Þriðjudaginn, 23. mars kl. 20.00, verða skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með "Opið hús" í sal Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6. Þessi fundur er í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar. Opnu húsin eru liður í fræðslusamstarfi skógræktarfélaganna og KB Banka.

Í upphafi fundar flytur Andri Snær Magnason skáld pistil.

Aðalerindi kvöldsins flytur Sigurbjörn Einarsson jarðvegsfræðingur. Sigurbjörn fjallar í máli og myndum um skógrækt sem hann hefur stundað í Sælingsdal, innst í Breiðarfjarðardölum, þar sem allt andar af sögu. Erindið nefnist Um skógrækt í Sælingsdal. Sjálfbær trjárækt í gömlu túni.

Sigurbjörn hefur starfað við rannsóknir og þróun varðandi nýtingu á örverum í landgræðslu og skógrækt. Hann nýtir þá sérþekkingu sem hann hefur öðlast á þessu sviði í eigin skógrækt.

Allir áhugamenn um skóg- og trjárækt eru hvattir til að mæta og fræðast um þetta áhugaverða efni.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrými leyfir og verður boðið upp á kaffi.

Nánari upplýsingar hjá Skógræktarfélagi Íslands í síma 551-8150.