Í nýjum hverfum vantar trjágróðurinn sem hægir á vindinum í grónari hverfum.
Trjágróður dregur verulega úr áhrifum stórviðra
Í veðurstöðinni á Hallormsstað mældist mesta hviðan 17 metrar á sekúndu í ofviðrinu sem gekk yfir í gærkvöld og í nótt. Nokkru utan við Hallormsstaðaskóg, á Hallormsstaðahálsi, mældist mesta hviðan hins vegar 72,6 m/sek. Á Höfða, skammt innan við Egilsstaði, hlustaði heimafólk á óveðrið uppi yfir en stóð rólegt í skjóli asparskógarins. Svipaða sögu er að segja frá Selfossi þar sem trjágróður hefur vaxið upp undanfarna áratugi og dregur merkjanlega úr vindi í bænum. Ekki er ólíklegt að trjágróður hafi gert að verkum að tjón í ofviðrinu varð minna en ella hefði orðið.
Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, býri í Höfða á Völlum, skammt innan byggðarinnar á Egilsstöðum. Þar er mikil skógrækt, meðal annars með alaskaösp sem sýndi vel í nótt hversu fljótt er hægt að koma upp nytsömu skjóli með trjágróðri á Íslandi. Aspirnar eru aðeins 20 ára gamlar en gera nú að verkum að þegar stórviðri geisa gætir áhrifanna lítið heim við húsið þótt hávaðinn í vindinum drynji fyrir ofan.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, er nýfluttur til baka á Selfoss þar sem hann er uppalinn. Hann segist finna mjög fyrir því hvað skjól hefur aukist í bænum síðustu ár enda hefur trjágróður aukist þar mjög síðustu áratugi. Nú standi fólk þar í skjóli en heyri í óveðrinu fyrir ofan líkt og Þröstur lýsti hér að framan. Á Selfossi hefur þetta meðal annars þau áhrif að snjór safnast fyrir í bænum í stað þess að fjúka burt eða hlaðast upp í skafla.
Úlfur Óskarsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, býr í Hveragerði og segir að grenibelti við götuna Heiðmörk hafi tekið mesta vindinn af húsinu hans sem stendur í næstu götusamsíða. Greinilegt hafi verið að vindurinn hægði á sér við þetta belti. Ólafur Sturla Njálsson sem rekur trjáplöntustöðina Nátthaga í Ölfusi segir að mest muni um aspirnar enda kunni þær ekki að vaxa undan vindi. Hann muni leggja meiri áherslu á þær framvegis til að mynda skjól fyrir vindi.
Fyrir nokkrum árum var rætt um skjólið af trjánum í Reykjavík sem væri farið að sjást á mælingum Veðurstofunnar í Öskjuhlíð þegar skoðaðar væru vindmælingar síðustu áratuga. Miðnesheiði væri vindafar svipað nú og fyrir nokkrum áratugum en meðalvindur væri orðinn lægri í Öskjuhlíð. Enga aðra skýringu erað sjá á því en þá að þéttbýlisskógurinn sé farinn að hafa áhrif á veðurfarið.
Trén við þetta hús eiga eftir að gefa verðmætt skjól þegar þau stækka.">
Sömu sögu er áreiðanlega að segja víðar um landið. Á Akureyri er talað um að vindstrengir sem stóðu gegnum bæinn á árum áður, ýmist úr suðri eða norðri, séu orðnir vægari. Snjó dragi síður í skafla en áður var en þess í stað falli hann jafnt yfir allt. Enn fremur þykist fólk sjá mikinn mun á yngri hverfum þar sem trjágróður er enn lítill og á eldri, grónari hverfum þar sem trén eru orðin hærri en húsin. Í fréttum af óveðrinu í gærkvöldi og nótt var talað um að veður á höfuðborgarsvæðinu hefði verið einna verst í efri byggðum en það eru einmitt nýju íbúðahverfin sem enn eru að mestu skóglaus.
Erfitt er að verjast þeirri hugsun að trjágróður hefði getað komið í veg fyrir eitthvað af því tjóni sem varð í nýafstöðnu óveðri. Með skipulegum hætti væri hægt að rækta trjágróður, bæði í þéttbýli og við sveitabæi, sem minnkaði hættuna á tjóni þegar ofsaveður geisa. Um leið bætir slíkur trjágróður öll lífsskilyrði fólks, eflir vistkerfi, eykur fuglalíf, skýlir dýrum ekki síður en mönnum og þar fram eftir götunum.
Enn hafa ekki borist miklar fregnir af brotnum trjám eftir óveðrið. Að sögn Hreins Óskarssonar féll eitthvað af trjám á Tumastöðum í Fljótshlíð og þar fauk fúinn húskofi. Ekki fréttist af föllnum trjám í Þjórsárdal og lítið tjón í Haukadal.