Megintilgangur siðareglna er að vera leiðbeinandi um tiltekna háttsemi í starfi. Siðareglurnar skulu hafðar til hliðsjónar við mótun og endurskoðun allra verkferla stofnunarinnar.
Reglurnar eru til frekari áréttingar á almennum leiðbeiningum sem settar eru fram í dreifibréfi fjármála- og efnahagsráðuneytis nr. 1/2006; Viðmið fyrir góða starfshætti starfsmanna. Einnig Almennar siðareglur starfsmanna ríkisins frá 2013.
Reglur þessar eru settar til að tryggja, svo sem kostur er, að ekki komi til óeðlilegra hagsmunaárekstra þar sem starfsmenn Skógræktarinnar koma við sögu. Þeim er einnig ætlað að stuðla að góðum viðskiptaháttum þar sem vönduð stjórnsýsla er sett ofar persónulegum hagsmunum.
Til hagsmunaaðila teljast m.a. plöntuframleiðendur, ábúendur jarða, verktakar, verkkaupar, dreifingarstöðvar, starfsmenn Skógræktarinnar og aðrir samstarfsaðilar, innlendir sem erlendir.
Fagleg vinnubrögð
- Starfsfólk ástundar fagleg og öguð í vinnubrögð, af sanngirni og festu. Ákvarðanir eru teknar á grunni rannsókna og bestu faglegra forsendna. Til faglegra forsendna teljast m.a. skógfræðileg rök, lagaleg fyrirmæli og verklagsreglur.
- Skógræktin leggur áherslu á góða samvinnu við viðskiptavini sína og samstarfsaðila. Starfsmenn sýna verkefnum og samstarfsaðilum virðingu.
- Starfsmenn Skógræktarinnar leggja sig fram um að þekkja og fara eftir reglum og lögum er varða starf þeirra.
- Starfsmenn er stunda rannsóknir hafa frelsi til að leita þekkingar hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta.
- Starfsmenn skulu vanda gagnaöflun og ástunda rannsóknar- og matsaðferðir sem samræmast faglegum viðmiðum.
- Við rannsóknir skal taka tillit til fyrri rannsókna og vísa til uppruna heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.
- Niðurstöður rannsókna skal birta, á opinberum vettvangi ef þess er kostur.
- Starfsmenn skulu vera opnir fyrir gagnrýni, samstarfi og nýjum hugmyndum. Þeir skulu gagnrýna á málefnalegan hátt og leiðrétta rangfærslur er lúta að sérþekkingu þeirra.
- Álitamál skal bera undir viðkomandi yfirmann.
Meðferð opinbers fjár
- Starfsmenn skulu fara vel með almannafé, gæta þess að það sé vel nýtt og ekki notað á annan hátt en ætlast er til samkvæmt fyrirmælum eða eðli máls.
- Gerðar eru kröfur til starfsmanna um hæfi, hlutleysi og málefnalega afstöðu í starfi. Starfsmenn þurfa að gera skýra grein fyrir þeim þáttum sem geta haft áhrif á hæfi og vinnu þeirra og sjá til þess að yfirmönnum sé kunnugt um þá. Þar koma til álita fjárhagslegir hagsmunir, frændsemi, vensl, kunningjatengsl og annað það sem gæti gert samskipti við hagsmunaaðila tortryggileg. Reglum um hæfi er ekki aðeins ætlað að tryggja óhlutdrægar ákvarðanir heldur einnig að viðhalda trausti innan stofnunar og utan.
- Gagnsæi og jafnræði eru mikilvægir þættir þegar kemur að ákvörðun um ráðstöfun á opinberu fé. Virða skal þau sjónarmið í samskiptum við hagsmunaaðila, svo sem kostur er.
Gjafir og einkaviðskipti
- Starfsmenn mega ekki taka við gjöfum, þjónustu eða öðrum framlögum frá hagsmunaðilum, sem gætu verið álitin eða til þess ætluð að hafa áhrif á breytni viðkomandi.
- Starfsmönnum er aðeins heimilt að þiggja tilboð um afslátt af vöru eða þjónustu sé það innan eðlilegra marka, enda standi þau tilboð öllum starfsmönnum til boða. Þessi viðskipti mega þó aldrei vera þess eðlis að þau dragi úr hæfi og heilindum starfsmanns eða gefi tilefni til grunsemda um slíkt.
- Heimild til að þiggja boð viðskiptavina, umfram það sem að framan segir, s.s. heimsóknir til fyrirtækja, boðsferðir, námskeið eða önnur fríðindi, skal liggja fyrir frá sviðstjóra. Slík þátttaka skal kostuð af Skógræktinni, leiði hún til útgjalda. Gengið er út frá því að þátttakan hafi engin einkenni gjafar.
- Hafa skal samráð við sviðstjóra leiki vafi á því hvort gjöf eða boð teljist hófleg.
- Fái einhver óeðlileg tilboð eða hótanir í tengslum við störf sín fyrir stofnunina ber viðkomandi að tilkynna það sviðstjóra.
Brot á siðareglum
- Starfsmaður sem verður var við ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, skal koma upplýsingum um slíkt til þar til bærra aðila, allt eftir eðli máls (sviðstjóra eða skógræktarstjóra).
- Starfsmaður sem í góðri trú greinir á réttmætan hátt frá slíkri háttsemi, skal á engan hátt gjalda þess.
- Starfsmaður sem sjálfur sýnir af sér ótilhlýðilega háttsemi samkvæmt reglum þessum eða leiðbeiningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins getur átt von á áminningu eða uppsögn úr starfi.