Nú stendur yfir árshátíðarvika Menntaskólans við Sund með ýmsum skemmtunum og uppákomum.  Miðvikudaginn 18. febrúar vinna nemendur skólans einn dag og gefa laun sín til uppbyggingar skólastarfs í Kambódíu. Þetta er samstarfsverkefni nemendafélags MS og Barnaheilla.  Fjórir af þessum vösku nemendum voru snarlega ráðnir á Mógilsá til að grisja skóginn, enda ekki vanþörf á.  Þeir birtust hér í dagrenningu og eftir smá kleinustopp við arininn voru drengir gallaðir upp og sendir út á mörkina í fylgd grímu- og hjálmklæddra manna með keðjusagir.  Þar voru þeir settir í það hlutverk sem fílarnir skipa á suðlægari breiddargráðum, þ.e.a.s. draga út bolina eftir keðjusagarliðið.  Allt gekk þetta vel bolir og greinar dregnir út af kappi undir áköfu hvatningargelti Tryggs (slapp út af myndinni en sést undir heimasíðu Tryggs).  Nú er umhverfi Mógilsár allt annað að loknu vel unnu dagsverki í þágu skólastarfs í Kambódíu.

(GH)