(Morgunblaðið, 15/2 2004)
 
Íslendingar virðast hafa ágæta þekkingu á stærstu hnattrænu umhverfismálum samtímans og þeir hafa upp til hópa tileinkað sér vistvænt atferli á vissum sviðum. Þeir eru fremur virkir á stjórnmálasviðinu og bera í flestum tilfellum fremur jákvæð viðhorf í garð umhverfisverndar. Á hinn bóginn er þekkingu landsmanna á sjálfbærri þróun töluvert ábótavant og sumar niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að umhverfishygð (almennur stuðningur við umhverfisvernd) þeirra hafi minnkað á allra síðustu árum. Sterkar vísbendingar eru um að umhverfisvitund Íslendinga sé margklofin.

Þessar niðurstöður birtust í nýlegri viðhorfskönnun en Þorvarður Árnason náttúrufræðingur og verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og samstarfsfólk, gerði rannsókn á umhverfisvitund Íslendinga á vormánuðum 2003.

Rannsóknin sýnir afstöðu Íslendinga til umhverfis- og þróunarmála. Þessir málaflokkar hafa lítið verið rannsakaðir hérlendis áður og mun könnunin því gefa mjög mikilvægar upplýsingar um viðhorf Íslendinga til þeirra. Könnunin er samstarfsverkefni Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnunar HÍ og Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg. Verkefnisstjóri yfir öllu er Róbert H. Haraldsson heimspekingur.

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn sem heitir "Forsendur sjálfbærrar þróunar í íslensku samfélagi" og er styrkt af Markáætlun Rannís um upplýsingamál og umhverfismál, umhverfisráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Rannsóknir á afstöðu fólks til umhverfismála hafa lengi verið stundaðar á Norðurlöndunum og meðal annarra nágrannaþjóða okkar, en lítið verið kannað hér á landi.

Póstlistakönnunin náði til 1.500 manna slembiúrtaks úr þjóðskrá á aldrinum 18-75 ára. Í henni er farið nokkuð djúpt í umhverfismálin og spurt um þekkingu og atferli, t.d. hvaða hluti fólk flokkar frá heimilissorpi, auk viðhorfa til fjölmargra mála.

"Við lögðum fyrir spurningar um ýmis málefni sem tengjast umhverfismálunum, m.a. um viðhorf til þróunarmála, þjóðernis og stöðu og þróunar lýðræðis á Íslandi," segir Þorvarður. "Síðast en ekki síst gaf könnunin okkur færi á að meta þær breytingar sem e.t.v. höfðu orðið á umhverfishygð Íslendinga á milli áranna 1997, þegar við gerðum fyrri könnun okkar, og 2003, þ.e. yfir tímabil sem trúlega hefur verið einna róstusamast á Íslandi hvað umhverfismálin varðar."

Sjálfbær þróun

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar hefur verið grunnur íslenskrar umhverfisverndarstefnu í meira en áratug. Þar sem almenningi er ætlað mjög stórt hlutverk í þessari hugmyndafræði er áhugavert að kanna hversu vel hann þekkti til sjálfbærrar þróunar. Þekkir fólk t.d. helstu grunnreglur hennar og þætti? Veit það hver helstu stefnumál hennar eru? Hefur það skilning á þeim? Er það sammála þeim? "Í könnuninni spurðum við fólk fyrst einfaldlega hvort það hefði heyrt um sjálfbæra þróun," segir Þorvarður.

Í ljós kom að rétt ríflega þrír fjórðu hlutar svarenda sögðust hafa heyrt um sjálfbæra þróun og af þeim sagðist síðan um helmingur hafa skýra hugmynd um það sem í sjálfbærri þróun fælist. Þetta þýðir að tæplega 40% svarenda hafa, að eigin sögn, góðan skilning á sjálfbærri þróun, sem aftur þýðir að 60% þeirra hafa annaðhvort ekki góðan skilning á, eða hafa alls ekki heyrt um, þetta fyrirbæri.

Þekking á nokkrum grunnþáttum sjálfbærrar þróunar var einnig könnuð og í ljós kom að næstum allir höfðu heyrt hugtakið Mat á umhverfisáhrifum, en færri um Staðardagskrá 21, varúðarregluna og mengunarbótarregluna.

Þorvarður segir þó að þekkingin hafi aukist milli áranna 2002 og 2003. Þá sýni hliðstæðar erlendar kannanir svipaða niðurstöðu um fremur lágt þekkingarstig.

Séríslensk umhverfismál

Ýmis umhverfismál eru talsvert sérstök fyrir Íslendinga sem eiga sér ekki hliðstæðu í öðrum vestrænum þjóðfélögum. Þar má fyrst nefna gróður- og jarðvegseyðingu en einnig má segja að verndun ósnortinnar náttúru, verndun og ræktun skóga og viðhald fiskstofna séu mikið til "séríslensk" vandamál. "Þau eru a.m.k. hvert um sig óvíða meðal þróaðra landa meira aðkallandi viðfangsefni en einmitt hér," segir Þorvarður.

Verndun fiskstofna, lendir greinilega í sérflokki hjá svarendum þegar niðurstöður um mat þátttakenda á mikilvægustu viðfangsefnum íslenskra stjórnvalda á sviði umhverfismála eru skoðaðar. Verndun ósnortinnar náttúru lendir í öðru sæti og stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar í því þriðja. Þátttakendum sjálfum finnst mikilvægasta málið að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu.

Landgræðslusinnar fjölmennastir

Fólk getur haft áhuga á umhverfismálum af mismunandi ástæðum: Landgræðslusinnar vilja stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu, náttúruverndarsinnar vilja vernda ósnortna náttúru landsins, skógræktarsinnar vilja rækta og viðhalda skógum á landinu, mannverndarsinnar vilja vernda manninn fyrir hættum í umhverfinu, og dýraverndunarsinnar vilja standa vörð um velferð og hagsmuni dýra.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar mynda landgræðslusinnar fjölmennasta hóp íslenskra umhverfisverndarsinna, næst koma náttúruverndarsinnar og síðan skógræktarsinnar. Jafnframt er rétt að benda á það að ríflega 90% svarenda settu sjálfa sig í einhvern þeirra hópa sem tilteknir voru en innan við 10% þeirra sögðust ekki hafa áhuga á umhverfismálum. Níu af hverjum tíu svarendum telja sig með öðrum orðum vera umhverfisverndarsinna af einhverjum toga en einn tíundi hluti þeirra ekki.

Þjóðernisvitund

Í könnuninni voru lagðar fram ýmsar spurningar sem varða þróunaraðstoð, lýðræðisþróun og þjóðernisvitund. Spurt var um lýðræði og þjóðernismál vegna þess að umhverfismálin eru ekki í tómarúmi, og þau tengjast iðulega öðrum hræringum í samfélaginu.

Nefna má dæmi um spurningu í því sambandi: "Hver af neðangreindum atriðum telur þú að móti helst þjóðareinkenni Íslendinga? (Merktu við þrjú atriði) a) Sagnahefðin, b) Landslagið, c) Einangrunin, d) Veiðimennskan, e) Tungumálið, f) Veðurfarið, g) Smæð þjóðarinnar, h) Hafið."

Niðurstaðan var að svarendur settu tungumálið efst á lista yfir þau atriði helst móta þjóðareinkenni Íslendinga, smæð þjóðarinnar lendir í öðru sæti og landslagið í því þriðja. Til að athuga nánar innbyrðis mikilvægi tungunnar og náttúrunnar fyrir þjóðernisvitund Íslendinga voru þátttakendur jafnframt beðnir að velja beint á milli þessara tveggja þátta og þá kom önnur niðurstaða fram.

Náttúran hefur "vinninginn" yfir tunguna þegar spurt er um mikilvægi þeirra tveggja fyrir varðveislu íslenskra þjóðareinkenna, munurinn er þó ekki mjög mikill eða 54 % á móti 46 % þeirra svarenda sem tóku afstöðu.

Tungan eða náttúran

Hér má geta þess að í fyrri könnun Siðfræðistofnunar 1997 sem einnig náði til Danmerkur og Svíþjóðar voru þátttakendur beðnir að tilgreina besta tákn heimalands síns og í því tilfelli settu íslenskir svarendur landslagið (29,6 %) í fyrsta sæti, þjóðfánann (20,6 %) í annað sæti og tungumálið (20,0 %) í það þriðja. Íslendingar settu jafnframt meira vægi bæði á landslagið og á tungumálið sem landstákn en Danir og Svíar. Mikill meirihluti svarenda í öllum löndunum þremur (74-84%) reyndist þó sammála því að ógnun við náttúruna (þ.e. í heimalandi þeirra) væri jafnframt ógnun við þjóðerni þeirra (Ahlqvist 1997).

Niðurstöður spurninganna um tengsl þjóðernis- og umhverfisvitundar benda sterklega til þess að svarendur tengi þetta tvennt töluvert mikið saman. Það virðist síðan fara mikið eftir orðalagi spurninga og/eða þeim svarmöguleikum sem eru í boði hvort talið er mikilvægara fyrir íslenskt þjóðerni, íslensk tunga eða íslensk náttúra.

Nefna má að árið 1996 spratt upp umræða um hvort vægi þyngra í þjóðarvitund Íslendinga, tungan eða náttúran. Það var í kjölfar Skírnisgreinar Guðmundar Hálfdánarsonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands, um að náttúran væri mikilvægara tákn en tungan. "Ástæðan fyrir því er kannski sú að náttúran er hlutlaust tákn," sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið, "allir geta gert hana að sinni. Það sem dregið hefur úr áhrifum tungunnar sem sameiginlegs tákns er að sífellt er verið að skamma þjóðina fyrir að tala ekki rétt mál. " (Mbl. 22.09.96).

Umhverfishygð minnkar

"Ef hugað er að almennri umhverfishygð (envirnomental concern) svarenda þá er það óneitanlega nokkuð sláandi niðurstaða að hún skuli mælast minni í könnun okkar á vormánuðum 2003 en nokkru sinni áður," segir Þorvarður og vísar í eldri kannanir allt frá 1990.

Í fljótu bragði er erfitt að sjá hvað veldur þessu, t.d. hvort hér sé um langtímaþróun að ræða eða skammtímasveiflu. "Ekki er ólíklegt að óvenju mikið atvinnuleysi á því tímabili sem könnunin var gerð hafi spilað eitthvað inn í þetta," segir Þorvarður og að könnunin hafi verið gerð í nánasta aðdraganda alþingiskosninga.

Loks má nefna að síðla vetrar 2003 var gengið frá samningum við ALCOA um byggingu álvers á Reyðarfirði en þar með var ljóst að baráttan gegn Kárahnjúkavirkjun var töpuð. Fjölmiðlaumræða um virkjunarmálin minnkaði mjög mikið í kjölfarið og það kann vel að hafa haft einhver áhrif. "Jafnvel mætti hugsa sér að ósigurinn í þessu "stærsta umhverfismáli Íslandssögunnar" hafi gert einhverja andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar afhuga umhverfisvernd," segir Þorvarður.

Hann bendir þessu til mótvægis á könnun Landverndar frá því í haust þar sem 85% svarenda sögðust hafa frekar eða mjög mikinn áhuga á umhverfismálum. (Mbl. 13.11.03).

Visthverf og mannhverf viðhorf

Niðurstöður í rannsókninni sýna almennt nokkuð blendna eða tvíbenta mynd af umhverfisvitund Íslendinga. Þannig er þekking landsmanna á stærstu umhverfisvandamálum heims töluvert mikil en þekkingarstigið er mun lakara þegar kemur að sjálfbærri þróun sem slíkri og ýmsum meginstoðum þeirrar hugmyndafræði sem við hana er kennd.

Visthverf og mannhverf viðhorf til náttúrunnar njóta hvor um sig töluverðs stuðnings meðal svarenda og náttúrusýn stórs hluta svarenda er því "blendin", þ.e. bæði visthverf og mannhverf í senn. Þátttakendur telja verndun ósnortinnar náttúru vera annað til þriðja mikilvægasta úrlausnarefni íslenskra stjórnvalda í umhverfismálum en sama málefni lendir þó neðst á lista þegar spurt er um mikilvægi fyrir svarendur sjálfa.

Þorvarður Árnason vinnur nú að grein um umhverfisþátt rannsóknarinnar sem mun birtast í vorhefti Landabréfsins, tímariti Félags Landfræðinga.

guhe@mbl.is