Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson
Ýmsar leiðir eru til að binda kolefni og jafna koltvísýringslosun frá athöfnum okkar og starfsemi. En mikilvægt er að allir geti treyst því að sú kolefnisjöfnun sem auglýst er hafi raunverulega farið fram. Þess vegna er nauðsynlegt að kolefnisjöfnun sé vottuð.
Ef leitað er eftir kolefnisbindingu með skógrækt til að kolefnisjafna rekstur fyrirtækis er mikilvægt að átta sig á muninum á vottaðri kolefnisbindingu og því að greiða fyrir kolefnisbindingu án vottunar. Hver er eiginlega munurinn á þessu tvennu og af hverju er svona mikilvægt að votta kolefnisbindingu? Hvað er vottun og hvað á ég að velja?
Til að tryggt sé að kolefnisbinding sé raunveruleg gera vottunarstaðlar eftirfarandi kröfur:
- Varanleiki (e. Permanence) Tryggt sé að kolefni sem tekið hefur verið úr andrúmsloftinu og geymt í skógi sé bundið þar í þann skilgreinda tíma sem verkefnið lofar.
- Viðbót (e. Additionality) Verkefni er „viðbót“ ef það og tilheyrandi aðgerðir eru ekki áskildar í lögum og hefðu ekki orðið að veruleika án viðkomandi verkefnis.
- Kolefnisleki (e. Leakage) Losun koltvísýrings sem tilheyrir ekki bókhaldi viðkomandi verkefnis en verður þó til af völdum þess. Dæmi um þetta getur verið landbúnaðarstarfsemi sem færð er frá einum stað til annars og veldur þar skógareyðingu eða þyngri nytjum á skóglausu landi.
Þá er mikilvægt að ekki verði til tvítalning (e. Double-counting) á kolefniseiningum þegar kemur að því að nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun þannig að enginn vafi leiki á fullyrðingum um kolefnishlutleysi. Þetta er tryggt með því að skrá kolefniseiningar í sérstaka kolefnisskrá. Í kolefnisskránni er haldið utan um inneign, viðskipti og afskráningu á vottuðum kolefniseiningum.
Kolefnisverkefni skulu tryggja að kolefnisbinding sé vottuð samkvæmt viðurkenndum stöðlum s.s. Skógarkolefni, VERRA - Verified Carbon Standard (VCS) eða Gold Standard. Þetta eru óháðir staðlar sem hafa verið samdir af óháðum þriðja aðila. Vottun er strangt ferli sem veitir sjálfstæða staðfestingu á losun og tryggir að kolefnisjöfnun þín sé raunveruleg og varanleg. Gæði kolefniseininga verða því ekki tryggð nema með vottun frá slíkum aðila. Þegar þú velur kolefnisbindingu skaltu leita að annað hvort vottuðum eða a.m.k. staðfestum verkefnum til að tryggja gæði fjárfestingar þinnar og að um ósvikna kolefnisbindingu sé að ræða.
Verkefni sem selja kolefnisbindingu án vottunar veita ekki næga tryggingu fyrir því að kolefnisbindingin sé raunveruleg. Það þýðir að allar fullyrðingar um kolefnishlutleysi eru óstaðfestar og þar með er ekki hægt að sýna fram á með óyggjandi hætti að kolefnisbindingin hafi farið fram. Þetta getur leitt til þess að fyrirtæki sem keypt hafa óvottaðar kolefniseiningar komast að því síðar að fjárfesting þeirra er ekki ósvikin. Ef svo reynist nýtast þessi útgjöld ekki til kolefnisjöfnunar í loftslagsbókhaldi fyrirtækisins.
Þó að það kunni að virðast fjárhagslega skynsamlegt að kaupa óstaðfesta kolefnisbindingu, sérstaklega ef umrætt verkefni lítur út fyrir að vera raunverulegt, þá er mögulegt að til verði „fölsk eign“. Ef fyrirtæki hefur haldið fram kolefnishlutleysi við viðskiptavini sína og samfélagið allt en svo kemur upp úr dúrnum að fullyrðingarnar reynast rangar getur það valdið fyrirtækinu álitshnekki og ómældu fjárhagslegu tjóni. Enn fremur má segja, að með því að kaupa óstaðfesta kolefnisbindingu sé verið að koma í veg fyrir að fé renni til vottaðra verkefna sem tryggja að viðkomandi aðgerð hafi raunverulegan loftlagslagsávinning.
Þessi grein birtist áður í Bændablaðinu í greinaröð LSE um loftslagsmál og kolefnisbindingu