Velferð starfsfólks og þjónusta Skógræktarinnar byggist á gildum stofnunarinnar sem eru:

fagmennska -  samvinna - framsækni

Öryggis- og heilsustefna Skógræktarinnar

Skógræktin leggur jafna áherslu á andlega, líkamlega og félagslega þætti heilsunnar. Lögð er áhersla á fjölbreyttar aðgerðir sem beinast ekki eingöngu að einstaklingum heldur einnig að vinnustaðnum og skipulagi hans. Þannig er reynt að skapa umhverfi, vinnuaðstæður og vinnustaðabrag sem eflir heilsu starfsmanna og virkjar mannauð stofnunarinnar.

Andleg líðan/heilsuefling

Skógræktin er fjölskylduvænn vinnustaður og býður upp á sveigjanlegan vinnutíma eftir því sem hægt er. Umsjónarmaður mannauðsmála ber ábyrgð á því að boðið sé upp á fyrirlestur/námskeið árlega um einkenni og afleiðingar streitu, tímastjórnun og markmiðasetningu. Markmiðið er að styrkja starfsmenn í daglegum störfum ásamt því að styðja starfsmenn sem glíma við streitu og kulnun vegna of mikils álags eða erfiðleika tengda vinnu eða einkalífi. Starfsfólki getur staðið til boða, með samþykki sviðstjóra og skógræktarstjóra, að leita þjónustu utan stofnunarinnar ef upp koma einkenni um langvinna streitu og kulnun í starfi.

Hollt mataræði

Skógræktin hvetur starfsmenn sína til að borða hollan og næringarríkan mat. Mataræði hefur áhrif á heilsuna og hollur og góður matur hefur áhrif á starfsgleði starfsmanna.

Heilbrigð hreyfing

Eðli starfsemi Skógræktarinnar er fjölbreytt. Hluti starfsmanna vinnur störf sem fela í sér mikla kyrrsetu starfsfólks á meðan aðrir vinna líkamlega krefjandi störf. Mikilvægt er að vinna markvisst að því að þeir starfsmenn takmarki langvarandi kyrrsetu yfir vinnudaginn og hreyfi sig í samræmi við:

  • Ráðleggingar um hreyfinguÞannig er ekki aðeins lögð áhersla á hreyfingu sem líkamsrækt heldur fjölþætt gildi hreyfingar fyrir allt í senn andlega, líkamlega og félagslega vellíðan.

Starfsfólk Skógræktarinnar sem notar ekki einkabíl til ferða að og frá vinnustað heldur gengur, hjólar eða notar almenningssamgöngur getur gert samgöngusamning við stofnunina. Þá er greiddur út samgöngustyrkur eða greitt fyrir almenningssamgöngur.

Nánar um samgöngusamning

 

Slysavarnir og vinnuvistfræðilegir þættir

Skógræktin vinnur samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum og er öryggishandbók stofnunarinnar liður í því að sinna því hlutverki.

Öllum starfsmönnum ber skylda til að kynna sér og þekkja ábyrgð sína, þær ráðstafanir, sem gera þarf til að tryggja öryggi í starfi og leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang öryggismála innan fyrirtækisins.

Öryggismál Skógræktarinnar eru á höndum öryggisnefndar Skógræktarinnar. Nefndin er skipuð þremur starfsmönnum sem yfirstjórn tilnefnir. Öryggisnefnd er tilnefnd til fimm ára í senn.

Hlutverk öryggisnefndar er að koma með athugasemdir um það sem tengist aðbúnaði, hollustu og öryggi starfsmanna og afhenda þeim sem ber ábyrgðina málefnið til úrlausnar. Öryggisnefnd aðstoðar einnig stjórnendur og starfsmenn við áhættumat verkefna og kemur að áætlun um heilsuvernd og forvarnir. Eins hefur öryggisnefnd eftirlit með því að aðgerðum og áætlun á þessu sviði sé fylgt eftir.

Yfirumsjón öryggis- og vinnuverndarmála er í höndum mannauðsstjóra en skógræktarstjóri ber endanlega ábyrgð á öryggismálum starfsmanna.

Ítarefni sem tengist öryggismálum hjá stofnuninni geta starfsmenn nálgast á vef Vinnueftirlitsins.

Öryggisstefna Skógræktarinnar

  • Skógræktin sér til þess að starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun við störf sín
  • Aðstaða, tæki og búnaður er metinn reglulega til að tryggja að allar öryggiskröfur séu uppfylltar
  • Skógræktin framkvæmir reglulega áhættumat fyrir verkefni stofnunarinnar og uppfærir verkferla í samræmi við matið
  • Viðbragðs- og rýmingaráætlanir vegna slysa, eldsvoða eða skógarelda eru virkar og sýnilegar
  • Slökkvibúnaður og skyndihjálparbúnaður er yfirfarinn reglulega
  • Skógræktin fræðir og þjálfar starfsmenn á sviði öryggis- og vinnuverndarmála
  • Skógræktin tryggir virka þátttöku stjórnenda í öryggis- og vinnuverndarmálum

Öryggisreglur

Markmið öryggisreglna fyrir starfsmenn Skógræktarinnar er að skapa öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem vinnureglum er fylgt til hlítar til að koma í veg fyrir óhöpp og slys. Ætlast er til þess að allir starfsmenn Skógræktarinnar og verktakar á vegum stofnunarinnar kynni sér öryggisreglurnar.

Viðbragðsáætlanir

Vinsamlegast prentið út viðbragðsáætlanir og hafið sýnilegar á starfstöð.

Skráning og tilkynning slysa

Skógræktinni ber að tilkynna til Vinnueftirlitsins um öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður eða annar aðili hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Innan viku skal svo senda Vinnueftirlitinu upplýsingar um slysið á viðeigandi eyðublaði.

Atvikaskrá

Auk þess að halda skrá um tilkynningarskyld vinnuslys heldur Skógræktin einnig skrá um minni háttar atvik og smáslys eða atvik þar sem næstum varð slys. Þá eru einnig skráð óhöpp sem valda eignatjóni eða rekstrartruflunum. Atvikaskrá er nýtt í innra vinnuverndarstarfi stofnunarinnar til að koma í veg fyrir frekari öhöpp eða alvarleg slys. Það á ekki að tilkynna smáslys, óhöpp og „næstumþvíslys“ til Vinnueftirlitsins.

Áhættumat og starfsumhverfi

Samkvæmt vinnuverndarlögum nr. 46/1980 ber Skógræktinni gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem byggð er á áhættumati. Markmiðið er að stuðla að öryggi og heilbrigði starfsfólks og koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar eða vinnuumhverfisins. Mat á áhættu skal ná til allra þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta haft áhrif á heilsu og öryggi. Sérstaklega skal litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsfólks sé hætta búin.

Þegar áhættumat gefur til kynna að vandamál sé fyrir hendi skal grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni, óþægindum og slysum.

Öryggisnefnd Skógræktarinnar tekur þátt í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd og forvarnir og fylgist með að áætlun sé fylgt eftir.

Líkamsbeiting

Sýnt hefur verið fram á að líkamleg álagsmein eru meðal algengustu orsaka þess að fólk er frá vinnu og því ærin ástæða til að vinna að forvörnum gegn slíku. Vinnueftirlitið hefur gefið út bækling til að auðvelda atvinnurekendum og starfsmönnum að koma auga á hugsanlegar hættur í vinnuumhverfinu sem geta valdið heilsutjóni vegna líkamlegs álags, meta hætturnar og finna leiðir til úrbóta.