(mynd: Edda S. Oddsdóttir)
(mynd: Edda S. Oddsdóttir)

Hópur frá Skógrækt ríkisins hefur ný lokið einnar viku kynnisferð ferð um norður norsku fylkinn Nord Trøndelag og Nordland. Fyrrihluti ferðarinnar 22. – 24. ágúst var skipulögð móttaka og ferðalag á vegum Tor Danielsen Fylkesskomester i Nørd Trøndelag um Norður Þrændalög. Síðari hluti ferðar 25.– 27. ágúst var í tengslum við ráðstefnuna Nordisk Skoghistorisk konferanse 2009, sem haldinn var í Hattfjelldalen, Alstahaug og Mosjøen í Nordland Fylke. Flogið var með SAS til Osló og þaðan til Stjørdal,Vernes í Þrændalögum.

Laugardaginn 22. ágúst var farið frá Stjørdal (Vernes) til Steinkjer með viðkomu m.a. á Stiklestad þar sem Ólafur helgi Noregskonugur féll í bardaga 1030 ásamt nokkrum íslenskum útrásarvíkingum. Um kvöldið var heimboð hjá skógræktarstjóra fylkisins Kjersti Kinderås í Steinkjer.

Sunnudaginn 23. ágúst var haldið áleiðis til gróðrarstöðvarinnar í Kvatningen (Skogplanter Midt Norge). Þar var hlustað á fyrirlestra, m.a. um stöðu skógræktar í Noregi, skógrækt og loftslag og um styrktarkerfi fyrir skógrækt í Noregi (Skogfondsordningen). Um kvöldið var dvalið skammt frá Namsen ánni og fengu þar nokkrir áhugasamir að freista veiðigæfunnar á meðan aðrir nutu útsýnis við árbakkann.

Mánudaginn 24. ágúst var farið í fjölda heimsókna. Komið var til skógarbónda sem fullvinnur hráefni í sögunarmillu við heimilis sitt og útvegar þannig timbur sem ekki fæst í staðlaðri framleiðslu stærri sögunarfyrirtækja. Heimsóttur var verndaður vinnustaður þar sem unnar eru ýmsar smávörur úr timbri og komið við hjá bónda, sannkölluðum lífskúnstner sem vinnur að kvikmyndagerð og leiklist. Þá var á enn öðrum stað skoðaður árangur af tilraunum með erlendar trjátegundir. Deginum lauk með norskri lafskássu og blautköku hjá Solbjørg Kjølstad, skógræktarstjóra héraðsins. Að lokum var haldið áleiðis til Hattfjelldalen í Nordland með lest frá Grong og gist þar. Hér kvöddum við okkar frábæra vert og leiðangurstjóra um Norður Þrændalög Thor Danielssen sem ferðast hafði með hópnum frá Stjørdal.

Þriðjudaginn 25. ágúst var hópurinn kominn í hendur Ørnulf Kibsgaard. Fyrri hluta dagsins var farið í skoðunarferð í nágrenni Hattfjelldalen dvalið við strönd Rossvatnet og hlustað á fyrirlestur um nýjar íþyngjandi reglur varðandi innflutning á trjátegundum og plöntum. Skoðuð var grisjun þar sem fjórhjól annaðist útdrátt og söfnun viðar. Hópurinn heimsótti verkstæði þar sem unnið er að byggingu bolhúsa (laftehus).


Nordisk skoghistorisk konferanse 2009 25. – 28. ágúst

Síðari hluta dags á þriðjudag 25.  ágúst hófst ráðstefnan í Hattfjelldalen.  Meðal þeirra erinda sem flutt voru má nefna tvo: Skógurinn og skógarbyggðirnar í Innri Helgeland. (Ørnulf Kipsgaard). Framtíð skógarins í Fenoskandia. Í því síðarnefnda komu fram byltingarkenndar hugmyndir um skógarhirðingu með helíum fylltum loftbelgjum. Fyrirlesturinn flutti Mats Hagner frá Svíþjóð.

Miðvikudaginn 26. ágúst hófst ferð okkar með heimsókn í spónaplötuverksmiðju sem starfrækt hefur verið í Hattfjelldalen síðan 1957. Þá var stefnan tekin á Mosjøen og farið um Grane-Vefsen. Viðkomustaðir hópsins voru m.a. verndaður vinnustaður þar sem ýmsir vörur eru unnar úr hráefni skógarins og heimsótt var safn tileinkað menningu Sama en þeir eiga sterkar rætur í hinu norður norska samfélagi. Við ána Vefsna var stoppað við Laksefossen en þar mátti sjá laxa stökkva í tignarlega.  

Ferð okkar fimmtudaginn 27. ágúst lá til Alstahaug við strönd Helgelands. Alstahaug er nyrsta stóra skógarplöntustöðin í Noregi og er aðallega ætlað að framleiða plöntur fyrir Norður Noregi. Í Alstahaug kynnti Bernt Håvard Øyen  sérfræðingur hjá “Norsk institutt for skog og landskap” niðurstöður vaxtamælinga í tilraunareitum með  erlendar trjátegundir sem þrífast  þar ágætlega. Eftir skoðunarferðina var farið til Peter Dass safnsins en þar hélt ráðstefnan áfram með fyrirlestrum: Peter Friis Møller Danmörku fjallaði um skóginn á Jótlandi síðustu 15,000 árin. Henrik Lindberg ræddi um skógargerðir í Finnlandi og gróðurhverfi.  Ólafur Eggertsson hélt fyrirlestur um íslenska skóginn í 10.000 ár og Anne Elisabeth Bjune Norge um norsku skógana í nútíð og framtíð.

Nú var komið að lokum þess hluta ráðstefnunnar sem við Íslendingarnir sóttum. Farið var með næturlestinni til Þrándheims, þaðan tekið fyrsta morgunflug til Osló og stóð á endum að við næðum SAS flugi til Keflavíkur.

Ferðalagið var viðburðaríkt, gagnlegt og sérlega ánægjulegt. Við fengum tækifæri til að skoða aðstæður sem ekki eru svo ólíkar þeim sem við erum að skapa með skógrækt hér á landi.  Undirbúningur allur var við það miðaður að við hefðum sem mest gagn af. Við lok ferðar færði hópurinn Jóni Loftsyni skógræktarstjóra sérstakar þakkir fyrir frábæra fararstjórn og þá skipulagsvinnu sem á honum hvíldi við undirbúning og framkvæmd ferðarinnar.

Án fjárhagslegs stuðnings ýmissa sjóða og stofnanna í Noregi hefði ekki verið hægt að fara í þessa ferð. Þessum aðiljum eru færðar bestu þakkir fyrir framlögin og ferðafélögum fyrir ánægjulega samfylgd.


Fyrirlestur við Røssvatnet

Við Røssvatnet

Hlustað á Svein Flaat

Í Høylandet

Jón Loftsson, skógræktarstjóri, í Kvatningen

Ráðstefnugestir

Skógarferð

Við ána Names

Við ána Names


Texti: Hallgrímur Indriðason og Þór Þorfinnsson

Myndir: Edda S. Oddsdóttir