Skógur dregur koltvísýring úr andrúmsloftinu með ljóstillífun og andar lítillega frá sér af koltvísýringi aftur við öndun. Það sem umfram er af kolefni breytist í kolvetni sem nýtist trjánum til vaxtar. Ef viðurinn sem myndast fær að standa áfram í skóginum geymist kolefnið til langframa og þannig verkar skógurinn sem kolefnisforðabúr. Loftslagsávinningurinn sem felst í árlegu umframmagni kolefnis viðhelst svo lengi sem uppsöfnun kolefnis er meiri í skóginum en það sem losnar. Það eina sem takmarkar er hversu mörg tré geta staðið í einum skógi.
Í einum rúmmetra af timbri úr stofni trés er kolefni sem samsvarar um það bil 750 kg af CO2. Á hverjum hektara skógar á Norðurlöndunum myndast að jafnaði 5 rúmmetrar viðar á hverju ári. Trjástofnarnir safna því á hverju ári í sig kolefni sem samsvarar um fjórum tonnum af koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Þetta er álíka mikið og dísilbíll losar sem ekið er 20.000 kílómetra eða svo.
Mótvægisáhrif skógræktar
Ef árlegur nettóvöxtur skógar er nýttur og viðurinn notaður í stað hráefna úr jarðefnum á borð við kol og olíu næst líka loftslagsávinningur. Koltvísýringur sem bundinn hefur verið úr andrúmsloftinu er losaður aftur út í andrúmsloftið í hringrás þar sem ekkert viðbótarkolefni er losað. Öðru máli gegnir ef við notum olíu, kol eða jarðgas, eða ef við framleiðum steinsteypu. Þá aukum við magn koltvísýrings í lofthjúpi jarðarinnar.
Þegar skógarafurðir eru notaðar sem orkugjafi eða sem hráefni í stað plasts, stáls eða steinsteypu komum við í veg fyrir losun á „nýju“ kolefni út í andrúmsloftið. Slíkt hefur verið kallað mótvægisaðgerðir og er sambærilegt við það þegar koltvísýringi sem losnað hefur við brennslu jarðefnaeldsneytis er fargað varanlega, til dæmis með því að binda hann í jarðlögum. Einnig má geyma kolefni lengi með því að búa til úr timbrinu eitthvað varanlegt á borð við timburhús eða nytjahluti sem endast lengi. Hver rúmmetri timburs sem aflað er með skógarhöggi hefur mótvægisáhrif sem samsvara milli 500 og 800 kílóum af koltvísýringi eftir því hvernig viðurinn er notaður.
Aflað hefur verið umfangsmikilla gagna um skógarhögg og skógarvöxt í norrænu skógunum með reglulegum skógarúttektum sem fara fram í hverju landi fyrir sig. Af þessum tölum höfum við dregið þann lærdóm að fyrir hvern rúmmetra viðar sem myndast bindist 750 kíló af koltvísýringi. Þetta sama magn geymist áfram í skóginum ef trjánum er leyft að standa. Ef trén eru felld og viðurinn nýttur verða mótvægisáhrif sem samsvara 500 kílóum koltvísýrings. Með því að meta saman standandi viðarmagn í skógi og timburnytjar fáum við út heildaráhrif skógarins á loftslagið. Árleg loftslagsáhrif aukast með tímanum.
Í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi er loftslagsávinningurinn nærri tvöfalt meiri nú en hann var fyrir 50 árum, um 150 milljónir tonna samanborið við 83 milljónir tonna 1965. Vöxtur skóganna hefur aukist á þessum tíma. Það hafa mótvægisáhrifin líka gert og kolefnisforðabúr skógarins sömuleiðis. Í Svíþjóð og Finnlandi felst loftslagsávinningur skóganna aðallega í mótvægisáhrifum en loftslagsáhrif skóganna í Noregi felast einkum í auknu viðarmagni í skógunum.
Hvað lærum við af þessu?
Eftir því sem ógnir loftslagsbreytinganna verða augljósari leitar mannkynið ákafar að betri vopnum til að beita í baráttunni gegn þessum breytingum. Náttúran sjálf býr yfir einföldustu vopnunum í þetta vopnabúr. Ljóstillífandi lífverur eru besta og hagkvæmasta vopnið sem okkur er tiltæk enn sem komið er til að ná koltvísýringi úr lofthjúpi jarðarinnar. Tré eru með öflugustu lífverum jarðarinnar. Að vernda þá skóga sem eftir eru á jörðinni og breiða skóglendi jarðarinnar út á ný er nauðsyn.
Mikilvægt er að hætta brennslu jarðefna á borð við olíu, gas og kol. Jafnframt er mikilvægt að leysa af hólmi ýmsar aðferðir og efni sem valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Dæmi um slík efni eru steinsteypa og járn. Með því að nota timbur í stað þessara efna gerist tvennt. Losun koltvísýrings vegna efnanna sem leyst eru af hólmi minnkar og timbrið sem notað er í staðinn geymir í sér það kolefni sem trén tóku úr andrúmsloftinu jafnlengi og það sem úr viðnum var smíðað endist. Timburhús geta enst öldum saman og þegar þau ganga úr sér má nota timbrið aftur eða vinna sjálfbæra orku úr því með brennslu.