Aðalfundur Skógræktarfélags Vestmannaeyja var haldinn fyrir skömmu.  Félagið var endurreist árið 2000 eftir áratuga dvala.  Félagar eru nú um sextíu talsins.  Í stjórn þess  voru kosin þau Edda Angantýsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Inga Hjálmarsdóttir, Kristján Bjarnason og Ólafur Lárusson.
Úr stjórn gekk Auróra Friðriksdóttir og voru henni þökkuð vel unnin störf undanfarin fjögur ár

Tilraun með mismunandi klóna víðitegunda og alaskaaspar við Hraunhamar á Heimaey, gróðursett árið 1995 í samvinnu Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá við heimamenn í Vestmannaeyjabæ. Mynd: Kristján Bjarnason, garðyrkjustjóri í Vestmannaeyjabæ. 

Helsta athafnasvæði félagins er Hraunskógur í nýja hrauninu austan við bæinn, en þar hafa sjálfboðaliðar og bæjarstarfsmenn gróðursett hátt í  20.000 trjáplöntur  undanfarin ár.  Á síðasta ári voru gróðursett 4.380 tré sem lætur nærri að vera eitt tré á hvern bæjarbúa.  Þar eru aðstæður mjög mismunandi en þar sem best lætur hafa trén náð mannhæð og þykir það góður árangur á fjórum árum.  Í samningi Vestmannaeyjabæjar um Hraunskóg við Skógræktarfélag Íslands frá árinu 1999 er kveðið á um að S.Í. afhendi trjáplöntur endurgjaldslaust en bærinn og Skógræktarfélag heimamanna sjá um að gróðursetja. Samningurinn er til 70 ára.

Ýmsir hópar og félög hafa fengið reiti til gróðursetninga og er nóg pláss fyrir fleiri sem vilja slást í hópinn.  Nú er fyrirhugað að koma upp  grillaðstöðu í skóginum og stórri loftmynd með korti af svæðinu þar sem gönguleiðir ofl yrði merkt inn á til hagræðis fyrir gesti og gangandi.  Auk þess verður að sjálfsögðu haldið áfram að gróðursetja á sumri komanda.

Undanfarin ár  hefur staðið mikill  styrr um landgræðslusvæði hér á Heimaey og þykir mörgum sem yfirgangur nokkurra tómstundabænda og  landlæg linkind bæjaryfirvalda hafi keyrt um þverbak.  Skemmst er að minnast harðra skoðanaskipta í haust um hrossabeit í Hraunskógi austan við Helgafellsbraut.  Þar var hrossum beitt án leyfis félagsins og var því harðlega mótmælt.  Kom í ljós að lauslegur afnotasamningur  á túni þarna stangaðist á við samninginn um landgræðsluskóginn frá 1999. Og hurfu hrossin af vettvangi nokkrum vikum síðar.

Á síðastliðnu ári kom einnig til átaka vegna óleyfilegrar beitar í Helgafelli.  Nú á þessu vori ríkir sem betur fer friður í Helgafelli og hefur beit þar verið aflétt og eru átök um það svæði vonandi úr sögunni.  Undanfarna mánuði hafa svo staðið deilur  um Hafursdal sem er friðaður fyrir beit og þar sem nemendur barnaskólanna hafa sinnt uppgræðslu ásamt Vinnuskólanum og fleirum.  Þar hafa menn engu að síður komist upp með að neita að girða sig frá landgræðslusvæðinu með fjárheldri girðingu með þeim afleiðingum að rollurnar renna inn á svæðið og festast stundum í gaddavírnum svo bæjarstarfsmenn hafa staðið í smölunar- og björgunarleiðöngrum þangað suður eftir   í allan vetur.  Er vonandi að þeim vandræðagangi fari nú senn að ljúka í Hafursdal.

Rétt er þó að nefna jákvæða hluti líka.  Í því sambandi vill stjórn félagsins telja fimm atriði sem nokkurskonar vörður í átt til sómasamlegrar landnýtingar á Heimaey:

1. Árið 1999 var gerður fyrrnefndur samningur um landgræðsluskóg á um 29 ha. austan við bæinn
2. Árið 2000 tókst að létta beit af Haugum og Eldfelli og ná sátt við Landgræðsluna sem hóf aftur að senda hingað áburð og fræ.  Hafa Haugarnir tekið stakkaskiptum síðan þá.
3. Árið 2001 gerði Landgræðslan könnun á ástandi beitlanda á Heimaey og kom út vönduð skýrsla í framhaldi af því. 
4. Haustið 2003  tók  gildi  Samþykkt um   búfjárhald, í sama dúr og víða á landinu og hlýtur það að teljast stórt  skref í  átt til sómasamlegrar beitarstjórnar. 
5.     Um síðustu áramót var ráðinn búfjáreftirlitsmaður  hér í bænum og lauk þar með langri bið  eftir þeim lögbundna eftirlitsmanni.

Á þessu má sjá að þokast hefur í rétta átt í landnytja- og landgræðslumálum undanfarin ár,  þó hægt fari og oftar en ekki verði allar breytingar með miklum harmkvælum og skruðningum.  Reynslan hefur kennt ræktunarfólki að það þarf sífellt að vera á tánum varðandi hagsmuni sína, friðun og ræktun lands í Vestmannaeyjum, til mótvægis við hinn landmikla, fámenna en vissulega öfluga þrýstihóp tómstundabænda.  Við höfum nægt land hér á Heimaey til að sinna áhugamálum okkar allra og landbótum og nú eru komnar skýrar leikreglur um búskap og aðra notkun lands.  Þá er ekki annað en fylgja þeim eftir svo friður megi ríkja.  Stjórn félagsins mun leggja sitt af mörkum til þess að svo megi verða.

Að loknum aðalfundi flutti  Bjarni Diðrik Sigurðsson skógvistfræðingur fyrirlestur sinn:  Áhrif skógræktar á vistkerfið.  Var fyrirlesturinn hinn fróðlegasti og spunnust miklar umræður út frá honum.  Í rannsóknum Bjarna og annarra vísindamanna austur á Héraði hefur ma. komið í ljós að skógrækt eykur fjölda fugla til mikilla muna, þó breytingar verði reyndar á tegundasamsetningu  Mönnum til mikillar undrunar kom ma. í ljós að glókollur, minnsti fugl landins, sem ekki eru nema sex  ár síðan  verpti fyrst hér á landi, er orðinn þriðji algengast varpfugl í skógum á Héraði. (Þess má geta að glókollur er talinn eini náttúrlegri óvinur sitkalúsarinnar hérlendis, sem gerir hann enn verðmætari fyrir vikið!) Einnig hefur það nú fengist staðfest sem lengi hefur verið deilt um að rjúpan er skógarfugl. Ræktunarmenn bíða þess nú í ofvæni  að skógarþrestir, glókollar og fleiri skógarfuglar flykkist til Eyja og setjist að í hinum uppvaxandi Hraunsk! ógi.  Aukið fuglalíf er einn hinna fjölmörgu jákvæðu þátta sem fylgja skógræktinni og hvetur Skógræktarfélagið bæjarbúa til að leggjast á sveif með félaginu og  fjölga sem mest trjám á Heimaey svo hún megi verða viði vaxin milli fjalls og fjöru í framtíðinni.
 
Heimild: eyjar.net