Fyrripart dags 22. október heimsóttum við svæðismiðstöð skógræktar í norður Skotlandi í bænum Dingwall. Þar leiddi Alistair MacLeod okkur í ýmsan sannleik um skógræktarrannsóknir. Talsverð áhersla er lögð á vistfræðirannsóknir, einkum rannsóknir á áhrifum skógvæðingar eða aðgerða í skógrækt á einstakar lífverutegundir.  Þá er ekki eingöngu átt við að skógvæðing geti haft neikvæð áhrif á sumar tegundir heldur einnig að hún geti haft jákvæð áhrif. 

(Mynd ÞE: Skógarbóndinn Alasdair MacIver segir frá bændaskógrækt.)

Þarna sáum við einnig landupplýsingagrunn sem ríkisskógræktin notar, en þar hafa allar tiltækar upplýsingar um land verði færðar inn í ArcInfo grunn. Auk hæðarlínugrunns, áa og vatna og jarðfræði- og gróðurkorta eru þar upplýsingar um náttúruverndarsvæði, fornleifar og allt sem skráð er á skipulagsuppdráttum, frá staðsetningu brunahana til vegakerfisins.  Þegar umsókn um styrk til skógræktar berst geta menn því kallað upp kort af svæðinu með öllum þessum upplýsingum sem fyrsta skref í að meta umsóknina. Grunnur þessi er gefinn út af bresku landmælingastofnuninni og uppfærður reglulega, notendum að kostnaðarlausu.

Svo var ekið norður fyrir Dornochfjörð til Strathfleet í Southerland.  Þar heimsóttum við skógarbóndann Alasdair MacIver, sem er ekta crofter, þ.e. smábóndi og leiguliði. Hann var nýlega búinn að sannfæra nágranna sína (einnig leiguliðar) og landeigandan um að skynsamlegt væri að taka 90 ha. af sameiginlegu beitilandi til skógræktar. Þarna var landslag svipað og í Borgarfjarðardölum eða Suður Þingeyjarsýslu; fremur mjóir dalir og lágar lyngvaxnar heiðar. Skógræktarsvæðið var upp undir heiðarbrún, og þar var búið að jarðvinna með kullu og gróðursetja skógarfuru og birki sitt á hvað en ekki hvort innan um annað. Gróðursetningin var gisin eða um 1600 plöntur á ha og yfirlýst markmið var að endurheimta náttúruskóg með innlendum tegundum.  Aðspurður af hverju þau markmið hafi orðið fyrir valinu en ekki t.d. timburskógrækt með sitkagreni sagði Alasdair að styrkupphæðin hafi ráðið þar mestu um. 

Skotar eru með allflókið styrktarkerfi í skógrækt en það er þó ekki eins andsnúið timburskógrækt með innfluttum tegundum eins og það var fyrir fáum árum. Styrkupphæðir eru misjafnar eftir staðsetningu, landgerð og markmiðum. Þannig fást háir styrkir til timburskógræktar sumstaðar en til endurheimtar náttúruskóga annarsstaðar. Framlagakerfið er í raun notað til að hafa áhrif á makrmiðssetningu skógræktar á hverjum stað.

Gestgjafar okkar nefndu stundum svæði í Southerland skammt fyrir norðan þar sem við vorum og þeir kölluðu the Flow Country. Þar var farið í sitkagreniskógrækt í mjög stórum stíl fyrir nokkrum áratugum síðan og til þess ræst framm allmikið votlendi. Aðalsteinn spurði hver merking orðsins Flow væri í þessu samhengi og fékk það svar að átt væri við landsvæði sem einkenndist af votlendi. Það er sem sagt Flói í Skotlandi, og rétt eins og á Íslandi er hann á Suðurlandi.