Þar sem balsamþinur er einráður í ræktuninni
Ekki er víst að heppilegast sé fyrir ræktendur jólatrjáa að framleiða tré sem hafa mjög reglulega keilulögun. Þar með gæti samkeppnin við gervitrén orðið erfiðari. Þetta er mat íslensks þátttakanda í elleftu alþjóðlegu jólatrjáaráðstefnunni sem haldin var í Nova Scotia í Kanada 10.-14. ágúst í sumar. Ráðstefnan var haldin í öflugri rannsóknarmiðstöð sem stundar eingöngu jólatrjáarannsóknir.
Stærð fylkisins Nova Scotia nemur rúmum helmingi af flatarmáli Íslands og þar búa um 940.000 manns. Jólatrjáaræktin er umfangsmikil atvinnugrein í fylkinu og árlega eru fluttar þaðan ein og hálf til tvær milljónir jólatrjáa til Bandaríkjanna. Framleiðendurnir eru margir og mjög algengt er að þetta séu fjölskyldufyrirtæki.
Roger Threnholm jólatrjáabóndi ræktar jólatré á um 18 hekturum lands
og vinnur sjálfur flest verkin eigin hendi. Ræktunin er aukabúgrein
með humarveiðum sem hann stundar líka. (Mynd: Brynjar Skúlason)
Ráðstefnan fór að þessu sinni fram við Dalehouse-háskólann í Truro. Þar hefur risið á síðustu árum stór rannsóknarmiðstöð, Atlantic Christmas Tre Research Centre, sem einbeitir sér að rannsóknum í jólatrjáarækt. Þar starfar stærsti rannsóknarhópur í heiminum á sviði jólatrjáarannsókna og markmiðið er að þróa balsamþin (Abies balsamea) svo að hann gefi sem best og fallegust jólatré. Menn vilja ná fram sem bestri barrheldni og vaxtarlagi, blágrænum nálum, góðum ilmi og vera sem mest lausir við sjúkdóma. Á markaðnum vestra er þess krafist að jólatrén endist í allt að tvo mánuði frá því þau eru felld þannig að verkefnið er æði krefjandi. Trén þurfa að þola flutning um langan veg og síðan að standa innan dyra alt frá þakkargjörðarhátíðinni í lok nóvember og fram yfir nýár.
Margvísleg umfjöllunarefni
Margt getur haft áhrif á hversu lengi trén halda barrinu. Í erindum sem haldin voru á ráðstefnunni var fjallað um samspil hitastigs, líffræðilegra ferla og lífeðlisfræðilegra eiginleika trjánna. Víst þykir að þær rannsóknir sem stundaðar eru við Dalehouse-háskólann geti gefið vitneskju sem nýtist við ræktun annarra þintegunda.
Á ráðstefnunni var fjallað um tilraunir í ræktun glæsiþins (Abies fraseri) sem er algengasta jólatréð í ræktun á austurströnd Bandaríkjanna. Meðal annars var sagt frá ágræðslutilraunum sem felast í því að græða sprota af úrvalstrjám á plöntur í beði. Einnig var talað um áhrif mismunandi meðhöndlunar og umhverfisþátta á fræframleiðslu eðalþins (Abies procera) á plantekrum í Michigan svo dæmi séu tekin.
Mikil könglamyndun á ungum, ágræddum balsamþin.
Þá vakti einnig athygli evrópsku þátttakendanna að vaxandi áhugi væri á því vestan hafs að rækta nordmannsþin (Abies nordmanniana) sem jólatré í Bandaríkjunum. Um hálf milljón trjáa af tegundinni er gróðursett árlega í Oregon-ríki og nordmannsþinur er nú þriðja mest ræktaða tegundin í jólatrjáarækt á norðvesturströnd Bandaríkjanna. Síðustu tvö ár hefur herjað á tegundina áður óþekkt lúsategund og einkennin eru svipuð þeim sem sjást af völdum lúsarinnar sem herjar á nordmannsþininn í Evrópu (Dreyfusia nordmannianae). Sagt var frá samanburðartilraunum við ræktun eðalþins og nordmannsþins, annars vegar í Danmörku og hins vegar á norðvesturströnd Bandaríkjanna. Notast var við tré með sama erfðaefni í báðum löndunum og því hægt að bera saman hvernig þau þrifust við mjög ólíkar aðstæður. Að sjálfsögðu var líka rætt um sveppinn Neonectria neomacrospora sem ógnar þinsræktinni í Skandinavíu.
Að rækta í stórum stíl eða smáum
Í vettvangsferðum kom í ljós að skiptar skoðanir voru meðal smærri ræktenda og þeirra stærri um hvað affærasælast væri í jólatrjáaræktinni. Þeir smærri héldu því fram að best væri að notast við sáðplöntur og náttúrlega endurnýjun, dreifða aldursdreifingu í ræktunarreitunum og færa til ungplöntur sem standa þétt. Þannig væri best að viðhalda stöðugu vistkerfi í ræktuninni, forðast sjúkdóma og draga úr hættunni á áföllum. Aðrir voru á því, sérstaklega stærri ræktendurnir, að framtíðin fælist í vélvæðingu með ræktun á stórum ökrum og byggja á þeim rannsóknarniðurstöðum sem farnar eru að koma frá Dalehouse-háskólanum.
Hér sést ársgömul planta af balsamþin og til samanburðar
önnur tveggja ára, tilbúin til gróðursetningar
Brynjar Skúlason, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, sótti ráðstefnuna, en hann er einmitt í doktorsnámi á þessu sviði við Kaupmannahafnarháskóla. Brynjar segir að ráðstefnan hafi um margt verið fræðandi og merkilegt hafi verið að sjá hversu mikil áhersla sé lögð á það vestan hafs að jólatrén séu regluleg í keilulegri lögun sinni. Hann veltir fyrir sér hvort þetta sé endilega rétt stefna og hvort hugsanlega geti þetta orðið til þess að samkeppnin við gervijólatrén verði harðari. Lítill útlitsmunur sé á svona reglulegum lifandi jólatrjám og gervitrjám og þá sé e.t.v. affarasælla að byggja upp þá ímynd að jólatré megi vera með náttúrlegra og frjálslegra vaxtarlag.
Skógarmenn frá Mexíkó vinna að því að forma jólatré.
Um þrjátíu manns sóttu jólatrjáaráðstefnuna í Nova Scotia og voru þátttakendur frá 10 löndum. Evrópubúar voru heldur fámennir sem helgast trúlega af miklum ferðakostnaði vestur um haf. Ráðstefnur þessar eru haldnar á tveggja ára fresti og nú orðið eru þær til skiptis í Evrópu og Ameríku, næst í Noregi 2015.
Hlekkir á nánari upplýsingar:
Christmas Tree Research Centre
IUFRO, alþjóðlegt samstarf um skógvísindi
Fréttin er byggð á grein um ráðstefnuna sem birtist á næstunni í tímaritinu Nåledrys
Þátttakendur í jólatrjáaráðstefnunni í vettvangsheimsókn hjá
Roger Threnholm, jólatrjáabónda og humarveiðimanni.
Séð út um bílglugga á akur með vel formuðum balsamþin.
Myndir: Brynjar Skúlason
Texti: Pétur Halldórsson