Skógarbændur eystra kanna möguleikana

Morgunblaðið segir frá því í dag að skógarbændur á Austurlandi séu að kanna möguleika á að stofna afurðastöð til að selja ýmsan nytjavið úr fjórðungnum. Rætt er við Þór Þorfinnsson, skógarvörð á Austurlandi, í blaðinu. Fréttin er á þessa leið:


Skógarbændur á Austurlandi kanna nú möguleika á stofnun afurðastöðvar sem annast myndi sölu á ýmsum nytjavið sem fellur til í fjórðungnum. „Menn hafa legið yfir þessu að undanförnu. Eru nú að fara yfir tölur og reikna sig áfram. Það er ljóst að koma þarf vinnslu og sölu skógarafurða í farveg á næstu árum,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi.

Birkið skapar bragðið

   Nytjaskógrækt bænda á Austurlandi hófst fyrir alvöru um 1990. Þá var fólk eystra einkum að setja niður lerki. Og nú, um aldarfjórðungi síðar, er komið að því að grisja skóga og koma við sem til fellur í verð. „Eftirspurnin fer stöðugt vaxandi. Við náum ekki að sinna öllu,“ útskýrir Þór. Hann segir að á Austurlandi séu á annað hundrað skógarbændur. Því sé ljóst að ræktunarstarf á svæðinu muni skila miklum tekjum í framtíðinni og skapi þegar fjölda starfa.

   Hallormsstaðarskógur er sá víðfeðmasti á landinu, alls um 740 ha. Birki er uppistaðan, gamalgróinn landnámsskógur sem vel er hugað að. Í þjónustu sinni er Skógrækt ríkisins með verktaka sem sinna grisjun. Eftir slíkum viði er vaxandi eftirspurn, meðal annars frá pítsustöðum í Reykjavík þar sem eldofnar eru notaðir.

   „Birkið þykir skapa bragð. Við höfum á síðustu árum selt birki til Eldsmiðjunnar og raunar fleiri staða. Það lætur nærri að eldiviður úr birki sem við seljum á ári hverju sé um 100 tonn.“

   Frá því skipulagt ræktunarstarf hófst í Hallormsstaðarskógi fyrir rúmum hundrað árum hefur lerkið verið í aðalhlutverki þar. Jafnóðum þarf að grisja skóginn. Í fyrstu grisjun eru lökustu trén tekin út og ákveðinn fjöldi bestu trjánna stendur eftir. Þessi grisjunarviður fer til að mynda í kyndistöð á Hallormsstað, en varminn frá henni er notaður til að hita upp hús í skógarþorpinu. Þá er viður keyptur af verksmiðju Elkem á Grundartaga og notaður sem kolefni í járnblendiafurðir.

   „Auðvitað er eftir mestu að slægjast í timbrinu sem skógurinn skilar okkur,“ segir Þór. Lerki segir hann eftirsótt meðal til dæmis smiða sem sinna ýmiskonar fínsmíði. Oft kveði útboðsskilmálar til dæmis á um að nota skuli íslenskan við í ákveðna verkhluta.