Í skógræktarritinu sem kom út rétt fyrir jól er birt í grein langtímaspá um kolefnisbindingu nýskógræktar og tekjur sem af henni hlýst. Greinin, sem er skrifuð af Arnóri Snorrasyni skógfræðingi á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, hefur vakið mikla athygli. Helgi H. Jónsson fréttamaður hjá fréttastofu Sjónvarpsins tók viðtal við Arnór og birtist eftirfarandi frétt um málið í sjö fréttum Sjónvarpsins annan janúar.
“Elín Hirst: Bindingu koldíoxíðs í skóglendi hérlendis má auka til mikilla muna. Í nýrri úttekt rannsóknastöðvarinnar að Mógilsá er gert ráð fyrir að hún geti, um miðja öldina, verið orðin tuttugufalt meiri en nú og hafi trjágróður þá bundið vel á aðra milljón tonna af koldíoxíði.
Helgi H. Jónsson: Bindingu koldíoxíðs í skóglendi hérlendis má auka til mikilla muna. Í nýrri úttekt Rannsóknarstöðvarinnar að Mógilsá er gert ráð fyrir að hún geti um miðja öldina verið orðin tuttugufalt meiri en nú og hafi trjágróður þá bundið vel á aðra milljón tonna af koldíoxíði.
Í rannsóknarstöðinni að Mógilsá í Kollafirði hafa menn rannsakað kolefnisbindingu íslenskra skóga í hartnær áratug og niðurstaðan er sú að skóglendi bindur 50-60 þúsund tonn af koldíoxíði á ári. Og nú eru menn tilbúnir til að taka næsta skref. Fyrir liggur áætlun til langs tíma um það hvernig stórauka megi kolefnisbindinguna.
Arnór Snorrason: Ef við sláum í merina og aukum skógrækt töluvert þá getur skógrækt verið að binda um miðja þessa öld einn þriðja af því sem að við Íslendingar erum að losa af koldíoxíði út í andrúmsloftið.
Helgi H. Jónsson: Og hvað þyrfti að gera til þess?
Arnór Snorrason: Þá þyrftum við að þrefalda
gróðursetningu frá því sem nú er.
Með örðum orðum, auka árlega gróðursetningu úr 5 milljónum plantna í 15 milljónir fram til 2040. Þannig mætti tvítugfalda kolefnisbindingu skóglendis hér.
Arnór Snorrason: Þá væri bindingin í kringum 2040 um það bil 1,3 milljónir tonna af koldíoxíði.
Gangi þetta eftir yrði með þessu ekki aðeins dregið úr losun gróðurhúsalofttegundarinnar koldíoxíðs, sem hvað mest stuðlar að því að loftslagið fer hlýnandi með afleiðingum sem geta orðið afdrifaríkar fyrir heiminn allan, mannkyn allt, heldur yrði að þessu annar gróði í beinhörðum peningum.
Arnór Snorrason: Það sem að kom á óvart í þessum útreikningum var það að ef við miðum við markaðsverð sem hefur verið á kolefniskvóta eða losunarheimildum eins og það heitir í Evrópu núna undanfarið ár að þá er þessi skógrækt til að binda kolefni hreint út sagt arðbær. Hún skilar meiri tekjum en hún kostar.
Helgi: Hvaða tölur ertu þá að tala um?
Arnór Snorrason: Ég er að tala um það að við gætum verið með hagnað á ári hverju sem næmi allt að 2 milljörðum af þessari skógrækt þegar best lætur um miðja þessa öld.
Helgi: Og í hversu langan tíma?
Arnór Snorrason: Það gæti verið tímabil sem væri um það bil svona 40, 50 ár.”
Í viðtalinu minntist Arnór á þau verðmæti sem felast í bundnu kolefni í skógum, í samhengi við markað fyrir útblásturskvóta koldíoxíðs. Nánar var fjallað um loftslagsmál og sölu á losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda í þættinum „Spegillinn“ á Rás 1 ríkisútvarpsins, þriðjudaginn 2. desember. Hlusta má á þáttinn HÉR.