Ræktun skjólbelta skilar margháttuðum ávinningi og getur verið afar gagnleg til að bæta aðstæður fyrir flesta aðra landnýtingu, svo sem hefðbundinn búskap, matjurtarækt, skógrækt, ferðaþjónustu og mannvirki.
Stuðningur við skjólbeltarækt á lögbýlum er eitt af lögbundnum hlutverkum Skógræktarinnar. Víða um land hafa bændur og landeigendur fengið samning um styrk til skjólbeltaræktunar með það að markmiði að skapa hentugri aðstæður fyrir ýmiss konar ræktun eða starfsemi. Skjólbelti geta bætt búskaparskilyrði til muna, aukið uppskeru á túnum og ökrum, veitt búpeningi, fólki og byggingum skjól og þannig aukið hagkvæmni í rekstri. Hlutverk þeirra getur einnig verið að stýra snjósöfnun við vegi og hús, minnka jarðvegsfok á ógrónum svæðum, auka grósku og fuglalíf ásamt fleiru.
Landeigendum sem búa við aðstæður sem ekki er víst að henti til meiri háttar skógræktar er gjarnan bent á að byrja á skjólbelta- eða skjóllundaræktun og sjá til hvort tilefni gefist til samfelldrar skógræktar í framhaldi af því.
Á vef Yndisgróðurs er að finna ýmsar upplýsingar um skjólbelti, hentugar tegundir til skjólbeltaræktar, samsetningu þeirra og fleira.
Skógræktin veitir styrki til skjólbelta og skjóllundaræktar. Ástæða er að hvetja eigendur og umráðamenn lögbýla til að leita frekari upplýsinga hjá skógræktarráðgjöfum og sækja um.
1. Umsóknir
Öll lögbýli geta sótt um styrk til skjólbelta og skjóllundaræktunar. Umsóknareyðublað er hægt að nálgast hér á vef Skógræktarinnar og skal senda þau skógræktarráðgjafa á því svæði sem lögbýlið er. Sé ábúandi ekki landeigandi verður að fá samþykki landeiganda. Óski ábúandi ríkisjarðar eftir samningi um skjólbelta- eða skjóllundarækt ber honum áður að kynna leigusala hugmyndir sínar.
2. Samkomulag um skjólbelta- og skjóllundarækt
Skógræktarráðgjafi heimsækir jörð umsækjanda og gerir úttekt á aðstæðum til ræktunar á skjólbeltum og skjólundum. Hann kynnir umsækjanda fyrirkomulag styrkja og vinnutilhögun við skjólbeltagerð. Stuðningur við skjólbeltarækt fer samkvæmt reglum Skógræktarinnar hverju sinni og er tiltekinn á samkomulagseyðublaði. Hafi umsækjandi áhuga á þátttöku í stuðningskerfinu er gengið frá „Samkomulagi um skjólbeltarækt“ sem undirritað er í tvíriti af landeiganda/ábúanda og skógræktarráðgjafa. Hvor aðili heldur einu eintaki og öðlast samkomulagið þegar gildi. Skógræktarráðgjafi sér síðan um skráningu samningshafa í gagnakerfi Skógræktarinnar.
Heimilt er að hafa í skjólræktunarskipulagi jarðarinnar skógarlundi allt að 10 hekturum að stærð. Um styrki til ræktunar skjóllunda og skjólbelta á jörðinni gilda eftirfarandi reglur:
- Skógræktarráðgjafi frá Skógræktinni annast skipulagningu skjólbelta í samráði við ábúanda/landeiganda, eftirlit með framvindu þeirra og leiðbeinir um meðferð.
- Ábúandi/landeigandi sér um eftirfarandi:
a) jarðvinnslu
b) plastlagningu og fergingu plastdúks
c) gróðursetningu/stungu stiklinga
d) áburðargjöf
e) umhirðu og vörslu skjóllunda og skjólbelta (t.d. girðingar)
- Af fjárveitingum Skógræktarinnar til skjóllunda og skjólbeltagerðar greiðist eftirfarandi:
a) plöntur
b) plastdúkur eingöngu fyrir 1-3 raða skjólbelti skv. áætlun ráðgjafa
c) gróðursetningarstyrkur skv. útgefnum taxta Skógræktarinnar
d) fagleg ráðgjöf (þ.m.t. gerð ræktunaráætlunar)
3. Skjólbeltaáætlun og fræðsla
Skógræktarráðgjafi vinnur einfalda skjólbeltaáætlun með korti eða mynd sem sýnir tillögu að staðsetningu skjólbelta á jörðinni. Einnig fylgja staðlaðar leiðbeiningar um vinnutilhögun, kynning á tegundum og notkun þeirra í skjólbeltum.
Námskeið í skjólbeltaræktun bjóðast með jöfnu millibili í samstarfi Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarinnar.
Á vef Yndisgróðurs er að finna ýmsar upplýsingar um skjólbelti, hentugar tegundir til skjólbeltaræktar, samsetningu þeirra og fleira.
Myndir af skjólbeltum