Ásbyrgi
Amennt um skóginn
Fjölbreyttur skógur í ægifögru og stórgerðu skeifulaga jarðsigi, Ásbyrgi í Kelduhverfi. Svæðið tilheyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Jarðsig þetta er eitt mesta náttúruundur landsins. Byrgið er skógi vaxið, einkum af birki og víði, auk reynis. Nokkur þúsund barrtré voru gróðursett í byrginu á sínum tíma og dafna vel. Í Ásbyrgi er góð aðstaða til útivistar. Gönguleiðir eru margar, tjaldsvæði góð og náttúrufegurð mikil.
Margir hafa komið í Ásbyrgi, en færri vita að Byrgið og skógurinn í kring er eignarland Skógræktarinnar og þ.a.l. þjóðskógur. Ásbyrgi er hamrakví með allt að 100 m háum, þverhníptum veggjum. Í miðju byrginu rís klettur, Eyjan, og eru hamragöng báðum megin hennar, en innst er tjörn. Þvermál Ásbyrgis er um 1 km og lengdin 3,5 km. Mun það hafa myndast í hamfarahlaupum í Jökulsá á Fjöllum.
Staðsetning og aðgengi
Aðkoman að Ásbyrgi er frá þjóðvegi 85 innst í Kelduhverfi. Frá Austurlandi er styst að fara um Hólsfjöll og Hólssand en þar er malarvegur. Betri vegur er nú vestan Jökulsár mestalla leiðina og von á að þar verði vegur með bundnu slitlagi alla leið frá Hringveginum á Mývatnsöræfum niður í Kelduhverfi.
Aðstaða og afþreying
Í Ásbyrgi er góð aðstaða fyrir ferðalanga og áhugafólk um náttúru. Tjaldstæði á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs er rúmt og gott með fyrsta flokks aðbúnaði. Skammt frá tjaldstæðinu er golfvöllur og verslun sem selur allar helstu nauðsynjar. Inni í byrginu er gott bílastæði og stígakerfi. Þar er einnig grasflöt sem er nýtt ýmist sem íþróttavöllur eða tjaldsvæði og danspallur er þar skammt frá, enda hefur Ásbyrgi lengi verið samkomustaður Norður-Þingeyinga.
Saga skógarins
Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir á hinn bóginn að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið og þannig hafi Byrgið orðið til.
Skógræktin keypti jörðina Ásbyrgi árið 1927 og friðaði skógarleifarnar í Byrginu sama ár. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri lýsir aðstæðum þannig 1936: „Friðunin í Ásbyrgi kom á elleftu stundu, því að gömlu skógarnir, Leirtjarnarskógur og Botnsskógur, voru á fallandi fæti. Nýgræðingur var þar lítill sem enginn, en land mjög notað til beitar. Gömlu trén voru að kveðja lífið fyrir elli sakir. En nú (1936) er nýgræðingurinn að færast óðfluga um allt Byrgið, aðeins átta árum eftir að friðun komst á.“
Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum var stofnaður 1973. Ásbyrgi var þá utan þjóðgarðs, en varð hluti af honum árið 1978 með samvinnusamningi milli þáverandi Náttúruverndarráðs og Skógræktar ríkisins. Hélst sá samningur óbreyttur er Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum færðist undir Vatnajökulsþjóðgarð árið 2008. Ásbyrgi tilheyrði þó Skógræktinni áfram og samstarf stofnunarinnar við þjóðgarðinn varðandi umsjón með svæðinu hélt áfram. Í janúar 2019 var undirritaður samningur á milli Skógræktarinnar og Vatnajökulsþjóðgarðs um umsjón Ásbyrgis. Samkvæmt samningnum færðist formleg umsjón jarðarinnar allrar og mannvirkja á henni frá Skógræktinni til Vatnajökulsþjóðgarðs. Vatnajökulsþjóðgarður og Skógræktin eiga engu að síður áfram með sér samstarf um innri hluta Ásbyrgis og land Ásbyrgis norðan þjóðvegar.
Trjárækt í skóginum
Yst í Ásbyrgi er móagróður en innar er fjölbreyttur og þroskamikill birkiskógur með óvenjumiklu ívafi reyniviðar. Á árunum milli 1950 og 1980 var nokkuð gróðursett af innfluttum trjátegundum í Ásbyrgi, einkum rauðgreni, blágreni, hvítgreni, lerki og skógarfuru. Nú er stefnan hins vegar sú að gróðursetja ekki meira en viðhalda sem víðast fjölbreyttum blandskógi af birki, reyniviði og gróðursettu tegundunum. Með tímanum mun gróðursettu trjánum smám saman fækka við eðlilega grisjun.
Birki og reyniviður breiðast hægt út til norðurs og því mun skógurinn í Ásbyrgi halda áfram að stækka. Umhirða birkiskógarins og gróðursettu trjánna felst í því að viðhalda góðri aðstöðu til útivistar og sjá til þess að gott útsýni haldist frá völdum stöðum.
Annað áhugavert í skóginum
Ásbyrgi er hluti Vatnajökulsþjóðgarðs sem stofnaður var í júní 2008. Þjóðgarðurinn nær yfir um 12.000 km2 svæði eða um 12% af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu.
Botnstjörn innst í Byrginu er í leifum fosshylsins sem myndaðist í hamfarahlaupunum þegar Ásbyrgi varð til. Hún er tær og einstaklega falleg. Þar verpa rauðhöfðaendur ár hvert. Vestan við tjörnina er útsýnisklettur þaðan sem sér yfir allan skóginn. Talsvert fýlavarp er í klettunum og nokkur gauragangur í þeim yfir sumarið.
Í Ásbyrgi er mikið af sveppum síðsumars, s.s. kúlalubba og berserkjasvepp.