Skógræktarmenn hafa áhyggjur af ásókn Reykjavíkurborgar og nágrannasveitarfélaga í að taka skógræktarlönd höfuðborgarsvæðisins undir byggingarland. Þeir óttast að græni trefilinn svokallaði verði götóttur og hafa tekið upp viðræður við sveitarfélögin um að hann njóti friðhelgi.

Hvarvetna í útjaðri byggðarinnar má nú sjá trjágróður vaxa upp . Bara á síðustu fimmtán árum er áætlað að fimm til sjö milljónir trjáa hafa verið gróðursettar í nágrenni Reykjavíkur. Skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við sveitarfélögin hafa markvisst unnið að því allt frá árinu 1990 að klæða landið umhverfis byggðina skógi og hefur verkefnið verið nefnt Græni trefillinn. Stórt svæði var tekið frá og síðan byrjað að gróðursetja. Skógræktarmenn dreymir um að grænn trefill hárra trjáa eins og nú eru þegar vaxin upp hér í Heiðmörk umluki allt höfuðborgarsvæðið innan fárra áratuga. En hætt er við að sá trefill gæti orðið götóttar miðað við ásókn sem er í byggingalóðirnar. Þannig áformar Reykjavíkurborg nú að taka svæði á Hólmsheiði vestan Geitháls undir atvinnulóðir en þar er trjágróður þegar orðinn áberandi. Í Úlfarsfellslandi eru framkvæmdir þegar hafnar við íbúðahverfi en þetta land hafði áður verið skilgreint sem hluti af græna treflinum. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands segir að nær öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins séu nú að sækja inn í græna trefilinn til að fá byggingarland.

Kristján Már Unnarsson: Og Græni trefillinn er að gjalda þess?

Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands: Já, vissulega og af því höfum við verulega áhyggjur og menn þurfa vissulega að taka sig miklu taki til þess að breyta þessu þannig að öll útivist njóti góðs af í framtíðinni.

Að ósk skógræktarmanna eru viðræður hafnar við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að verja trefilinn sem Brynjólfur telur mikilvægan fyrir lýðheilsu.

Brynjólfur Jónsson: Þannig að hann njóti friðhelgi, þannig að útivistin hér í framtíðinni verði í fyrirrúmi og þurfi ekki að gjalda þess að menn sjá ekki nógu langt fram í tímann.

Brynjólfur Jónsson. Hann segist þó vel geta séð byggð að hluta innan Græna trefilsins en bendir um leið á að menn geti unnið ný ræktarlönd og stækkað trefilinn upp á Mosfellsheiði, upp á Sandskeið og langt upp fyrir Hafnarfjörð.