Tré nærast á samskonar efnum og mannfólkið, einkum kolvetnissamböndum, en einnig fitum og próteinum.

Munurinn er sá að trén framleiða þessi efni sjálf í laufblöðum sínum úr koltvísýringi sem laufblöðin „anda“ til sín úr andrúmsloftinu og vatni sem ræturnar taka upp úr jarðveginum og er síðan flutt upp í laufblöðin.

Önnur efni sem nauðsynleg eru í þessa framleiðslu svo sem nitursambönd, fosfat og kalí, sem til samans kallast áburðarefni eða áburðarsölt, og ýmsir málmar, sem kallast snefilefni, koma með vatninu úr jarðveginum.

Orkan sem notuð er til að setja saman næringarefnin úr koltvísýringi, vatni, áburðarsöltum og snefilefnum er sólarljós og kallast þetta einu nafni ljóstillífun. Afurðir ljóstillífunar, einkum kolvetni, eru síðan fluttar um allt tréð þar sem hinir ýmsu vefir trésins nærast á þeim.


Byggt á svari Þrastar Eysteinssonar, sviðsstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, á Vísindavef Háskóla Íslands.