Grein um ForHot-rannsóknarverkefnið birt í Icelandic Agricultural Sciences

Gróðri vaxin svæði sem hitnað hafa vegna breytinga á jarðhita geta varpað áhrif á þau áhrif sem vænta má að loftslagsbreytingar hafi á norðlæg þurrlendisvistkerfi. Fjallað er um þessi efni í nýrri grein sem birt er í vís­indaritinu Icelandic Agricultural Sciences.

Tvær nýjar greinar voru að koma út í hefti 29/2016 af þessu riti sem nú er eingöngu gefið út með rafrænum hætti. Þetta eru seinustu greinarnar af fimm í þessu hefti sem alls er 71 blaðsíða. Fyrri greinin af þessum tveimur nýju er um sníkjuþráðorm sem greinst hefur í innfluttum hundum. Rann­sóknin sýnir að stöðugt þurfi að vera á varðbergi fyrir sjúkdómum sem borist geta til landsins. Skógræktarfólk veit mætavel að það gildir um plöntur ekki síður en dýr.

Seinni greinin nefnist á ensku Geothermal ecosystems as natural climate change experiments: The ForHot research site in Iceland as a case study og er eftir Bjarna Diðrik Sigurðsson og 20 aðra höfunda.

Í rannsókninni sem fjallað er um nýtir vísindafólkið sér þær sérstöku aðstæður þar sem jarðvegur á jarðhitasvæði hef­ur hlýnað og því kleift að bera vistkerfið saman við jarðveg sem ekki hefur hitnað. Þessi athugun er liður af stóru rann­sóknarverkefni, ForHot, sem er ætlað að varpa ljósi á áhrif hlýnunar á norðlæg þurrlendisvistkerfi.


Rannsóknirnar sem greint er frá í greininni fóru fram  á  þremur  stöðum í  Ölfusi í næsta nágrenni Hveragerðis. Í fyrsta lagi var kannað í graslendi þar sem jarðvegur hefur verið að hlýna lengi, í það minnsta í 50 ár, í öðru lagi í sams konar  graslendi sem byrjaði fyrst að hitna eftir Suðurlands­skjálftann vorið 2008. Í þriðja lagi var jarð­vegur rannsakaður í 50 ára gömlum sitka­grenisskógi sem einnig byrjaði að hitna vorið 2008. Reynt var að velja rannsóknar­staðina þannig að þar hefði hitnað sem næst +1, +3, +5, +10 og +20 gráðum á selsíus. Efnagreiningar sýndu engin merki þess að jarðhitavatn næði upp í jarðveg svæðanna.

Athuganirnar sýndu að á jarðhitasvæðum ForHot-verkefnisins hefðu jarðhitabreytingarnar orðið til þess að upp komu aðstæður sem bera mátti saman við stýrð­ar aðstæður í ýmsum erlendum jarðvegstilraunum. Slíkar tilraunir eru einmitt notaðar til að rannsaka áhrif hlýnunar á þurrlendisvistkerfi.

Fjöldi manns og ýmsar stofnanir eiga aðild að ForHot-verkefninu sem hefur þegar getið af sér nokkrar fræðigreinar, meistararitgerðir og eina doktorsritgerð. Vænta má enn frekari skrifa um verkefnið á næstu árum. Það hefur vakið at­hygli langt út fyrir landsteinana enda mörgum spurningum ósvarað um möguleg áhrif hlýnandi loftslags á náttúruna.

Texti: Pétur Halldórsson