Vegna umræðna um hugmyndir landbúnaðarráðherra varðandi samruna Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins lét bæjarráð Fljótsdalshéraðs bóka í fundargerð að athygli væri vakin á mikilvægi starfsemi Skógræktarinnar á Egilsstöðum. Bæjarráð vill að stofnunin verði efld í því nýja hlutverki sem hún hefur fengið sem ráðgjafar- og rannsóknastofnun. Skógrækt sé mjög mikilvægur atvinnuvegur víða á Íslandi og þá sérstaklega á Héraði, en gert sé ráð fyrir að ársverk vegna skógartengdra verkefna á Austurlandi geti orðið allt að 250 á næstu árum.

Ennfremur sé horft til þess að Skógrækt ríkisins verði ein af stoðum Þekkingarseturs á Egilsstöðum og þar með Þekkingarnets Austurlands, þar sem rannsóknir og fræðsla eru alltaf að verða stærri þáttur í starfsemi stofnunarinnar.

Frétt af mbl.is