Bakgrunnur og tilgangur
Tré og skógar geta dregið úr yfirvofandi loftslagsbreytingum með því að binda kolefni. Skógrækt er því góður kostur fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga sem vilja draga úr kolefnisspori sínu og um leið stuðla að fjölbreyttum gæðum fyrir umhverfi og samfélag. Í þessum reglum eru sett fram skilyrði fyrir þau verkefni þar sem kolefnisbinding er tilgangurinn og um leið hluti af sjálfbærri skógrækt. Núverandi og verðandi landeigendur verða að skuldbinda sig til þess að viðkomandi landsvæði verði tekið varanlega til skógræktar.
Reglurnar gilda um nýja skógrækt á áður skóglausu landi. Skógræktin þarf að vera viðbót við fyrrliggjandi verkefni í skógrækt. Reglurnar gilda því ekki um verkefnin Skógrækt á lögbýlum, Landgræðsluskóga, Hekluskóga eða aðra skógrækt styrkta af almannafé. Verkefni undir þessum reglum geta þó vel verið samhliða fyrirliggjandi verkefnum, séu þau landfræðilega aðskilin.
Tilgangurinn með þessum reglum er að tryggja:
- Að öll umhirða skóganna verði í anda sjálfbærni og standist gæðakröfur Skógræktarinnar
- Að bestu aðferðum við kolefnisbókhald skóganna sé beitt
- Að notaðar séu vísindalega grundaðar aðferðir við mælingu á kolefnisinnihaldi skóga sem tryggi samræmi og nákvæmni í útreikningum á kolefnisupptöku skóglendis
- Trúverðugleika með óháðum gæðastöðlum, vottun og reglubundinni eftirfylgni
- Opna og gagnsæja skráningu verkefna, úthlutun heimilda og rekjanleika bundinna kolefniseininga
Auk kolefnisbindingar getur skógrækt (gróðursetning skóga) gert gagn á margan máta. Skógar geta aukið loftgæði, verið búsvæði fyrir dýr og plöntur, gefið af sér timbur og verið tilvalin svæði til útivistar. Vel staðsettir skógar draga jafnframt úr flóðahættu og auka vatnsgæði. Virkja má samfélagið í nágrenni skóganna, bjóða upp á sjálfboðastörf, kennslu og þróun. Þá eru ótalin tækifæri til atvinnu- og nýsköpunar í dreifðum byggðum.
Umfang
Reglur þessar varða skipulag og umhirðu þeirra verkefna sem taka þátt í kolefnisbindingu með nýskógrækt innan Skógarkolefnis. Reglurnar taka til þess kolefnis sem binst í skóginum og einnig þess sem losnar vegna framkvæmdarinnar. Þær ná ekki til þess kolefnis sem er áfram bundið í afurðum skógarins, til dæmis í húsgögnum og byggingum, né þess kolefnis sem sparast með því að nota viðarafurðir í stað annarra hráefna sem hafa meira kolefnisspor svo sem timbur í stað stáls og steinsteypu í byggingar.
Umsóknarferli
Skráning
Öll verkefni skal skrá í Skógarkolefnisskrá innan tveggja ára frá því byrjað er að gróðursetja í svæðið. Til að skrá svæði þarf viðkomandi fyrst að stofna aðgang að gagnagrunni og skrá síðan verkefnið eða verkefnin. Auk þess þarf að ákveða hvort viðkomandi verkefni er skráð eitt og sér eða sem hluti af verkefnahópi. Skráningin er gjaldfrjáls.
Verkefni
Hvert verkefni leiðir til þess að tiltölulega jafnaldra skógur vaxi á tilteknu landsvæði. Hvert verkefni felur í sér gróðursetningu í mest fimm ár samfellt. Sé land stærra en svo að hægt sé að gróðursetja í það á fimm árum skal skipta því upp í fleiri en eitt verkefni.
Verkefnahópa má mynda úr tilteknum fjölda verkefna gróðursettra á sama tíma, t.d. í eigu fjölda aðila. Einnig skal gæta að því að skógræktarskilyrði innan hvers verkefnis séu tiltölulega einsleit svo hægt verði að áætla og síðan meta árangur án mikils kostnaðar.
Verkefni getur verið af hvaða stærð sem er. Einnig má skrá nokkra skógarreiti saman í verkefnið, þar sem gróðursetning tekur allt að 5 ár samfellt. Þessir skógarreitir verða að vera hluti af samfelldri eign eða í eigu sömu aðila og með sömu ræktunaráætlun.
Verkefnum safnað í hóp fyrir vottun
Verkefni má skrá eitt og sér eða sem hluta af hópi verkefna. Kosturinn við slíka skráningu liggur fyrst og fremst í sparnaði við vottunarferlið og vöktun í kjölfarið. Slíkt hópverkefni má ekki ná yfir meira en 5 samfelld ár í gróðursetningu og getur samanstaðið af allt að 15 verkefnum. Helst þarf að mynda hópinn áður en vottun fer fram en einnig má mynda hóp þegar kemur að vottun. Þá skulu öll verkefni hópsins hafa hafist á tveggja ára tímabili sem þýðir að vöktun skal hefjast á innan við tveimur árum hjá öllum í hópnum. Sé settur á laggirnar hópur með fleiri en einum eiganda þarf að tilnefna hópstjóra og skrifa undir sérstakan samstarfssamning, sjá nánar í kafla 2.1 í bæklingnum Skógarkolefni (sjá hlekk neðst á síðunni).
Þegar verkefni hafa verið skráð í hóp skal sá hópur haldast óbreyttur við hverja úttekt.
Vottun
Öll stök verkefni eða verkefnahópar innan Skógarkolefnis skulu fá vottun í upphafi frá til þess bærum aðila, þ.e. faggiltri vottunarstofu sem faggilt hefur verið af faggildingarsviði Hugverkastofu. Til að fá vottun þarf að skila inn áætlun fyrir verkefnið til vottunarstofu, þar sem koma fram þau atriði sem vottunin krefst. Vottun skal vera lokið innan þriggja ára frá skráningu en öðlast ekki gildi fyrr en gróðursetningu er lokið.
Við vottun er skógarkolefniseiningum úthlutað og þær skráðar til bráðabirgða í Skógarskolefnisskrá og merktar „Skógarkolefniseiningar í bið“. Skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af bundnum koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Greiða þarf fyrir vottun og úthlutun skógarkolefniseininga.
Reglulegar vottanir
Stök verkefni eða verkefnahópa skal votta reglulega af vottunarstofu, fyrst innan fimm ára frá upphafsdagsetningu og síðan á 10 ára fresti. Til að staðfesting sé vottuð skal vakta framgang verkefna og skila framvinduskýrslu og staðfestingu á að vöktun sé fullnægjandi. Vottunarstofan yfirfer áætlaða kolefnisbindingu og staðfestir við hverja úttekt hvort kolefnisbinding stenst áætlun innan skekkjumarka, þó að 5. árinu undanskildu enda ekki hægt að gefa út áreiðanlegar tölur um kolefnisbindingu svo snemma.
Þegar vottun er lokið er þeim skógarkolefniseiningum sem úthlutað var til bráðabirgða (einingum í bið) breytt í varanlegar skógarkolefniseiningar. Greiða þarf fyrir úttekt og yfirfærslu skógarkolefniseininga. Ef til þess kemur að ekki eru fyrir hendi sjálfstætt starfandi sérfræðingar í skógrækt til að annast úttektir verkefna skal Skógræktin annast þá vinnu til bráðabirgða.
Tekjur og gjöld af þátttöku í Skógarkolefni
Ýmsir kostnaðarliðir falla til vegna þátttökunnar:
- Skráning í Skógarkolefnisskrá er gjaldfrjáls
- Greiða þarf fyrir áætlanagerð og mælingar úttektaraðila
- Til að fá vottun þarf að greiða vottunarstofu fyrir vinnu hennar
- Greiða skal fyrir úthlutun skógarkolefniseiningar í bið (greiðist þeim aðila sem heldur utan um skrána)
Einnig þarf að greiða einingarverð þegar skógarkolefniseiningum í bið er breytt í varanlegar skógarkolefniseiningar (greiðist þeim aðila sem heldur utan um skrána) Gert er ráð fyrir að tekjur vegna bindingar kolefnis og sölu skógarkolefniseininga muni standa undir ofantöldum kostnaðarliðum.
Öllum er frjálst að skrá verkefni í Skógarkolefni. Þátttaka er alltaf á eigin ábyrð.
Notkun skógarkolefniseininga
Kolefnisbinding í skógum er aðeins ein af mörgum aðferðum til að verjast loftslagsbreytingum. Áður en einstaklingar, félög eða stofnanir ráðast í slíkar aðgerðir er mikilvægt að:
- Gera sér grein fyrir eigin kolefnislosun (kolefnisspori)
- Hefja aðgerðir til að koma í veg fyrir þá losun sem ekki er bráðnauðsynleg
- Minnka aðra losun eftir föngum
Þegar binding verkefnis hefur verið vottuð skv. reglum Skógarkolefnis er hún mæld í skógarkolefniseiningum. Fram að formlegri vottun kallast hún skógarkolefniseining í bið. Ein skógarkolefniseining jafngildir bindingu á einu tonni af koltvísýringi (tCO2). Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að mæla og tilkynna eða skrá bæði heildarlosun sína og nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Vottaðar skógarkolefniseiningar eru ein tegund af frádrætti sem nota má á móti heildarlosun samkvæmt leiðbeiningum stjórnvalda hverju sinni.
Stjórnvöld tilgreina þær kröfur sem gerðar eru svo yfirlýsing um kolefnishlutleysi sé gild og hvernig skógarkolefniseiningar geta nýst í þeim tilgangi. Þetta á við um reglulega starfsemi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, framleiðslu þeirra, þjónustu, byggingar, stök verkefni eða atburði. Kolefnisbinding sem hefur hlotið vottun innan Skógarkolefnis mun ásamt öðrum skógræktarverkefnum vera hluti af kolefnisbókhaldi Íslands til að mæta þeim markmiðum sem sett hafa verið til að minnka nettólosun landsins í Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum 2019 til 2023.
Kolefnisbinding vegna nýskógræktar telst landinu einnig til tekna vegna skuldbindinga sem tengjast Loftlagssamningi Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC). Í Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015, sem stjórnvöld á Íslandi hafa staðfest, er skuldbinding um að stuðla að kröftugum innanlandsmarkaði með kolefniskvóta. Enn sem komið er má þó ekki nota skógarkolefniseiningar í viðskiptum á milli landa s.s í viðskiptakerfi Evrópusambandsins (EU ETS).
Stjórnkerfið
Skógræktin heldur utan um skipulag Skógarkolefnis og kallar sér til aðstoðar ráðgjafarnefnd. Í henni sitja meðal annars fulltrúar skógargeirans og sérfræðingar um markað með kolefniskvóta. Að auki er skipuð úrskurðarnefnd sem kemur saman eftir þörfum til að skera úr um ágreiningsefni er varða túlkun á þeim kröfum sem gerðar eru til verkefna.
Merki Skógarkolefnis
Merki (lógó) Skógarkolefnis mega landeigendur, verkefnastjórar verkefna og kaupendur vottaðra skógarkolefniseininga nota í samræmi við reglur sem um það gilda.
Breytingar á reglunum í framtíðinni
Reglur þessar eru endurskoðaðar reglulega til að tryggja að þær séu skýrar og til að tryggja gæði framkvæmdanna sem um ræðir. Nýjustu reglur og leiðbeiningar sem við eiga má alltaf finna hér á vef Skógarkolefnis. Ávallt skal ganga úr skugga um það að örugglega sé stuðst við nýjustu útgáfuna. Skrásett verkefni skulu ætíð fylgja nýjustu útgáfu af reglunum. Vottuð verkefni skulu bregðast við breytingum innan árs frá því þær taka gildi.
Framsetning á reglunum
Reglurnar fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til að tryggja gæði „kolefnisbindingarverkefna“. Þær kröfur varða meginatriði í skipulagi og framkvæmd verkefna ásamt þeim aðferðum sem beita skal við vottun og úttekt. Aftast í ritinu Skógarkolefni (sjá hlekk neðst á síðunni) er hugtakalisti þar sem glöggva má sig á ýmsum hugtökum sem kunna að reynast mörgum nýstárleg.
Framsetningin á reglunum er með eftirfarandi hætti:
Kröfur
- Þetta eru þær skuldbindingar sem gengist er undir við þátttöku í verkefninu. Í samningi er það orðað „mun“ eða „skal“. Vottunarstofur munu sannreyna að þessar kröfur séu uppfylltar.
Gögn vegna vottunar
- Í þessum lið eru dæmi um þau gögn sem vottunarstofa getur krafist til að kanna hvort skilyrði hafi verið uppfyllt. Þessir listar geta tekið breytingum við endurskoðun
- Vottunarstofa mun í einhverjum tilfellum ekki þurfa á öllum þessum gögnum að halda til að sannreyna vottunina
- Vottunarstofur skulu taka tillit til stærðar verkefna við áætlun um gagnaskil
Frekari gögn vegna vottunar á síðari stigum
- Gögn sem skoða þarf aftur við vottun þar sem breytingar hafa orðið á framgangi verkefnisins
Bæklingur
Nánari leiðbeiningar um skilyrði fyrir kolefnisbindingu með skógrækt til vottunar í eftirfarandi bæklingi:
|
Skógarkolefni
- Skilyrði fyrir kolefnisbindingu með skógrækt
Bæklingur þessi er þróunarútgáfa gefin út í desember 2019. Reglurnar og skilyrðin sem þar eru tíunduð hafa ekki öðlast gildi.
|