Vegna breytinga á veðurfari eru suðræn lauftré sem ekki hafa vaxið á Íslandi til þessa farin að þrífast ágætlega. Áhugi á skógrækt fer vaxandi meðal landsmanna.

Blóðbeyki (Fagus sylvatica var. purpurea) í garði í Fossvogshverfinu í Reykjavík. Mynd: A.S.

Skógrækt á Íslandi hefur aldrei verið meiri en í dag. Það er bætt við um þúsund hektörum á ári og það er vilji hjá stjórnvöldum til þess að margfalda það. Mikill fjöldi fólks mætti á opna ráðstefnu um ?Þekkingu í þágu skógræktar? sem Skógræktarfélag Íslands og Rannsóknastöðin á Mógilsá stóðu fyrir í gær. Meðal fyrirlesara þar var Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur og förstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar, sem er mjög ánægður með stöðu skógræktar á landinu í dag.

Aðalsteinn Sigurgeirsson: Það hefur aldrei verið meiri starfsemi í skógrækt á Íslandi, það hafa aldrei verið fleiri þátttakendur. Fyrir utan ríkisstofnanir og félagasamtök sem hafa verið að starfa á þessu sviði í marga áratugi eru komin til sögunnar hundruð eða jafnvel yfir þúsund manns, svo sem skógarbændur. Og við höfum aldrei bætt við jafn miklu skóglendi á ári hverju fyrr í Íslandssögunni. Við höfum nú mestanpartinn verið að ganga á skógana frá landnámi en nú hin síðari ár erum við að bæta við a.m.k. þúsund hektörum á ári.

Aðalsteinn segir að skapast hafi aðstæður fyrir trjátegundir sem hingað til hafi ekki sést í ræktun á Íslandi.

Aðalsteinn Sigurgeirsson: Það er mikið talað um hnattræna hlýnun um þessar mundir og ýmislegt sem bendir til þess að við séum komin inn í það skeið að útblástur koldíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda sé farið að hafa áhrif á veðurfar á Íslandi eins og á öðrum svæðum á hnettinum. Við erum t.d. farin að sjá lauftré úr laufskógabeltinu í Mið-Evrópu þrífast hér ágætlega hin síðari ár, svo sem eikur og beyki, sem gætu átt eftir að verða fyrirferðarmeiri í ræktun á næstu öld; hver veit?

Áhugi á skógrækt er óvíða jafn mikill og hér á landi og Aðalsteinn segir að þeir sérfræðingarnir séu mjög sáttir við að ófaglærðir fáist við að rækta tré.

Aðalsteinn Sigurgeirsson: Að sjálfsögðu, það er okkar tilgangur að vera til staðar og miðla sem allra mestri þekkingu til skógræktenda. Tilgangurinn með þeirri ráðstefnu sem haldin var í gær var einmitt sú að bæta árangur og þekkingu skógræktenda á sem flestum sviðum.

Fréttir Stöðvar 2, sunnudaginn 14. mars. Fréttamaður: Óli Tynes