Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, ásamt aðstoðarmanni sínum, Birni Sturlaugi Lárussyni, við tilraunasvæðið í Vallanesi á Héraði. Ljósmynd: Eymundur Magnússon/Bændablaðið
Lífkol úr íslenskum grisjunarviði gætu nýst vel til að binda kolefni til langframa í jarðvegi ræktarlanda og um leið auka gæði jarðvegsins og þar með uppskeru. Möguleikar á þessu verða kannaðir í rannsóknarverkefni sem Skógræktin vinnur nú að í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og fleiri. Beðið er svara um styrkbeiðni til rannsóknarinnar enda dýrt að vinna úr jarðvegssýnum sem ætlunin er að taka í verkefninu a.m.k. næstu þrjú til fimm árin.
Frumkvæðið að rannsókninni kom frá fyrirtækinu Tandrabrettum á Reyðarfirði sem meðal annars framleiðir vörubretti en hefur einnig verið að hasla sér völl í úrvinnslu úr timbri, meðal annars íslenskum grisjunarviði. Bændablaðið greindi fyrst frá þessu.
Forn aðferð frá Amason
Hugmyndin er sú að kanna hvort nota megi viðarkol í íslenskum landbúnaði til að draga úr þörfinni fyrir innfluttan tilbúinn áburð í jarðrækt. Viðarkol hafa verið notuð í þessu skyni öldum saman. Frumbyggjar Amason-svæðisins í Suður-Ameríku blönduðu saman lífrænum efnum og viðarkolum til að auðga jarðveg sinn og á síðari árum hafa vísindamenn farið að skoða betur hvort ekki mætti fara að dæmi þeirra. Kolað timbur rotnar ekki eins og óbrunninn viður heldur geymist til langframa í jarðveginum en hefur um leið örvandi áhrif á umsetningu næringarefna og raka í jarðveginum. Með því að hita timbur í súrefnislausu umhverfi verða til gös sem safna má saman og nota sem orkugjafa en eftir verða kolefnisrík viðarkol.
Þetta gefur færi á margþættum kolefnisávinningi. Kolefni sem trén bundu með ljóstillífun læsist þarna í formi viðarkola í stað þess að losna út í andrúmsloftið. Í jarðveginum hafa kolin þau áhrif að minni þörf er fyrir innfluttan tilbúinn áburð sem sömuleiðis sparar kolefnislosun sem hlýst af framleiðslu og flutningi áburðarins. Aukinn vöxtur á ræktarlandinu leiðir líka af sér kolefnisbindingu og eftir því sem uppskera er meiri er kolefnisspor ræktunarinnar minna. Til viðbótar er möguleikinn að fá sjálfbæran orkugjafa úr kolagerðinn. Af öllu þessu er ljóst að til mikils er að vinna.
Í umfjöllun Bændablaðsins er líka bent á að eins og í Amason sé jarðvegurinn í Úkraínu hlaðinn mörg þúsund ára gömlum lífkolum enda einhver sá frjósamasti á jörðinni. Kolin sjá gróðrinum fyrir „nærfellt óendanlegri uppsprettu af næringarefnum“ eins og það er orðað í blaðinu.
Tilraunir með áhrif lífkolanna á jarðveg
Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, vinnur nú að umræddri rannsókn á kostum lífkola í íslensku ræktarlandi. „Kolin eru dálítið eins og svampur,“ útskýrir Lárus í samtali við Bændablaðið. „Þú þarft að plægja þau eða koma þeim með einhverjum hætti ofan í jörðina og þau munu passa upp á næringarefni, vatn og fleira. Ef er mjög þurrt þá hefur gróðurinn aðgang að því vatni sem kolin hafa sogið í sig og svo eru þau jarðvegsbætandi.“
Lárus skipuleggur nú jarðvegstilraunir í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og nú hafa verið sett viðarkol í tilraunareiti á tveimur stöðum á Fljótsdalshéraði, í Vallanesi og á Gíslastöðum. Settir voru út samanburðarreitir með mismiklu magni af kolum í jarðvegi og mismiklu magni af áburði. Á Gíslastöðum verður sáð vallarfoxgrasi í rannsóknarreitinn en byggi í Vallanesi, þar sem stunduð er lífræn ræktun. Fram undan er að setja einnig út tilraun á Hvanneyri í Borgarfirði.
Kolin eru gerð í brennsluofni á Víðivöllum í Fljótsdal þar sem unnt er að framleiða kol úr einum til tveimur rúmmetrum af ferskum smáviði á dag. Úr einum rúmmetra viðar verða til um 200 kíló af viðarkolum. Í tilraununum er sett mismikið af kolum saman við jarðveginn, mest fjörutíu tonn á hektara. Kolunum var ýmist blandað við búfjáráburð eða þau sett beint á jörðina og tilbúinn áburður yfir.
Lárus segir rannsóknina snúa að því að setja lífkolin í jörð, finna hversu mikið þurfi að setja af þeim og athuga hver áhrifin verði. „Það sem við vonumst eftir að sjá er að hægt verði að minnka áburðarnotkun í hefðbundinni ræktun, hvort sem um er að ræða tún- eða kornrækt,“ segir hann í samtali við Bændablaðið. Ekki sé búist við miklu eftir fyrsta sumarið í rannsókninni en upp frá því gætu jákvæð áhrif viðarkolanna farið að koma í ljós ár frá ári.
Langvarandi kolefnisbinding
Lárus bendir á að þarna sé tækifæri til langvarandi bindingar kolefnis í jarðvegi. Kolin endist mörg þúsund ár í jarðveginum og nú sé til athugunar á meginlandi Evrópu hvort viðarkolagerð og blöndun kolanna í jarðveg geti orðið viðurkennd aðferð til að búa til kolefniseiningar sem nýta mætti á móti losun til ábyrgrar kolefnisjöfnunar. „Það gæti mögulega orðið góður kostur að taka kol og fá borgað fyrir að plægja þau ofan í jarðveginn sem kolefnisbindingu og svo fengist þar að auki ávinningur af því að þurfa minni áburð,“ bætir Lárus við. Slíkt gæti nýst landbúnaði á Íslandi ekki síður en í öðrum löndum.
Lárus bendir á í samtalinu við Bændablaðið að notkunarmöguleikar lífkola séu miklu víðtækari en til jarðabóta. Þau hafi til dæmis verið sett í byggingarsteypu til bindingar. Þá virðist kolin eyða lykt og einn möguleikinn væri því að setja kol jafnóðum í haughús til lyktareyðingar. Kolin sjúgi þá næringuna úr skítnum, og honum, ásamt kolunum, sé svo árlega dreift á tún eða þetta plægt niður til jarðvegsbóta. Þá hafi kolum verið blandað í fóður fyrir nautgripi og það minnki metanlosun frá þeim. Notkunarmöguleikarnir virðist því mýmargir.
Eykur nytjar af timbri úr ungskógum
Þar sem íslenskir skógar eru ræktaðir á viðurkenndan hátt og séð fyrir endurnýjun þeirra teljast þeir sjálfbærir og því væru afurðir úr skógunum tækar til ábyrgrar kolagerðar. Til kolagerðar er hægt að nota ýmislegt sem til fellur úr skóginum en annars nýtist lítt til framleiðslu nema í mesta lagi til viðarkurls. Kolagerð gæti reynst afurðameiri framleiðsla úr slíku efni og haft umfangsmeiri kosti í för með sér. Þar með aukast möguleikar skógarbænda á nýtingu afurða úr ungum skógum og til verður jarðvegsbætandi afurð sem nýtist öllum ræktendum.
Beðið svara við styrkumsókn
Í rannsóknarverkefninu verða tekin jarðvegssýni en úrvinnsla þeirra er dýr og hana þarf að fjármagna sérstaklega. Sótt var um styrk í Lóusjóð til þess og ræður slík fjármögnun miklu um framvindu verkefnisins enda stendur hvorki Landbúnaðarháskólinn né Skógræktin undir þeim kostnaði. Lárus vonar að fjármagn verði tryggt svo halda megi verkefninu áfram enda sé það langtímaverkefni og stefnt á mælingar og jarðvegssýnagreiningar hið minnsta næstu þrjú til fimm ár, og vonandi lengur. „Langtímarannsóknir og vöktun segja manni mjög mikið. Það er auðvitað dýrt að halda slíku úti en þannig fáum við langmestu gögnin til að segja okkur söguna og þá þarf ekki að vera að geta mikið í eyðurnar,“ segir hann við Bændablaðið.
Í lok umfjöllunar blaðsins er rætt við Eymund Magnússon, bónda í Vallanesi, sem býst við mjög jákvæðum niðurstöðum úr rannsókninni um jarðvegsbætur. „Ég vildi endilega fá þessa tilraun í landið hjá mér – og bara sem mest af kolum,“ er haft eftir honum í blaðinu.