Tréð sem suma fær til að tárast af gleði er í augum annarra ekkert annað en hlutur sem þvælist fyrir.
                                                           William Blake 1799 (þýð. PH)

Ríkis- og atvinnutengd skógræktarverkefni sem unnið er að hérlendis eru fjölbreytileg. Með tilkomu skógræktarverkefna á lögbýlum  var skapaður grundvöllur fyrir fólk um allt land sem vildi búa áfram á jörðum sínum þrátt fyrir að búskapur stæði einn og sér ekki undir rekstri búsins. Þessi verkefni urðu hluti af Skógræktinni þegar hún tók til starfa 1. júlí 2016. Landgræðsluskógar eru skógræktar- og uppgræðslu­verkefni á vegum skógræktarfélaganna í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Skógræktina og ráðuneytið. Hugmyndin með Hekluskógaverkefninu er að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu. Önnur sambærileg verkefni eru í undirbúningi bæði á Hafnarsandi í Ölfusi og í Þingeyjarsýslum.

Skógrækt á lögbýlum

Markmiðið með nytjaskógrækt á lögbýlum er að gefa sem flestum tækifæri til að taka þátt í fjölnytjaþróun og viðhaldi byggðar í öllum landshlutum, jafn­framt því að að græða og bæta landið fyrir komandi kynslóðir. Þessi verkefni skapa grundvöll fyrir marga til að halda áfram búsetu á jörðum sínum og fyrir aðra skapa þau nýtingarmöguleika á jörðum sem áður voru lítið nýttar.

Landgræðsluskógar

Landgræðsluskógar er skógræktar- og uppgræðsluverkefni á vegum skógræktar­félaganna í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, Skógræktina og ráðuneytið. Markmiðið er að sameina aðgerðir landgræðslu og skógræktar til að klæða rýr og illa gróin svæði skógi.

Hekluskógar

Hugmyndin með Hekluskógaverkefninu er að endurheimta birkiskóga og víði­kjarr í nágrenni Heklu. Sá gróður myndi minnka vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr eldfjallinu og verja þar með land í nágrenni fjallsins fyrir jarðvegseyðingu. 

Þorláksskógar og Þingskógar

Í undirbúningi er systurverkefni Hekluskóga á Hafnarsandi í Ölfusi, svo­kall­að­ir Þorláks­skógar. Skógræktin hefur þegar efnt til samstarfs um verkefnið ásamt Land­græðslu ríkisins og Sveitarfélaginu Ölfusi. Þorláksskógar munu skýla byggðinni í Þorlákshöfn og nágrenni og þar er tækifæri til að rækta verð­mæta nytjaskóga á landi sem áður var örfoka og gaf engan arð. Sömuleiðis er nú til um­ræðu að Skógræktin taki að sér skóggræðslu á svæðum sem Land­græðsl­an hefur haft til uppgræðslu í Þingeyjarsýslum.