fram sex flokkar skógræktar eftir markmiðum en síðan hefur einn flokkur bæst við, kolefnisskógrækt. Oft falla mörg þessara markmiða saman og þá er talað um fjölnytjaskógrækt. Hér á eftir skulu flokkar þessir tíundaðir.

1. Borgarskógrækt. Í þennan flokk fellur skóg- og trjárækt innan þéttbýlissvæða. Með slíkri ræktun er stefnt að bættu og fegurra umhverfi í þéttbýli, auknum loftgæðum, minni hávaða, eflingu lífríkis o.s.frv. Þegar gróðursett eru tré í görðum og á opnum svæðum í þéttbýli er mikilvægt að huga áhrifum þess á nágrennið þegar trén stækka. Sveitarfélög geta sett reglur um trjárækt í þéttbýli. Í Reykjavík er í gildi reglugerð sem segir að á lóðarmörk megi ekki gróðursetja tré sem verða hærri en 1,8 m og að stór tré megi einungis gróðursetja í að lágmarki þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum.

2. Endurheimt náttúruskóga. Eitt af meginmarkmiðum skógræktar hér er endurheimt náttúruskóga landsins, en við landnám er talið að 25%-40% landsins hafi verið skógi eða kjarri vaxin. Þetta voru birkiskógar og birkikjarr með stöku gulvíði og reyniviði og á fáeinum stöðum blæösp, auk þess sem víðitegundir mynduðu samfelldar flesjur. Nú þekur birkiskóglendi einungis um 1,5% landsins. Við endurheimt náttúruskóga eru notaðar þær trjátegundir sem hér voru að fornu, birki, reyniviður, gulvíðir og blæösp en einnig loðvíðir sem telst runni en ekki tré. Beitarfriðun umhverfis skógarleifar getur verið árangursrík aðferð við að breiða náttúruskógana út á ný. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka svokallaðri Bonn-áskorun Evrópulanda með því að setja markið á 5% þekju birkiskóglendis á Íslandi árið 2030.

3. Landgræðsluskógrækt. Markmið þessarar skógræktar er jarðvegsvernd, endurhæfing vistkerfa, skjólmyndun, vatnsmiðlun og aðrir umhverfisþættir. Vöxtur og form trjánna er ekki aðalatriði, þótt auðvitað sé nauðsynlegt að þau nái eðlilegum þroska. Skógrækt með þessu markmiði er jafnan stunduð á svæðum sem eru illa farin af jarðvegs- og gróðureyðingu. Nánar um verkefnið Landgræðsluskóga.

4. Nytjaskógrækt. Skógrækt með þessu markmiði er gjarnan skipt í tvo meginflokka, timburskógrækt og jólatrjáarækt. Aðalmarkmið timburskógræktar er að skapa auðlind sem orðið getur undirstaða fjölbreyttrar atvinnustarfsemi í framtíðinni. Í timburskógrækt þarf að leggja áherslu á góðan vöxt trjánna og viðargæði. Einnig þarf oft að huga sérstaklega að vaxtarhvetjandi aðgerðum, eins og jarðvinnslu og áburðargjöf. Afurðir slíkrar ræktunar geta verið fjölbreyttar, til notkunar í ýmiss konar handverk, smíðar og iðnað. Aðeins lítið brot af timbri sem nýtt er í heiminum verður að smíðaviði. Meirihlutinn er ýmiss konar iðnviður, m.a. sem orku- eða kolefnisgjafi. Skógrækt á lögbýlum er stærsta nytjaskógaverkefni landsins.

Jólatrjáræktun er stunduð til þess að framleiða tré og greinar til skreytinga á aðventu og jólum. Slík skógrækt gerir miklar kröfur til útlits trjánna og trjátegundavals. Jólatré eru ræktuð víða um land. Mest er ræktað af rauðgreni og stafafuru, en einnig töluvert af sitkagreni, blágreni og fjallaþin til notkunar um jólin. Jólatrjáarækt dregur úr innflutningi bæði lifandi jólatrjáa og gervitrjáa og er þar með mikilvægt umhverfismál en styrkir líka innlenda atvinnustarfsemi og ræktun.

5. Skjólbeltarækt. Markmið skjólbeltaræktar er að auka uppskeru og veita búfénaði, mannvirkjum og mannlífi skjól. Skjólbeltin stuðla að aukinni framleiðni í landbúnaði og auka verðmæti annarra framleiðsluþátta. Þau veita líka mikilvæga vörn gegn náttúruöflunum. Eins má nefna önnur markmið eins og byggja upp skjól fyrir frekari skóg- og garðrækt. Fjölbreytni í vali á tegundum trjáa og runna er mikilvæg vegna útlits beltanna og ræktunaröryggisins, auk þess sem slík belti geta orðið mikilvæg fyrir ýmsar lífverur, ekki síst fugla. Skjólbelti eru ekki endilega beinar trjáraðir heldur getur lögun þeirra og staðsetning í landslaginu verið með ýmsu móti eftir markmiðum ræktunarinnar. Gott er að njóta ráðgjafar sérfræðinga við skipulag og ræktun skjólbelta til að árangurinn verði sem bestur.

6. Útivistarskógrækt er stunduð með það að markmiði að skapa aðlaðandi umhverfi og útivistarvettvang fyrir almenning. Mikilvægt er að slíkir skógar séu fjölbreyttir og aðlaðandi ásamt því að veita gott skjól. Vöxtur og form trjánna skiptir minna máli en í ræktun til viðarnytja. Afbrigðilegt vaxtarform getur haft sérstakt aðdráttarafl á slíkum svæðum. Aðgengi fólks þarf að vera gott að útivistarskógum. Í slíkum skógum er yfirleitt þörf á aðgengilegum göngustígum og ýmisskonar aðstöðu til afþreyingar. Skógar landsins eru afar fjölsóttir. Skógrækt til útivistar og yndis er eitt meginmarkmið skógræktar í landinu. Útivistarskógrækt er algengust í og við þéttbýli og alfaraleiðir. Einnig er slík ræktun stunduð afar víða á sumarbústaðalöndum. Sumarbústaðahverfi landsins eru mörg hver orðin samfelldur skógur á að líta. Þá er líka vel hægt að flétta trjárækt þannig inn í þéttbýlisskipulag að úr verði aðlaðandi skógarumhverfi í sjálfri byggðinni. Slíkt dregur úr loft- og hljóðmengun, eflir lífríkið í þéttbýlinu og stuðlar að betri heilsu íbúanna.

7. Kolefnisskógrækt. Á síðustu árum hefur nýtt markmið orðið áberandi í skógrækt á Íslandi og víða um lönd, skógrækt til bindingar kolefnis sem mótvægi við losun. Taka skal skýrt fram að kolefnisskógrækt eða önnur sambærileg verkefni eiga ekki að vera fyrsta aðgerðin sem gripið er til í loftslagsmálum. Fyrsta verkefnið er að meta eigin losun, gera áætlun um hvernig draga megi úr henni og hrinda þeirri áætlun í framkvæmd. Það sem út af stendur – þá losun sem er óhjákvæmileg á hverjum tíma – er hægt að vega upp með mótvægisaðgerðum svo sem með nýskógrækt. Slík verkefni skulu unnin af ábyrgð og þau skulu vera gagnsæ og rekjanleg. Það er best gert með því að skrá þau í Loftslagsskrá Íslands og vinna þau samkvæmt alþjóðlega viðurkenndu vottunarkerfi. Dæmi um slíkt kerfi er Skógarkolefni.

Fjölnytjaskógrækt er viðbótarflokkur sem nær til þess þegar ofangreindir flokkar skarast að miklu leyti. Meginmarkmið skógræktarstarfsins (1-7) falla stundum saman, tvö eða fleiri, auk þess sem markmið ræktunarinnar geta breyst með tíma og þroska trjánna. Þá á hugtakið fjölnytjaskógrækt vel við og þetta gildir raunar um stóran hluta nýskógræktar á Íslandi.

Víða í nágrannalöndunum er aukinn þrýstingur á að skógar séu meðhöndlaðir sem fjölnytjaskógar, þar sem tekið sé tillit til sem flestra sjónarmiða svo sem náttúruverndar, aðgengis almennings og hagnýtingar. Hugtakið „fjölnytjaskógrækt“ er íslensk þýðing á ensku hugtaki, multipurpose forests eða multiple-use forestry sem má kynna sér með leit á vefnum.

Fjölnytjaskógrækt er hugtak sem lýsir bæði staðreynd og markmiðum. Staðreyndin er sú að allir skógar gegna fjölþættum hlutverkum, burtséð frá því hver meginmarkmiðin eru með ræktun þeirra. Þannig eru skógar sem ræktaðir eru til viðarnytja einnig búsvæði fjölda lífvera, þeir vernda jarðveg, binda kolefni, skapa skjól og eru nýttir til útivistar af fólki. Þeir framleiða líka fleira en trjávið, t.d. sveppi, ber, fugla, fæðu handa smádýrum í ám og lækjum sem aftur halda uppi fiskstofnum og margt fleira sem fólk getur haft nytjar af. Það sama gildir um skóga ræktaða með önnur meginmarkmið í huga. Skógar sem ræktaðir eru til uppgræðslu örfoka lands, til útivistar, til að endurhæfa brotið vistkerfi eða einfaldlega til að fegra land gegna einnig öllum þessum hlutverkum og geta þar að auki gefið af sér timbur í sumum tilvikum. Það er því eðlilegt að gera fjölnytjar að markmiði með skógrækt, án þess að það trufli meginmarkmiðið. Dæmi um fjölnytjaskóga má finna um allt land. Daníelslundur í Borgarfirði hefur verið nefndur sem ágætt dæmi um fjölnytjaskóg, þar sem markmið ræktunarinnar hafa breyst í tímans rás. Þegar skógrækt hófst þar var meginmarkmiðið timburnytjar. Það hefur hins vegar þróast í átt til útivistarskógræktar og er svæðið nú afar fjölsóttur útivistarstaður. Einnig er þar stunduð viðarnýting til þess að standa straum af kostnaði við útivistina. Heiðmörk og Kjarnaskóg, einhver vinsælustu útivistarsvæði landsins, mætti einnig flokka sem fjölnytjaskóga og marga fleiri skóga.

Nær „skógrækt á lögbýlum“ yfir alla skógrækt?

Nei, en ...

Eftirfarandi tveir möguleikar eru í boði fyrir eigendur jarða sem skilgreindar eru sem „lögbýli„. Sjá má fasteignaskrá hvort tiltekin jörð hefur þá skilgreiningu.

  • Fyrri möguleikinn er að gera samning um skógrækt á lögbýlum og þá er gerður samningur um skógrækt á jörðinni þar sem allt að 97% af samþykktum kostnaði eru greidd af ríkinu í formi plantna og framlaga sem eru ákveðin í sérstökum töxtum. Þá er ráðgjöf, eftirlit og gerð ræktunaráætlunar í boði án greiðslu. Gerðir eru samningar um allt niður í tíu hektara lands með þessu sniði. Samningnum er alltaf þinglýst sem kvöð á jörðinni. Sú kolefnisbinding sem á sér stað í skóginum er ekki vottuð og er ekki hægt að nýta á markaði en vissulega er haldið utan um kolefnisbindinguna í loftslagsbókhaldi Íslands. Ef áhugi er á þessu þá er sótt um og farið í viðeigandi ferli. Nánar hér.
  • Síðari möguleikinn er að gera samkomulag um ræktun skjólbelta eða skjóllunda. Opinberi stuðningurinn er fólginn í ráðgjöf, ræktunaráætlun, plöntum, plastdúk (sem er notaður í skjólbelti) og gróðursetningargreiðslur skv. taxta sem áður er minnst á. Þessu er ekki þinglýst og kolefnisbindingin ekki heldur vottuð. Ef áhugi er á þessu er sótt um og farið í viðeigandi ferli. Nánar hér.

Ýmsar aðrar leiðir eru til að fjármagna skógrækt, svo sem með styrkjum úr ýmsum sjóðum, til dæmis Landgræðslusjóði, eða með samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir. Sjá nánar í svari við spurningunni: Er hægt að lifa af því að vera skógarbóndi?

Er hægt að rækta tré í saltroki við sjó?

Við þessu er erfitt að gefa stutt svar og hvorki dugar já né nei.

Vert er að benda fyrst á upplýsingar um þátttöku í skjóllunda- og skjólbeltaverkefnum á vegum Skógræktarinnar sem finna má á vefnum skogur.is.

Ef fólki líst svo á að þátttaka í slíkum verkefnum komi til greina hvetjum við það til að sækja um. Þá hefur skógræktarráðgjafi frá okkur samband og fer yfir möguleikana á viðkomandi lögbýli.

En almennt svar við spurningunni gæti verið eitthvað á þá leið að vindasöm svæði með saltákomu við sjó séu almennt ekki ákjósanleg til skógræktar. Þó eru sannarlega til trjá- og runnategundir sem vaxið geta upp á slíkum svæðum. Í tilraunum á Miðnesheiði kringum Keflavíkurflugvöll hefur komið í ljós að saltþolnar tegundir eins og sitkagreni og jörfavíðir geta þrifist þar mjög vel, ekki síst ef búið er í haginn fyrir þær með jarðvegsbótum, til dæmis með hjálp niturbindandi plantna s.s. lúpínu.

Hafa verður þó í huga að á Miðnesheiði er fremur milt og aðstæður væntanlega talsvert hagstæðari fyrir gróður en þar sem kaldir vindar úr norðurhöfum geta geisað langtímum saman á öllum árstímum. En þar sem gróður vex á annað borð er alltaf hægt að mæla með því að reyna ræktun harðgerðra trjá- og runnategunda. Ef tekst að mynda skjól með harðgerðum tegundum er gjarnan með tímanum hægt að koma upp kröfuharðari tegundum einnig. Skjólleysið er iðulega eitt helsta vandamál skógræktandans í upphafi, ekki bara út við sjóinn. Best er að rækta tré í skjóli annarra trjáa en í skóglausu landi er enginn annar kostur en að byrja á berangri. Fyrsta kynslóð trjáa fórnar sér fyrir þær sem á eftir koma og smám saman eykst skjólið, gróskan og ræktunarmöguleikarnir með hraustari og fallegri trjám.

Er hægt að rækta skóg í öllum landshlutum?

Stutta svarið er já.

Það sem skiptir máli þegar skógur er ræktaður er að velja tegundir sem henta þeim aðstæðum sem eru á hverjum stað. Þar er átt við jarðveg, gróðurfar, veðurfar o.s.frv. Skógrækt er stunduð á láglendi í öllum landshlutum á Íslandi. Í öllum landshlutum er hægt að finna dæmi um skóga þar sem trjávöxtur er mjög góður og hægt að búast við seljanlegum timburafurðum í fyllingu tímans. Í öllum landshlutum eru líka svæði þar sem erfið skilyrði eru til skógræktar og vart hægt að búast við nýtanlegum afurðum. Þetta gildir líka um hálendið. Á slíkum svæðum felast markmið með skógrækt frekar í því að búa til skjól, verja jarðveg, efla landgæði, auka mótstöðu við náttúruöflunum o.þ.h. Ekki er gert ráð fyrir því að rækta innfluttar trjátegundir ofan 400-500 metra hæðar yfir sjó, þar með ekki á hálendinu. Á þessum svæðum er lögð áhersla á aukna útbreiðslu birki- og víðikjarrs. Skilyrði eru fyrir trjágróður að vaxa á mestöllu láglendi landsins og stórum hlutum hálendisins einnig. Með hlýnandi loftslagi stækka þessi svæði að mun ef fram fer sem horfir, sjá Ársrit Skógræktarinnar 2013, bls. 18.

Lesa má sér til um eiginleika og umhverfiskröfur einstakra trjátegunda á trjátegundavef Skógræktarinnar, í vefefni sem þar er vísað til, í öðru efni á netinu og auðvitað í ýmsum bókum og tímaritum. Benda má sérstaklega á  Skógræktarritið sem Skógræktarfélag Íslands gefur út tvisvar á ári.  Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur gefið út fjölda fróðleikspistla og fleira mætti nefna.

Er hægt að lifa af því að vera skógarbóndi?

Varla nema sem aukabúgrein, en ...

Skógrækt er verkefni til framtíðar og ekki er mikilla tekna að vænta af skógi á eigin landi fyrr en eftir nokkra áratugi frá því að ræktun hefst. Landeigendur sem njóta opinberra styrkja til nýskógræktar geta þó haft talsverðar tekjur af því að koma upp skógi á landi sínu ef þeir vinna verkin sjálfir, svo sem að girða, jarðvinna, gróðursetja og sinna fyrstu grisjun. Vert er að byrja á því að kynna sér skógrækt á lögbýlum.

Skógræktin greiðir allt að 97% af samþykktum kostnaði við skógrækt á lögbýlum, skv þinglýstum samningi sem gerður er um verkefnið á tiltekinni jörð. Hægt er að skoða taxtana hér. Skilyrði fyrir þátttöku skv lögum er að jörðin sé lögbýli. Við mælum með að fólk setji sig í samband við  skógræktarráðgjafa í viðkomandi landshluta.

Á síðustu árum hafa komið nýir möguleikar inn í skógrækt á Íslandi. Nú er hægt að stunda skógrækt sem ábyrga aðgerð í loftslagsmálum með því að búa til vottaðar kolefniseiningar með nýskógrækt. Fullgildar kolefniseiningar er hægt að nota á móti losun í grænu bókhaldi þegar bindingin er orðin í skóginum, hefur verið sannreynd, staðfest og vottuð. Slíkar einingar verða æ verðmætari eftir því sem kröfur til lögaðila aukast um kolefnishlutleysi. Einingar er hægt að versla með áður en þær verða fullgildar, þ.e.a.s. áður en bindingin að baki þeim er orðin í skóginum. Slíkar einingar eru kallaðar einingar í bið og eru ávísun á framtíðarbindingu sem verður hægt að nota á móti losun á tilteknu ári í framtíðinni og nýtast því í framtíðaráætlunum lögaðila um kolefnisjafnvægi. Með því að fara út í kolefnisskógrækt opnast möguleiki á því að fá tekjur fyrr af skógi sínum og það styrkir möguleika skógarbænda til að lifa af skógrækt sinni. Nánar má fræðast um kolefnisskógrækt á vef Skógarkolefnis, skogarkolefni.is.

Til eru jafnframt fyrirtæki sem vinna að því að fjármagna vottaða skógrækt og veita ráðgjöf þar um eins og t.d. íslenska fyrirtækið Yggdrasill Carbon. Með samningi við fyrirtækið er hægt að koma skógi hratt í landið og flýta fyrir því að seljanlegar kolefniseininingar verði til.

Erlend fyrirtæki, svo sem Land Life og One Tree Planted, gera samninga við landeigendur um nýskógrækt. Markmiðin geta verið af margvíslegum toga, endurheimt náttúruskóga (birkiskóga), landbætur í þágu náttúru og samfélaga fólks, stækkun skógarþekju heimsins, varnir gegn náttúruvá, kolefnisbinding o.s.frv. Nánar hér.

Einfalt svar er því varla til við spurningunni um hvort hægt sé að lifa af skógrækt á Íslandi. Skoða þarf möguleikana í hverju tilfelli fyrir sig, afla þekkingar og ráðgjafar. Skógrækt er í það minnsta vænleg aukabúgrein og framtíðin er björt.

Er hægt að fá aðstoð og styrki til að rækta skjólbelti eða skóga til skjóls?

, sækja má um skjólbelta- eða skjóllundarækt hjá Skógræktinni sjá nánar hér.

Skilyrði er að landskikinn sé lögbýli.

Skógræktin úthlutar plöntum til verkefna bænda í upphafi árs. Því er best að samkomulag um ný verkefni í skjólbelta- eða skjóllundarækt liggi þá fyrir svo að plöntur fáist í þau verkefni á komandi sumri. Annars er ekki víst að hægt sé að afhenda plöntur í ný verkefni fyrr en á næsta ári. Við hvetjum fólk þó til að hafa samband hvenær ársins sem er og ræða möguleikana. Í kjölfarið er svæðið skoðað og gerðar áætlanir ef samkomulag næst.

Hafið samband við skógræktarráðgjafa í landshluta ykkar til að afla frekari upplýsinga

Eru kolefnisbindingarverkefni fyrirtækja ekki bara grænþvottur?

Nei. Í stöðlum eða gæðakerfum á borð við Skógarkolefni er gerð krafa um að eigendur verkefna marki sér stefnu um að draga eftir mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda áður en markmið eru sett um bindingu. Sú binding sem ráðist er í á eingöngu að mæta þeirri losun sem viðkomandi getur ekki stöðvað nú þegar. Ekki er í boði að halda óbreyttri losun og grænþvo hana með bind­ingar­verkefnum. Áfram á að vinna að því að draga úr losun og bindingarverkefni mega ekki verða til þess að stöðva áætlanir um samdrátt losunar.

Nánar: skogarkolefni.is

Þiggja fyrirtæki styrki til kolefnisverkefna?

Nei. Lögaðilar sem ráðast í vottuð kolefnisbindingarverkefni greiða sjálfir allan kostnað við verkefnin. Það er í samræmi við reglur og staðla um kolefnisverkefni að sá sem vill bæta fyrir eigin losun skuli kosta sjálfur til þeirra aðgerða sem ráðist er í til mótvægis við losunina. Ekki má skreyta sig með stolnum fjöðrum í baráttunni gegn loftslagsvánni. Ef ég veld „nýrri losun“ og vil bæta fyrir hana verð ég að gera það með „nýrri bindingu“.

Eru uppkaup á jörðum til kolefnisskógræktar ekki áfall fyrir byggðirnar?

Spurt er: Er það ekki áfall fyrir byggðir landsins þegar aðilar úr öðrum landshluta eða utan úr heimi kaupa upp jarðir, hætta þar hefðbundnum búskap og ráðast í skógrækt til kolefnisbindingar?

Nei, ekki endilega. Vissulega eru dæmi þess að byggð haldist ekki áfram á jörðum sem keyptar eru til skógræktarverkefna. Oftar er það þó svo að húsakosti á jörðunum er haldið við og hann nýttur með einhverjum hætti. Oft þýðir þetta að jarðir sem ella hefðu farið í eyði og grotnað niður öðlast nú nýtt hlutverk, húsum er haldið við og jarðirnar verða áfram vænlegar til dvalar eða jafnvel búsetu, útleigu o.s.frv. Skógræktar­verk­efni skapa verktökum vinnu og tekjur í bráð og lengd og í framtíðinni verðmæti sem þarf að nýta. Umhirða og nýting skóganna verður mikilvæg uppspretta starfa og tekna í framtíðinni í sveitum landsins. Þannig geta skógarnir treyst búsetugrundvöll í sveitum landsins.

Er skógrækt á landbúnaðarlandi ekki ógn við matvælaframleiðslu?

Spurt er: Dregur það ekki úr möguleikum til matvælaframleiðslu í framtíðinni að taka landbúnaðarland undir skógrækt?

Nei. Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að nytja- og kolefnisskógrækt er landbúnaður. Skógur gefur líka af sér matvæli í formi sveppa og berja til dæmis. Skógi er líka auðvelt að breyta í annars konar ræktarland. Land þar sem skógur hefur áður vaxið er til dæmis frjósamt til akur­yrkju. Auðvelt er að fjarlægja tré og rætur með öflugum tækjum sem þegar eru fyrir hendi. Því má segja að á meðan landið er ekki notað til annars landbúnaðar sé hægt að láta það gera gagn með því að binda kol­efni og búa til verðmæti. Í framtíðinni kann að henta að taka það til annarra nytja og þangað til gerir skógurinn ekkert nema gagn, byggir upp jarðveg og grósku, skapar verðmæti, bindur kolefni o.s.frv. Skjólið sem skógurinn myndar gefur líka aukin tækifæri til ræktunar og aukinnar uppskeru miðað við skjóllaust land.

Hefur skógrækt einhver jákvæð áhrif á heimafólk og heimabyggð?

Spurt er: Verður það ekki bara aðkomufólk sem vinnur við skógræktina? Er nokkuð upp úr þessu að hafa fyrir heimafólk?

Þetta fer eftir ýmsu, meðal annars framtakssemi heimafólks. Landeigendum bjóðast myndarlegri styrkir til nýskógræktar á Íslandi en þekkist í öðrum löndum og slík verkefni geta stutt við annan landbúnað á viðkomandi jörð, veitir annarri ræktun skjól og aukna grósku, gefur ábúendum færi á launum við skógræktarverkefnin, eykur verðmæti jarðanna og gefur í framtíðinni tekjur af afurðum svo eitthvað sé nefnt.

Nokkuð er nú um að utanaðkomandi aðilar, jafnvel erlendir, fjármagni skógrækt á íslenskum bújörðum. Hvaða áhrif hefur það á heimafólk og heimabyggð? Eftir því sem fleiri skógræktar­jarðir eru í tilteknu héraði eflast líka tækifæri heimafólks til að hafa tekjur af greininni. Þegar umsvifin aukast er líklegra að verktakar geti komið sér upp tækjum sem nauðsynleg eru í skógrækt og við skógarnytjar. Alltaf er þörf á einhverjum tækjabúnaði og kunnáttu sem ekki er síst að finna hjá bændum. Girðingavinna, jarðvinnsla, flutningar á aðföngum, gisting og matur fyrir vinnufólk og fleira stuðlar að umsvifum í viðkomandi héraði. Ungir skógar verða fljótt eftirsóttir til útivistar og það styður við ferðaþjónustu. Smám saman vex upp skógur sem þarf að grisja og á endanum verður til nytjaskógur sem gefur verðmætt timbur. Eftir því sem fleiri slíkir skógar eru á tilteknu svæði, því líklegra verður að upp byggist með tímanum timburiðnaður og þar með störf, tekjur og sterkari byggð. Fleira mætti nefna. Í einhverjum tilfellum eru jarðir keyptar og í kjölfarið leggst þar af búseta. Slík dæmi eru þó undantekning og þvert á móti gerir skógræktin yfirleitt að verkum að staðirnir verða byggilegri í augum fólks og eftirsóttari til búsetu.

Er ekki slæmt að setja innfluttar tegundir í íslenskan móa?

Spurt er: Af hverju er verið að eyðileggja íslenska móa með íslenskum gróðri og setja þar í staðinn innfluttar trjátegundir? Er það ekki í andstöðu við markmið um náttúruvernd?

Nei. Skógrækt með innfluttum trjátegundum er stunduð á landbúnaðarlandi á láglendi. Þetta land er hvergi í upprunalegu ástandi. Íslendingar hafa nýtt þessi svæði í meira en 1100 ár og þar hefur gróðurfar gjörbreyst frá landnámi. Skógur og kjarr hefur horfið en eftir stendur beitar­landslag þar sem næringarefni hafa verið tekin hraðar úr vistkerfunum en þau hafa getað endurnýjast. Þetta eru því rýr svæði sem þarfnast eflingar. Ef þau væru friðuð og ekki ráðist í neinar aðgerðir myndu þau á komandi áratugum breytast hvort sem er. Þar myndi gras og blómgróður sækja á og allar líkur á því að landið myndi mjög víða breytast í víði- og birkikjarr með tímanum. Með ræktun stórvaxnari tegunda fáum við mun meiri bindingu og mun verð­mætari afurðir úr skóginum í framtíðinni. Ekkert bendir til þess að skortur verði á móum og melum á Íslandi þrátt fyrir aukna skógrækt. Slík svæði eru að stækka með minnkandi beit og uppgræðslu landsvæða. Friðuð og vernduð svæði á Íslandi stækka ár frá ári og skógrækt á litlu broti láglendis er ekki í andstöðu við friðun og náttúruvernd.

Í umræðu um náttúruvernd er nauðsynlegt að líta til framtíðar, ekki síður en til fortíðar. Náttúruvernd getur ekki falist í því einu að vernda það sem er nú eða reyna að endurskapa það sem var áður. Slíkt er óraunhæft og boðar stöðnun eða gengur jafnvel gegn eðli náttúrunnar sem er síbreytileg. Horfa verður líka til framtíðar og huga að því að gera náttúrunni kleift að þróa hraust og heilbrigð vistkerfi á komandi tíð. Heilbrigð og gróskumikil vistkerfi þarf til að tryggja farsæla framtíð fyrir menn og náttúru.

Af hverju ekki bara birki?

Spurt er: Væri ekki eðlilegra að rækta birkiskóga enda birki innlend tegund sem þakti a.m.k. fjórðung landsins við landnám?

Nei, ekki endilega. Í fyrsta lagi er birki nú þegar mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi. Verulegt átak er í gangi til að breiða út birki, bæði með gróðursetningu, friðun og sjálfsáningu. Það verk gengur vel og nú stækkar birkiskóglendi hraðar en ræktaðir skógar hérlendis samkvæmt reglulegum mælingum Skógræktarinnar á skóglendi landsins. Birki vex nú á um 1,5% landsins en ræktaðir skógar á tæplega hálfu prósenti. En ef markmiðið er einkum kolefnisbinding eða uppbygging viðarauðlindar fyrir framtíðina eru aðrar tegundir en birki vænlegri til árangurs. Þær vaxa hraðar og gefa verðmætari afurðir í fyllingu tímans. Birki fylgir gjarnan með í nytjaskógræktarverkefnum og í kjölfar þeirra má gjarnan sjá mikla sjálfsáningu birkis, jafnvel þótt meginmarkmiðið hafi ekki verið að rækta birki. Það mikilvægasta til útbreiðslu á birkiskóglendi er að land sé friðað fyrir beit búpenings.

Nánar: Loftslagsávinningur norrænu skóganna

Er skógur ekki slæmur fyrir ábyrgðartegundir eins og lóu og spóa?

Spurt er: Eru ræktaðir skógar ekki ógn við fuglategundir sem Íslendingar bera ábyrgð á?

Nei. Kjörlendi þessara tegunda eru mun stærri en stofnar þessara fugla þarfnast til viðgangs stofna þeirra. Langt er frá því að varpþéttleiki sé í hámarki á landinu. Aðrar ógnir og stærri steðja að þessum fuglum, meðal annars skotveiði í útlöndum og ágangur á búsvæði þessara tegunda þar. Með minnkandi beit á landinu og uppgræðslustarfi Landgræðslunnar, bænda og annarra stækkar kjörlendi þessara fugla mun hraðar en sem nemur því landi sem tekið er til skógræktar. Þá má einnig nefna að nýskógrækt fylgir mjög aukin gróska sem leiðir til þess að skordýralíf eykst að mun og þar með fæða fyrir þessar ábyrgðar­tegundir okkar í nágrenni skógarins. Lóur og spóar sjást gjarnan í ætisleit við skógarjaðra, einkum á vorin, enda er þar mikið líf og mikið að hafa. Votlendissvæði eru alltaf undanskilin í skógræktaráætlunum og á skógræktar­svæðum eru langoftast opin svæði inn á milli þar sem t.d. lóa og spói una sér vel og geta sótt í ríkulega grósku sem af skóginum hlýst. Því má jafn­vel rökstyðja að skógrækt stuðli að vexti og viðgangi umræddra fuglategunda, frekar en hitt. Þá má benda á að ræktun eða náttúrleg útbreiðsla birkiskóga á nýjum svæðum hefur sambærileg áhrif á fuglalíf og ræktun skóga með stórvaxnari trjátegundum.

Aukin umsvif mannsins í sveitum landsins með landbúnaði, vegagerð, annarri mannvirkjagerð, uppbyggingu frístundabyggða, stækkun þéttbýlis og fleiri slíkra þátta þrengir vissulega að búsvæðum fugla sem reiða sig á opin svæði. Þetta gildir vissulega einnig um skógrækt. Kvak lóu og vell spóa kann að minnka eða hljóðna sums staðar. Á móti þurfum við því að tryggja að áfram stækki og dafni kjörlendi þessara fugla hærra í landinu og uppi á hálendinu. Minnumst þess að tveir þriðju þess gróðurlendis sem var á Íslandi við landnám hefur annað hvort blásið upp og breyst í auðn eða er í óviðunandi ástandi, þar á meðal víðfeðm svæði á hálendinu sem væntanlega hafa verið aðalbúsvæði lóu og spóa við landnám þegar láglendi var meira og minna vaxið skóg- og kjarrlendi með birki í bland við víði og reynivið.

Er jarðvinnsla vegna skógræktar ekki náttúruspjöll?

Spurt er: Á nýjum skógræktarsvæðum má iðulega sjá land sundurskorið eftir stórtækar jarðvinnsluvélar. Veldur þetta ekki stórfelldri losun kolefnis og varanlegu tjóni á landinu?

Nei. Reglubundnar vísindalegar mælingar sýna að sú losun sem hlýst af jarðvinnslunni er til­tölulega lítil og stöðvast alveg á fáeinum árum eftir að skógur er gróðursettur. Jarðvinnslan flýtir fyrir því að trén nái rótfestu og komist í góðan vöxt. Þar með er skógurinn fljótari að hefja kraftmikla bindingu. Sárin í sverðinum sem virðast stórkarlaleg í byrjun hverfa einnig á nokkrum árum. Jarðvinnsla sker í augu margra á nýjum skógræktarsvæðum en hún stuðlar bæði að betri skógi og meiri kolefnisbindingu auk þess sem hún sparar fjármuni og bætir nýtingu framleiddra skógarplantna.

Tölur úr rannsóknar­verk­efni sem unnið var á árunum 2003-2006, Iðufylgnimælingar á kolefnisjöfnuði ungs lerkiskógar á Austurlandi, sýndu að einungis ellefu árum eftir jarðvinnslu og gróðursetningu nam bindingin í vistkerfinu 7,2 tonnum CO2/ha á ári.[1] [2]

Önnur innlend iðufylgnirannsókn sýndi einnig jákvæðan kolefnisjöfnuð í sjö ára gömlum asparskógi á Suðurlandi. Þar reyndist bindingin í vistkerfinu vera 3,7 tonn CO2/ha á ári.[3] Þessar innlendu niðurstöður benda ekki til þess að eiginlegt kolefnistap verði nema allra fyrstu árin eftir jarðrask og gróðursetningu. Svo virðist vera sem losun vegna jarðvinnslu sé fljótt jöfnuð út með þeirri bindingu sem verður bæði í jarðvegi, botngróðri og trjám. Þegar land er tekið til skógræktar hérlendis felur það í flestum tilfellum í sér beitarfriðun sem þýðir að lífmassi botngróðurs, og þar með kolefnis­bind­ing hans, eykst fyrstu árin. Eftir því sem trén vaxa upp minnkar hlutdeild botngróðursins en kolefnis­binding trjánna eykst. Þessar niðurstöður eru í góðu samræmi við margar aðrar erlendar niður­stöð­ur.[4]

[1] Bjarnadóttir m.fl.,  Tellus (2007), 59B, 891-899
[2] Bjarnadóttir m.fl., Biogeosciences (2009), 6, 2895-2906
[3] Valentini m.fl.,  Nature (2000), 404 (6780): 861-5
[4] Hyvönen m.fl., New Phytol. (2007), 173, 463-480

Nánar:

Er það ekki aðallega efnað fólk úr borginni sem ræktar skóg á lögbýlum?

Spurt er: Eru ekki fæstir skógarbændur búsettir í þeim landshlutum sem skógarjarðir­nar eru í? Eru þetta ekki mest vel stæðir höfuðborgarbúar sem grafa með þessu undan byggð í sveitunum og búa beinlínis til eyðijarðir?

Nei. Í Ársriti Skógræktarinnar 2020 eru teknar saman tölur um búsetu skógarbænda og í ljós kemur að þrír fjórðu hlutar skógarbænda eru búsettir á viðkomandi jörðum eða í sama hér­aði. Einnig sést að á einungis 30% skógarjarða er ekki stundaður annar búskapur. Á 70% skógarjarða er því stundað­ur hefðbundinn búskapur, ferðaþjónusta eða önnur atvinnu­starf­semi. Sáralítið er um að jarðir fari í eyði beinlínis vegna þess að þær séu teknar til skógrækt­ar. Þvert á móti bendir margt til þess að skógrækt styrki byggð í sveitum landsins og hamli gegn fólksfækkun þar. Jarðir þar sem öðrum landbúnaði hefur verið hætt eru nytjaðar áfram, húsum haldið við og atvinna skapast við ræktunina og nytjar skógarins í framtíðinni.

Nánar: Hvar búa skógarbændur og starfa?