Séð af Grásteinsheiði til Húsavíkur og Húsavíkurfjalls. Í forgrunni er svæði sem sáð var í lúpínu og gróðursett birki ekki löngu síðar. Þarna er að myndast birkiskógavistkerfi með fjölbreyttum tegundum, til dæmis loðvíði sem annars sést ekki á svæðinu. Skjámynd úr myndbandinu
Athyglisvert samspil lúpínu og birkis getur að líta á Grásteinsheiði skammt sunnan Húsavíkur þar sem land er illa farið eftir aldalanga ofbeit. Engin gróðurframvinda hefur verið á svæðinu þrátt fyrir áratuga friðun og rofið heldur áfram ef undanskilin eru svæði þar sem lúpínu var sáð í mela árið 1993. Mest er framvindan þar sem birki var gróðursett með lúpínunni. Annars staðar er lúpínan heldur farin að láta undan síga og fátt kemur í staðinn. Skógræktin hefur gefið út myndband sem sýnir þetta samspil mjög vel.
Um Grásteinsheiði og Grjótháls liggur vegurinn frá Húsavík áleiðis að Þeistareykjum. Þegar íbúum tók að fjölga á Húsavík og fólk fluttist þangað úr sveitunum tóku margir með sér búfénað og héldu kindur í hjáverkum. Þetta fé gekk á nærliggjandi svæði sem þoldu illa það mikla beitarálag sem af hlaust. Svipuð dæmi má finna í nágrenni þéttbýlis víða um land en mishratt hefur tekið slík svæði að ná sér á ný þegar aftur dró úr beitinni. Á Grásteinsheiði hefur nánast engin gróðurframvinda orðið í 30 ár frá því að heiðin var friðuð fyrir beit. Vatn og vindur nagar áfram af landinu, rofabörð eru virk og gróður eyðist.
Land sem þetta losar mikinn koltvísýring út í andrúmsloftið og er því hluti loftslagsvandans. Lífræn efni í jarðveginum eru ekki lengur í heilbrigðri hringrás heldur rotna þau. Við rotnunina verður til koltvísýringur sem losnar út í andrúmsloftið. Niðurbrot lífrænna efna í hnignuðum gróðurvistkerfum er án efa ein stærsta uppspretta losunar á Íslandi, þótt rannsóknir skorti enn svo gefa megi upp nákvæmar losunartölur þar um.
Húsvíkingar hafa unnið talsvert að uppgræðslu og skógrækt í og við bæinn með miklum árangri. Mikið moldrok sem þar var gjarnan vandamál má nú segja að heyri sögunni til. Þó er enn verk að vinna. Samtökin Húsgull hafa komið mjög við sögu í þessu starfi en einnig víðar í héraðinu, ekki síst á Hólasandi í samvinnu við Landgræðsluna, Skógræktina og fleiri. Þar hefur lúpína reynst vel til að efla landgæði á ný. Á Grásteinsheiði sáði Landgræðslan lúpínu í nokkra mela árið 1993. Hún hefur síðan breiðst hægt út, stöðvað rof og lokað rofaörðum og vatnsrásum sem skola út jarðvegi. Athygli hefur vakið á síðari árum að lúpínan er orðin gisin þar sem hún hefur verið lengst. Hún hopar á melkollunum án þess að skilja eftir sig mikla grósku sem nýtist öðrum tegundum, hvað sem veldur. Undantekning frá þessu eru þau svæði þar sem birki var gróðursett í lúpínuna nokkrum árum eftir að henni var sáð. Þar heldur lúpínan velli og birkið vex vel. Þar sem birkið nýtur ekki sambýlis við lúpínuna þrífst birkið hins vegar illa eða alls ekki.
Samlífið gagnast báðum tegundunum
Svo virðist með öðrum orðum sem lúpína og birki vegi hvort annað upp. Samlífið gagnast greinilega báðum tegundunum og raunar miklu fleirum því þarna er loðvíðir, grös, blómjurtir og fleira farið að sá sér í svæðið. Loðvíðir sést ekki annars staðar á svæðinu og á greinilega enga möguleika þar. Hann sækir í gróskuna í uppvaxandi birkiskóginum. Af þessu er ljóst að samspil lúpínu og birkis skapar þarna öfluga gróðurframvindu. Tegundum fjölgar smám saman og ljóst er að byrjað er að myndast birkiskógavistkerfi með því fjölbreytta lífi sem því fylgir. Með tímanum mun birkið skyggja lúpínuna út þannig að hún hverfur en í staðinn koma tegundir sem eru einkennandi fyrir birkiskóglendi hérlendis.
Á Grásteinsheiði og Grjóthálsi bíða um 2.000 hektarar eftir því að fá að gera sama gagn. Það sama má segja um hundruð þúsunda hektara illa farinna gróðurvistkerfa á öllu landinu sem bíða eftir því sama. Sú aðferð af Grásteinsheiði sem lýst er í myndbandinu getur vel nýst víða um land og henni má hæglega beita með skynsamlegum hætti þannig að útkoman verði öflug birkiskógavistkerfi í líkingu við þau sem áður þöktu stóran hluta landsins. Myndina tók Árni Sigurbjarnarson með dróna sem hann flaug yfir Grásteinsheiði. Árni er ötull landgræðslu- og skógræktarmaður og hefur m.a. verið forystumaður í félagsskapnum Húsgulli. Honum eru færðar bestu þakkir fyrir myndskeiðið.
Áratugur endurhæfingar vistkerfa hafinn
Með árinu 2021 er hafinn áratugur endurhæfingar vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá er lögð áhersla á að klæða á ný heilbrigðum gróðri ýmis svæði sem hafa farið hnignandi eða jafnvel breyst í auðnir. Stór hluti Íslands flokkast sem slík svæði. Skógræktarsvæði á Íslandi eru að miklu leyti á þess konar landi og nýir skógar eru því dæmi um endurhæfð vistkerfi þótt þau séu ekki endilega eins og vistkerfin sem áður voru enda er afturhvarf til fyrra horfs ómögulegt í náttúrunni. Víða hafa birkiskógar breiðst út á svæðum í umsjón Skógræktarinnar og er nærtækt að nefna Þórsmörk en einnig má benda á mikla útbreiðslu birkis í Fnjóskadal og Fljótsdal, Þjórsárdal og víðar. Sums staðar hefur lúpína flýtt mjög fyrir útbreiðslu birkis svo sem á Hálsmelum í Fnjóskadal þar sem hún hefur hörfað í kjölfarið en dæmigerður birkiskógur tekið við.