Hægt er að stórauka lífslíkur skógarplantna með áburðargjöf við gróðursetningu, bæta árangur og draga úr kostaði við skógrækt. Ennfremur má auka vöxt allra tegunda ef borið er á við gróðursetningu. Ef borið er á eftir 3 ár þá má bæta vöxt flestra tegunda nema lerkis.

Á tíunda áratug síðustu aldar jókst gróðursetning skógarplantna mjög en árangur var ekki alltaf góður og afföll of mikil. Til að kanna hvort lélegt næringarástand kynni að valda þessu voru gerðar áburðartilraunir í skógrækt og í framhaldi af því hófst rannsóknaverkefnið hjá Skógrækt ríkisins og var styrkt af Tæknisjóði Rannís. 

Nýrrar þekkingar var aflað á áhrifum áburðargjafa á lífslíkur, vöxt, frostþol, svepprótamyndum og frostlyftingu. Gerð var áburðarblanda strax á fyrsta ári verkefnisins þar sem auð- og seinleystum áburði er blandað saman.  Nægjanlegt reyndist að bera á köfnunarefni og fosfór í vægum skömmtum.

Hæfilegt var að bera um 13 grömm á litlar bakkaplöntur en bera mátti mun stærri skammta á birki á ógrónu landi á úrkomusömum svæðum landsins. Slíkt getur þó verið áhættusamt vegna hugsanlegra affalla vegna ofþornunar, sérstaklega í þurrkatíð. Áburðargjöf reyndist ekki hafa nein áhrif á frostþol trjáa, nema að vorfrostþol grenis minnkaði.

Áhrif áburðargjafa á svepprótamyndun á birkirótum var könnuð og kom í ljós að áburður hafði neikvæð áhrif á svepprætur fyrsta árið eftir áburðargjöf, en að 3 árum liðnum frá gróðursetningu voru áhrifin horfin. Niðurstöður verkefnisins sýndu einnig að minnka má frostlyftingu hjá litlum bakkaplöntum með því að bera á þær.

Ráðunautar landshlutabundinna skógræktarverkefna telja að áburðargjöf á trjáplöntur við gróðursetningu hafi yfirleitt stórbætt árangur, sérstaklega á rýru landi. Afföll hafi stórminnkað og spretta á fyrstu árum eftir gróðursetningu aukist.

Frétt í hádegisfréttum RÚV, 19.10.2003 12:40