Ýmsir þættir hafa áhrif á heilsufar trjágróðurs. Tegund sem ekki er aðlöguð loftslagi og staðháttum þar sem hún er gróðursett er líkleg til að verða fyrir ýmsum skakkaföllum vegna veðurfars en hún er sömuleiðis viðkvæmari fyrir sjúkdómum og árásum meindýra. Röng gróðursetning, næringarskortur, röng áburðargjöf og fleiri slíkir þættir geta líka ráðið miklu um heilsu trjánna. Annars staðar á þessum vef er að finna fróðleik um gróðursetningu, meðhöndlun trjáplantna og fleiri þætti sem snerta ræktun og umhirðu trjánna. Hér er á hinn bóginn fjallað almennt um skaðvalda í trjám á Íslandi, þ.e. aðra en mannfólk og stærri dýr, og varnir gegn þeim. Á sérstökum skaðvaldavef Skógræktarinnar má svo lesa um einstaka skaðvalda, bæði sjúkdóma og meindýr.
Mikilvægt er að fá glöggar upplýsingar um hvaða skaðvaldar eru á ferðinni hverju sinni til að fylgjast megi með þróun þeirra og bera saman útbreiðslu og áhrif skaðvalda frá ári til árs. Sérfræðingar Skógræktarinnar um skaðvalda þiggja með þökkum allar upplýsingar um heilsufar trjágróðurs vítt og breitt um landið. Ef þú óskar eftir upplýsingum um skemmdir eða faraldra sem ekki er að finna hér á vef Skógræktarinnar geturðu komið upplýsingum og ljósmyndum áleiðis til Brynju Hrafnkelsdóttur og Halldórs Sverrissonar, sérfræðinga á Mógilsá. Einnig er hægt að senda sýni til Brynju í pósti með utanáskriftinni Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, 116 Reykjavík. Gott er að taka fram hvar og hvenær skaðvaldurinn fannst og á hvaða trjágróðri.
Almennt um skaðvalda
Þeir skaðvaldar sem hér um ræðir eru trjásjúkdómar og meindýr. Sjúkdómarnir valda ýmist skemmdum á blöðum, s.s. asparryð, eða á sjálfu trénu, t.d. lerkiáta. Síðarnefndu sjúkdómarnir eru oftast alvarlegri því þeir geta drepið heil tré og jafnvel heila lundi. Blaðsjúkdómarnir valda einkum vaxtartapi en geta einnig komið í veg fyrir að trén geti búið sig vel undir veturinn og þar með eykst kalhætta.
Helstu meindýr á trjám eru fiðrildalirfur og blaðlýs. Lirfurnar éta blöð en blaðlýsnar sjúga úr þeim næringu. Hérlendis eru lirfurnar mun aðgangsharðari en blaðlýsnar og geta aflaufgað heilu skógana. Geta tré jafnvel drepist í kjölfar slíkra faraldra. Fyrstu einkenni um að lirfur séu í blöðum eru að blöðin taka að vefjast upp. Yfirleitt valda blaðlýs þó litlu tjóni. Undantekning frá því er sitkalúsin, sem veldur miklu nálatapi á greni þegar hún geisar og drepur stundum tré. Önnur meindýr á trjágróðri eru einkum ranabjöllulirfur, sem éta rætur, flugulirfur og blaðvespulirfur.
Edda S. Oddsdóttir, vistfræðingur og sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, hefur tekið saman bækling um skaðvalda í trjám:
Að draga úr líkum á skaðvöldum og áhrifum þeirra
Fyrirbyggjandi aðgerðir eru bestar gegn skaðvöldum í trjám.
Í fyrsta lagi skal bent á að velja gróður sem hentar vel aðstæðum því ella er hann auðveld bráð meindýra og sjúkdóma. Sem dæmi um þetta má nefna að flestallir asparklónar eru mjög viðkvæmir fyrir asparryði en þó má finna klóna sem verjast sjúkdómnum allvel. Brýnt er að auka úrval á slíkum efniviði með kynbótum og er unnið að því á Mógilsá.
Einnig er nauðsynlegt að þekkja óvininn og forðast að gróðursetja á sama svæði trjátegundir ef nábýli þeirra magnar upp sjúkdóma eða skaðvalda. Dæmi um slíkt væri lerki í nágrenni við ösp því ryðsveppurinn asparryð nýtir lerki sem millihýsil á þroskaferli sínum.
Þá má nefna að fjölbreytni í skógrækt er afar mikilvæg til að draga úr áföllum. Það dregur úr áhættu, auk þess sem meira er af náttúrlegum óvinum í skógum þar sem fjölbreytni er mikil og það dregur úr hættu á meindýrafaröldrum.
Ef allt um þrýtur er hægt að grípa til varnarefna. Töluvert úrval er af efnum sem henta til eyðingar á sveppasýkingum og meindýrum í trjám. Þess ber að gæta að beita slíkum efnum af varúð og úða ekki nema full þörf sé á. Rétt er að minna á að alltaf má búast við ákveðnum skemmdum af völdum skordýra og sjúkdóma, án þess að ástæða sé til þess að grípa til varnarefna. Einnig ber að hafa það í huga að flest varnarefni eru ekki sérvirk á skaðvalda, þ.e. þau hafa líka áhrif á aðrar lífverur í umhverfi trjáa, þar með talið dýr og sjúkdóma sem halda skaðvöldum í skefjum. Þannig getur notkun varnarefna dregið úr náttúrlegu viðnámi vistkerfisins. Ef ljóst er að notkun varnarefna er nauðsynleg, verður aftur að hafa í huga að þekkja óvininn þannig að úðað sé á réttum tíma til að efnið gagnist sem best. Einnig má benda á að notkun óhefðbundinna varnarefna, eins og grænsápu, hefur í sumum tilfellum reynst vel gegn skaðvöldum.
Varnir gegn innflutningi nýrra meindýra og sjúkdóma
Ísland er einangruð eyja og lífríkið hér ber þess merki. Einangrunin hefur bæði kosti og galla. Auðveldara er að koma í veg fyrir innflutning, bæði vegna fjarlægðar við önnur lönd og eðlis landamæranna. Gallarnir eru þeir að lífríkið er enn þá viðkvæmara en ella fyrir nýjum skaðvöldum ef þeir berast hingað. Margar plöntutegundir hafa til að mynda fengið að vaxa hér lengi í friði og því ekki þróað öflugar varnir gegn nýjum skaðvöldum. Einnig er líklegt að náttúrulegir óvinir viðkomandi skaðvalds hafi ekki borist til landsins og því verður skaðinn oft miklu alvarlegri en í heimalandi hans þar sem náttúrulegir óvinir halda stofninum niðri.
Í nútímasamfélagi þar sem mikið er um ferðalög og vöruflutning á milli landa eru margar leiðir fyrir skaðvalda að berast á milli landa. Flutningur lifandi plantna felur í sér mestu hættuna. Til að mynda eru nýir skaðvaldar sem flust hafa frá Asíu og Ameríku byrjaðir að valda miklum skaða í skógrækt í nágrannalöndum okkar í Evrópu, samfara auknum meðalhita og auknum ferðalögum fólks milli landa. Ef skaðvaldur berst til landsins er mjög mikilvægt að hann uppgötvist snemma svo möguleiki sé að uppræta hann, áður en hann nær að nema hér land og fjölga sér. Því miður er raunin oft sú að skaðvaldur uppgötvast ekki fyrr en hann hefur dreift sér töluvert og því er mikilvægt að allir séu vakandi og tilkynni strax ef þeir telja sig hafa fundið nýjan skaðvald. Brynja Hrafnkelsdóttir (brynja@skogur.is) og Halldór Sverrisson (halldor@skogur.is) á Mógilsá taka við öllum slíkum ábendingum.
Dæmi um algengar flutningsleiðir skaðvalda
Lifandi plöntur
Mikil hætta er á að skaðvaldar berist til landsins með lifandi plöntum og í mold ef plönturnar eru fluttar inn með rót. Á Íslandi er bannað að flytja inn lifandi plöntur þeirra 7 trjáættkvísla sem þykja mikilvægastar í íslenskri skógrækt (reglugerð nr. 189/1990). Þessar ættkvíslir eru álmur (Ulmus spp.), birki (Betula spp.), fura (Pinus spp.), greni (Picea spp.), lerki (Larix spp.), víðir (Salix spp.) og ösp (Populus spp.). Einnig er bannað að flytja inn barrtré frá löndum utan Evrópu, plöntur af ættkvíslinni þinur (Abies spp.) til áframhaldandi ræktunar og villtar plöntur af víðavangi. Nýir skaðvaldar sem lifa á trjáplöntum geta þó borist hingað með öðrum plöntutegundum sem leyfilegt er að flytja inn. Mikilvægt er að allir fari eftir reglum um innflutning plantna til að minnka líkurnar á að erlendir skaðvaldar nái að komast hingað og nema land.
Með jólatrjám
Þó að bannað sé að flytja inn lifandi tré okkar helstu trjátegunda í skógrækt eru gefnar undanþágur ár hvert til innflutnings á nokkrum rauðgrenitrjám. Leyfilegt er enn fremur að flytja inn aðrar tegundir og er þinur sú ættkvísl sem mest er flutt inn af. Sjaldan er vitað hvaða leið skaðvaldur hefur borist til landsins en þó er staðfest að sitkalús (Elatobium abietinum) barst með jólatrjám til Íslands.
Viður
Skaðvaldar geta borist milli landa með viði en hættan er mest ef viðurinn er enn þá með berki. Þess vegna gilda sömu innflutningsreglur um við með áföstum berki og lifandi plöntur, þ.e.a.s. að bannað er að flytja inn við sem unninn er úr álmi, birki, furu, greni, lerki, víði eða ösp ef á honum er börkur.
Ýmsar viðarafurðir
Skaðvaldar geta borist með ýmsum viðarumbúðum og afurðum, til dæmis vörubrettum, vöruumbúðum, húsgögnum, viðarkurli og listmunum. Til að mynda er þessi flutningsleið talin vera eins sú algengasta fyrir nýja skaðvalda inn í Evrópu.
Með ferðamönnum
Skaðvaldar geta borist með ferðamönnum. Því er til dæmis mikilvægt að þrífa skó sína vel ef á þeim hefur verið gengið í skóglendi í útlöndum.
Í gámum
Þegar vörur eru fluttar í gámum á milli landa geta ýmsir laumufarþegar fylgt með.
Með vindi
Ár hvert flækjast hingað nokkrar tegundir skordýra með vindi. Sjaldgæfara er þó að þær nemi hér land.
Reglur um innflutning á plöntum
Tengt lesefni og heimasíður
Á skaðvaldavef Skógræktarinnar er greint frá helstu skaðvöldum í trjám á Íslandi, ummerkjum um viðveru þeirra og vörnum gegn þeim, flokkað eftir trjátegundum.