Frá Övertorneå. Mynd: Wikimedia Commons/Mestos
Möguleikar Íslendinga meiri en Svía?
Frá árinu 2006 hefur verið unnið að forvitnilegu verkefni í Övertorneå í Svíþjóð, að skapa tækifæri fyrir skógareigendur að auka vöxtinn í skógum sínum og þar með möguleikann á að selja útblásturskvóta á móti aukinni bindingu í skóginum. Kolefnisbindinguna geta fyrirtæki keypt sem vilja kolefnisjafna starfsemi sína. Að verkefninu stendur sveitarfélagið í Övertorneå ásamt sænsku ríkisskógræktinni Sveaskog og búnaðarsambandi Norðurbotns, LRF Norrbotten. Íslenskir skógareigendur gætu gert allt kolefni í sínum skógum að markaðsvöru, ekki einungis það sem fæst með vaxtaraukandi aðgerðum.
Um þetta er fjallað á sænska vefnum Lantbruk & Skogsland sem er vefur tveggja tímarita, Land Lantbruk sem fjallar almennt um landbúnað og Skogsland sem er tímarit um skógrækt og skógarnytjar. Rætt er við Önnu Andersson, starfsmann sveitarfélagsins Övertorneå, sem stýrir umræddu verkefni. Hún segir greinilegt að einhvern efnahagslegan hvata þurfi fyrir skógareigendur sem vilja auka umhirðu og ræktun skóga sinna til að auka framleiðni þeirra.
Gæðastimpill er hvatning
Langtímamarkmiðið er að flétta þetta inn í hinn opinbera evrópska markað með losunarheimildir. Hingað til hefur skógræktin ekki átt heima í regluverkinu. Þess vegna er verkefnið í Norðurbotni byggt á frjálsu framtaki þeirra sem vilja kolefnisjafna hjá sér. Mörg fyrirtæki hafa viljað nýta sér þennan möguleika til að treysta sess sinn og álit á markaði. Hugsunin er þá sú að fyrirtæki sem losa koltvísýring kaupi losunarheimildir hjá skógareigendum. Á móti skuldbindur skógareigandinn sig til þess að auka framleiðni skógar síns og þar með kolefnisbindingu hans. Ráð til þess geta verið að bera á skóginn eða hreinsa upp úr skurðum.
Með því að koma á laggirnar gæðastimpli er vonast til að fyrirtækin hoppi á vagninn með skógræktendum. Því er nú unnið að því að fá þessar aðferðir vottaðar samkvæmt alþjóðlegum staðli um losunarheimildir kolefnis, VCS, Verified Carbon Standard.
Anna Andersson segir að þetta sé staðall frá bandarískri stofnun sem þau í Norðurbotni telji hæfa vel verkefninu þar. Þau vonast til að geta sent inn verkefnislýsingu nú í febrúar og að vottunin verði í höfn innan hálfs árs.
Afgerandi aðgerðir
Mikilvægt er að mati Önnu Andersson að geta sýnt fram á að þær aðgerðir sem nota á til að auka framleiðni skóganna séu viðbót við hefðbundna skógarumhirðu, að þetta sé nokkuð sem ekki sé nú þegar daglegt brauð hjá skógræktendum. Sýna þurfi fram á að það séu þessi nýju vinnubrögð sem framkalli þau loftslagsáhrif sem sóst er eftir.
Nils Olov Lindfors, talsmaður LRF Norrbotten og ein aðalsprautan í verkefninu, er vongóður um að vottunin fáist. Það verði tímamót.
Stefnt er að því að í sumar verði efnt til klasasamstarfs meðal skógareigenda í Övertorneå. Klasinn geri kleift að hefja verslun með losunarheimildir kolefnis, að sögn Önnu Andersson. Um leið er leitað máls hjá um fimmtíu sænskum fyrirtækjum um hvort þau hafi áhuga á að kaupa losunarheimildirnar.
Möguleiki fyrir Ísland?
Að vissu leyti hefur Ísland talsvert fram að færa umfram Svíþjóð í þessum efnum. Í Svíþjóð standa nú þegar fullvaxnir skógar með virkri kolefnishringrás. Það kolefni sem myndast í trjánum kemur í stað þess kolefnis sem tekið var burt þegar tré voru síðast felld í skóginum. Þess vegna er ekki að myndast umframkolefni miðað við það sem var áður nema vöxturinn sé aukinn með sértækum aðferðum eins og í verkefninu sem hér hefur verið lýst.
Með því að rækta nýjan skóg á skóglausu landi er einungis bundið nýtt kolefni allt þar til skógurinn er fullvaxinn og hringrásin hefst með skógarhöggi og endurræktun. Á meðan getum við selt kolefnisbindinguna og verslað með losunarheimildir sem einmitt er mjög mikilvægt meðan enn er notast við kol og olíu sem orkugjafa á jörðinni.