Askur er lítið ræktaður á Íslandi, enda talinn fremur suðlægur fyrir okkur.  Hann er þó til í örfáum görðum á höfuðborgarsvæðinu.  Í Múlakoti í Fljótshlíð eru nokkruir gamlir askar og á Tumastöðum er lítill lundur.  Nú ber svo við að askarnir í Múlakoti eru flestir blómstrandi og einn í lundinum á Tumastöðum einnig.  Blómin eru mjög áberandi þar sem þau springa út áður en trén laufgast.  Er þetta í fyrsta sinn sem vitað er til að askur blómstri á Íslandi.

Blómgun nýrrar trjátegundar er ávallt fagnaðarefni, því það sýnir að hún er ekki aðeins nógu vel aðlöguð til að geta vaxið hér á landi heldur einnig að hún hafi möguleika á að fjölga sér.  Þá er bara að bíða og sjá hvort fræ þroskist í haust.