Föstudaginn 24. október, 2003 - Ritstjórnargreinar
Viðskipti með útblásturskvóta
Aðalheiður Jóhannsdóttir, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í umhverfisrétti, vakti í grein hér í blaðinu laugardaginn 12.
Aðalheiður Jóhannsdóttir, aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur í umhverfisrétti, vakti í grein hér í blaðinu laugardaginn 12. október athygli á því, að íslenzk stjórnvöld hafa ekki talið ástæðu til þess, við útfærslu Kyoto-bókunarinnar um takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, að koma á innanlandsmarkaði fyrir viðskipti með útblástursheimildir.
Vitnar Aðalheiður til þess, sem um þetta mál er sagt í svokallaðri stefnumótun ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókarinnar. Þar segir eingöngu: "Ríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau takmarki útstreymi innanlands með úthlutun útstreymisheimilda og viðskiptum með þær. Að athuguðu máli er ekki talin ástæða til þess að fara þá leið hér á landi."
Aðalheiður Jóhannsdóttir segir réttilega að þetta verði að teljast harla rýr rökstuðningur fyrir því að fara ekki þá leið, sem Kyoto-bókunin býður upp á. "Ljóst er að íslenska ríkið ber nokkurn kostnað af mótvægisaðgerðum, t.d. skógrækt, í þeirri viðleitni að draga úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt eru nauðsynlegar rannsóknir af hálfu opinberra stofnana kostnaðarsamar. Þessar staðreyndir réttlæta t.d. sölu eða uppboð á útstreymisheimildum eða hluta þeirra," segir Aðalheiður. Hún bendir jafnframt á að verðlagning náttúruauðlinda, eða á réttinum til þess að nýta þær sé einnig hluti af svokallaðri mengunarbótareglu. "Auk þessa virka sveigjanleikaákvæði Kýótó-bókunarinnar hvetjandi og gera rekstraraðila á margan hátt ábyrgari fyrir þeim áhrifum sem viðkomandi starfsemi hefur á umhverfið og möguleg viðskipti með útstreymisheimildir, hvort sem er á markaði innanlands eða milli ríkja, auka frjálsræði, hvetja til aukinnar hagkvæmni, þróunar á betri tækni og framleiðsluaðferðum o.fl."
Aðalheiður bendir m.a. á hliðstæðu þessa máls og takmörkunar réttarins til að nýta fiskveiðiauðlindina. Þar getur Morgunblaðið tekið undir með henni. Blaðið hefur áður lagt til að útblásturskvóta verði úthlutað gegn endurgjaldi, með sama hætti og í fiskveiðunum.
Ástæða er til að rifja upp það, sem sagði í leiðara blaðsins 9. ágúst 2001, þar sem þessi mál voru til umræðu: "Það virðist ekki fara á milli mála að með því að hrinda Kyoto-bókuninni í framkvæmd hér á landi sé verið að taka upp takmörkun á þeim gæðum, sem felast í heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Það hvernig eigi síðan að úthluta þeim takmörkuðu gæðum er vissulega stór spurning og henni verður ekki svarað nema með hliðsjón af þeim umræðum, sem farið hafa fram um úthlutun á öðrum takmörkuðum gæðum, t.a.m. fiskveiðikvóta og rafsegulbylgjum. Það er ekki hægt að segja að útblásturskvótinn sé þjóðareign með sama hætti og fiskimiðin, en hann er hins vegar verðmæti, sem verða til með samningum Íslands við önnur ríki, með sambærilegum hætti og tíðnisvið fyrir fjarskipti, sjónvarp og útvarp ... Stefnumótun stjórnvalda hlýtur að taka mið af þeirri grundvallarstaðreynd að með því að takmarka rétt manna til að losa gróðurhúsalofttegundir hefur sá réttur öðlazt verðgildi og þeir, sem nota hann, eiga að greiða fyrir þau afnot."
Morgunblaðið tekur undir með Aðalheiði Jóhannsdóttur að það er lágmarkskrafa til stjórnvalda að fyrir liggi "gagnsær, skýr eða ítarlegur rökstuðningur" fyrir þeirri ákvörðun að fara ekki þessa leið.