Hér er Óskar að höggva lélega stafafuru í um eins hektara reit í Haukadal. Líklega verður sett sitka…
Hér er Óskar að höggva lélega stafafuru í um eins hektara reit í Haukadal. Líklega verður sett sitkagreni í staðinn sem reynst hefur betur á þessum stað

Segir veturinn hentugan tíma til vélavinnu í skógi

Fyrsti Íslendingurinn sem lýkur námi í skógarvélafræðum er nú kominn til starfa hér heima  við skógarhögg, grisjun og aðra vélavinnu í skógum. Þessi fyrsti útlærði skógvélamaður landsins heitir Óskar Grönholm Einarsson og starfar Kristjáni Má Magnússyni, skógarverktaka í fyrirtækinu Sjö, níu, þrettán. Þessa dagana vinnur Óskar að rjóðurfellingu stafafurureits í Haukadal.

Óskar lauk nýverið námi við skólann Pohjois-Karjalan ammattiopisto Valtimo. Þessi skóli tilheyrir stofnunsem rekur nokkra verkmenntaskóla og endurmenntunar- og fullorðinsfræðslusetur í héraðinu Norður-Karelíu í austanverðu Finnlandi. Valtimo er lítill bær nyrst í þessu héraði og þar búa tæplega 3.000 manns. Skógvélanámið er þriggja ára nám en Óskar fékk metnar greinar sem hann hafði tekið í framhaldsskóla hér heima þannig að námið ytra tók hann ekki nema hálft annað ár. Kostnaður var ekki til trafala því móðir Óskars er finnsk og hann hefur því finnskan ríkisborgararétt og þar með sama aðgang og heimamenn að skólakerfinu í Finnlandi. Finnskuna talar hann líka sem innfæddur enda uppalinn við hana hér heima.

Ein af þremur vélaskemmum Valtimo-skólans. Aðstaða í skólanum er öll hin besta og vélakostur sömuleiðis.

Skólinn vel búinn tækjum

Að sögn Óskars er skólinn í Valtimo mjög vel tækjum búinn enda eru skógar- og viðarvinnslugreinar mikilvægar atvinnugreinar í Finnlandi sem kunnugt er og skógarnir ein helsta tekjulindin. Skólinn hefur til umráða ýmiss konar vélar og tæki, tugi skógarhöggs- og grisjunarvéla, útkeyrsluvéla, gróðursetningarvéla og fleiri véla og tækja sem nauðsynleg eru við nútíma skógrækt, skógarumhirðu og skógarnytjar. Sömuleiðis eru á svæði skólans stórar og myndarlegar skemmur þar sem meðal annars er aðstaða til að kenna viðgerðir og viðhald vélanna.

Óskar segir að starfsþjálfun sé mjög stór hluti af náminu og nýnemar byrji fljótlega að æfa sig á vélar. Í skólanum eru skógarvélahermar sem notaðar eru við kennslu en nemendur geta líka æft sig í hermunum hvenær sem þeir vilja og fengið með því viðbótarþjálfun. Ekki veitir af sem bestri þjálfun áður en sest er upp í alvöru vélar úti í skógi. Vélfræði er stór hluti af náminu enda þarf skógvélamaður að geta gert við vélarnar á eigin spýtur að miklu leyti og haldið þeim við. Skógarhöggs- og útkeyrsluvélar eru stór tæki og ekki hlaupið með þau á verkstæði ef eitthvað bjátar á. Nemendur læra líka um skógrækt og skógarumhirðu, grisjun, trjá- og viðartegundir, umhverfismál og fleira og fleira.

Vetrarhögg í skógi á starfsvæði Valtimo-skólans. Nútíma skógarhöggs- og útkeyrsluvélar láta fátt stoppa sig. Veturinn er jafnvel betri tími en sumarið til vélavinnu í skógi því þá er jörð frosin og minni hætta á jarðvegsraski.

Snjórinn ekki vandamál

Ekki vill Óskar hafa að skógarvinnan sé svo ólík í Finnlandi og á Íslandi þótt stærðargráðurnar séu vissulega mjög mismunandi. Í Finnlandi þurfi að hirða um ungan og uppvaxandi skóg rétt eins og hér heima og með tímanum stækki trén á Íslandi ekki síður en þar. Svipuð lögmál gildi í þessum tveimur löndum enda á svipuðum breiddargráðum. Helsti munurinn sé landslagið en brekkur eru þó ekki til vandræða ytra eins og gefur að skilja.

Það er frekar að bleyta geti verið til trafala í þúsund vatna landinu, segir Óskar, og því er veturinn þar hentugur tími til grisjunar og skógarhöggs. Þá sé líka minni hætta á að vélarnar skemmi gróður á skógarbotninum. Þetta eigi reyndar líka við hér. Gott sé að grisja og höggva skóg í snjó og frosti. Aðspurður hvort snjóþyngsli geti ekki hindrað vélavinnu í skógi segir hann að lítil hætta sé á því. Snjórinn þurfi að vera mjög mikill til þess því vélarnar komist um í býsna djúpum snjó. Þá sé líka yfirleitt auður blettur kringum stofninn á trjánum og því hægt að ná þeim niður við rót með vélinni þótt snjórinn sé djúpur í kring.

Óskar við tvö af einkennum finnskrar náttúru, stöðuvatn og skóg.

Vinnumarkaðurinn ytra sveiflukenndur

Starfsöryggi skógarvélamanna í Finnlandi er nokkuð sveiflukennt, segir Óskar, þegar hann er spurður hvort ekki hafi freistað að setjast að í Finnlandi og vinna í skógunum þar. Vinnuframboðið í þessari grein fer mikið eftir eftirspurninni á timburmarkaðnum á hverjum tíma, segir hann. Núna sé til dæmis nokkur lægð og því ekki hlaupið í störfin ytra. Það hafi auk þess alltaf verið markmiðið að koma heim og ekki sé útlit fyrir annað en nóg verði að gera við grisjun og skógarhögg á Íslandi á komandi árum.

Óskar starfar sem fyrr er greint hjá Kristjáni Má Magnússyni skógverktaka sem rekur fyrirtækið Sjö, níu þrettán á Egilsstöðum. Sem kunnugt er keypti Kristján til landsins grisjunarvél á síðasta ári og þessa dagana er hann að taka í notkun útkeyrsluvél sem mun auðvelda mjög útkeyrslu timburs úr vélgrisjuðum skógum. Full þörf er fyrir tvo menn til að vinna á þessum tveimur vélum.

Hér fellir Óskar lélega stafafuru á einum hektara í Haukadalsskógi. Í staðinn verður væntanlega sett niður sitkagreni sem reynst hefur betur á þessum stað.


Fáar stelpur í faginu

Aðspurður hvort skógvélabransinn sé eindregin karlagrein segir Óskar svo vissulega vera þótt alltaf komi ein og ein stelpa í skólann í Valtimo. Þær mættu þó vera fleiri, segir hann. Skógvélavinnan geti að vísu verið mjög erfið líkamlega, ekki síst þegar eitthvað bilar og bisa þarf við að skipta um vökvaslöngur eða þunga hluti í vélunum við miserfiðar aðstæður. Konurnar sem læri fagið fari því gjarnan í skyld störf sem reyni minna á skrokkinn en erfiðasta vélavinnan í skóginum.

Rjóðurfelling í Haukadal

Fyrsta verkefni Óskars eftir heimkomuna er að rjóðurfella um einn hektara stafafuruskógar í Haukadal. Stafafuran þykir ekki nægilega beinvaxin og falleg til að vera líkleg til að gefa af sér gott timbur í framtíðinni. Mikið er um kræklótt og margstofna tré. Á sama svæði vex sitkagreni sem lítur betur út og væntanlega verður sú tegund sett í stað stafafurunnar sem verið er að fella. Talsvert fellur til af viði af stafafurunni sem seldur verður til Elkem á Grundartanga. Óskar játar því að það sé nokkuð auðvelt verk að höggva skóg þegar flest eða öll trén eiga að falla og meiri hugsun þurfi þegar verið sé að grisja og velja úr þau tré sem eiga að standa áfram. Rjóðurfelling krefjist samt líka skipulagðra vinnubragða svo tíminn á vélinni nýtist sem best og afköstin verði viðunandi.

Skógrækt ríkisins óskar Óskari til hamingju með prófið og velfarnaðar í starfi.

Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir sem teknar voru meðan Óskar var í náminu í Finnlandi.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir úr Haukadal: Pétur Halldórsson
Myndir frá Finnlandi: Einar Óskarsson


Hér er verið að fella frætré sem fengið hafa að standa í nokkur ár eftir skógarhögg
til að mynda fræ og sá sér út. Fella verður trén áður en fræplöntur
fara að vaxa að marki svo vélarnar skemmi þær ekki.

Hér er útkeyrsluvél að tína upp bolina af frætrjánum. Nú hefur
slík vél verið keypt til Íslands og fyrstu verk hennar verða að keyra út timbri
úr Stálpastaðaskógi í Skorradal og Haukadalsskógi.

Myndarlegur bolur af einu frætrjánna.

Hér er Óskar að gróðursetja á myndarlegri gröfu í finnskum skógi.
Gróðursetningarhausinn flekkjar um leið og hann setur plöntuna niður.

Í Lusto, tæpum 300 kílómetrum sunnan við Valtimo,
er merkilegt skógarsafn þar sem meðal annars má sjá þessar keðjusagir.

Þriggja metra breiður og fimm kílómetra langur upplýstur útivistarstígur
er í nágrenni skólans í Valtimo og liggur kringum tvö lítil vötn. Stígurinn
er lagður trjákurli sem gerir að verkum að lítið þarf að snjóa til að
hægt sé að ganga þar á skíðum.