Á jörðinni Höfða á Fljótsdalshéraði má sjá athyglisverðan og mjög svo jákvæðan árangur af endurheimt votlendis sem þar hófst árið 1997. Jörðin Höfði er í eigu og umsjá Skógræktar ríkisins, en Þröstur Eysteinsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, og fjölskylda hans hafa búið á Höfða um tæplega tíu ára skeið.
Á Höfða er 7,8 ha. votlendissvæði sem ýmist er kallað Höfðavatn eða Álftavatn. Er Þröstur og fjölskylda fluttu í Höfða stóð svæðið ekki undir nafni því þar voru hvorki stöðuvatn né álftir. Svæðið var flatt og svo til rennislétt, gróður einkenndist af mýrastör, vetrarkvíðastör og klófífu, en einkum þó torkennilegri, miðlungsstórri starartegund sem ekki blómstraði. Fuglalíf var talsvert á svæðinu. Spóar, lóur, hrossagaukar, stelkar, jaðrakanar, lóuþrælar og grágæsir nýttu sé votlendið, en jaðrakan var eina tegundin sem gerði sér hreiður í sjálfu ?Álftavatni?.
Við Álftavatn er lág manngerð stífla sem hefur brostið einhvern tíma á sl. þremur áratugum. Í apríl 1997 var ákveðið að laga stífluna með það að markmiði að endurskapa Álftavatn. Viðgerðin á stíflunni leiddi til hækkunar vatnsborðs um ca. 40 sentimetra og Álftavatn varð nú til að nýju. Árhifin létu ekki á sér standa og í fyrstu varð vart var við mikla aukningu fuglalífs.
Stór grágæsahópur var á vatninu fram eftir vori og aftur um haustið. Álftir, rauðhöfðaendur, skúfendur, stokkendur og óðinshanar sáust á vatninu en urpu ekki. Urtandarpar varp hinsvegar við Álftavatn. Einu neikvæðu áhrifin á fuglalíf sem óttast var fyrirfram, fækkun jaðrakana, urðu ekki að veruleika. Jaðrakanarnir fluttu sig einfaldlega aðeins um set og urpu í mýrunum umhverfis vatnið, sem nú voru orðnar blautari en áður. Mikil mergð jaðrakana og stelka var við vatnið seinnipart sumars, auk anda og gæsa.
Bæði urriða og hornsíla varð vart í Álftavatni og smásjárskoðun á vatnssýnum leiddi í ljós að allmargar tegundir þörunga og smádýra voru í vatninu, þó að tegundirnar hafi ekki verið greindar. Þegar komið var fram yfir miðjan júní var ljóst að ekki yrði neitt teljandi svæði í vatninu opið, þar sem tjarnarstör var orðin ríkjandi um allt og gat nú náð eðlilegum þroska. Þá kom það á óvart að blöðrujurt var orðin algeng í Álftavatni seint um sumarið.
Vorið 1998 var fuglamergðin engu minni en 1997 og þá sást einn flórgoði á vatninu. Álftapar var alllengi á vatninu vorið 1999 en hvarf svo um miðjan júní. Sennilega hefur parið notað vatnið sem áningarstað á meðan það beið eftir að hálendisvötn losnuðu úr klakaböndum. Bæði urtendur og rauðhöfðaendur komu upp ungum við Álftavatn 1999.
Frá því snemma vors og yfir sumarið er mikið fuglalíf í tjarnarstararflóanum Álftavatni. Grágæsir eru farnar að setjast þar að í talsverðum hópum á vorin og voru eitt sinn taldar 70 gæsir í apríl 2003. Gæsavarp á svæðinu virðist ekki hafa aukist hins vegar og eru 2-4 pör í nágrenninu eins og var áður en stíflan var endurgerð. Stelkar og jaðrakanar eru einna mest áberandi á varptímanum en ekki er heldur hægt að segja að þeim hafi fjölgað. Bæði rauðhöfðaendur og urtendur verpa við vatnið en þær urpu ekki þar áður en hækkað var í því. Óðinshanar sjást á opnu í stararbreiðunni á varptímanum en ekki er þó hægt að staðfesta varp.
Mesta breytingin árið 2003 var að hettumáfar tóku upp á að verpa í gömlum álftahraukum úti í vatninu, alls fjögur pör. Álftapar er búið að vera sumarlangt við Álftavatn öll árin síðan stíflan var endurgerð en aldrei gert varptilraun að því er virðist.
Endurheimt votlendis á Höfða er áhugamál ábúendanna og alfarið þeirra verk. Ákvörðunin um að lagfæra stífluna við Álftavatn var tekin eftir mikla umhugsun og spjall við bæði leikna og lærða og gaf eigandi Höfða, Skógrækt ríkisins, leyfi fyrir aðgerðinni. Vatn flæðir yfir stífluna og til að halda vatnsborðinu í svipaðri hæð, hefur þurft að endurbæta hana annað slagið. Til að tryggja þetta varanlega þyrfti að loka fyrir núverandi útfall (sem er manngerður skurður) og þá flyttist útfallið í lækjarfarveg á öðrum stað og vatnsborðið hækkaði sennilega um 30-50 cm í viðbót. Þá myndi flatarmál votlendis einnig aukast, bæði til norðurs og suðurs.