Nýlega var haldinn fundur í Umeå í Svíþjóð í norrænum samstarfshópi um áhrif hlýnandi loftslags á skaðvalda í skógum Norðurlanda. Vinnuhópurinn (Network of Climate Change Risks on Forests - FoRisk) starfar á vegum SamNordisk Skogsforskning (SNS), sem er rannsóknasamstarf skógræktarstofnana á Norðurlöndum. Á fundinum var einnig gestafyrirlesari frá Bandaríkjunum, prófessor Mathew Ayres frá Dartmouth háskóla. Fulltrúar allra landa lýstu ástandinu varðandi meindýr í skógum, skógarsjúkdóma og tjón vegna villtra spendýra. Einnig var reynt að spá í spilin varðandi framtíðarþróun. Fulltrúi Íslands á fundinum var Halldór Sverrisson.

 

Skemmst er frá því að segja að mörg dæmi voru nefnd um það að skaðvaldar eru að breiðast norðar og ofar í fjöll. Einnig um innflutning nýrra skaðvalda. Fyrir okkur Íslendinga er haustfeti (Operoptera brumata) áhugavert dæmi, en hann er talinn vera að auka útbreiðslu sína hér á landi. Bjørn Økland sagði frá því að í Noregi hefur haustfeti verið að aflaufga birkiskóga mun ofar í fjöllum en áður í Troms fylki, nánast við skógarmörk. Lirfa fiðrildisins Epirrita autumnata er að færa sig norðar og á svæði sem hafa verið með landrænt veðurfar, þ.e. kalda vetur. Þetta er tegund sem fer mjög illa með birkiskóga og hætta er á að gæti gert usla í skógum hér á landi. Annað fiðrildi sem áður fannst ekki eða í óverulegum mæli í Troms er Agriopis aurantiaria, sem hefur nú á síðustu árum gert þar mikinn usla. Þetta er náinn ættingi haustfeta og lifir á mörgum tegundum eins og hann. Þessar fiðrildategundir gætu allar ógnað okkar birkiskógum ef þær næðu hér fótfestu og meiri útbreiðslu. Haustfetinn er sú eina þeirra sem finnst hér nú, en hann fannst hér fyrst árið 1928. (Sjá fróðlega vefsíðu rannsóknahóps í Tromsö, www.birchmoth.com).


Lirfa fiðrildisins Yponomeuta evonymella, sem aflaufgar hegg, er að færa sig norðar en áður og finnst nú í Efjord í Nordland, sunnan við Narvik. Nefna má einnig að grenibarkarbjallan, Ips typographus, sem hingað til hefur verið bundin við syðsta hluta Noregs finnst nú í talsverðum mæli í Mið-Noregi. Varla er nú samt ástæða til að óttast tjón af völdum þessarar tegundar hér á landi  þótt hún bærist hingað.


Af sveppasjúkdómum sem nú eru að breiðast út fór minni sögum á fundinum. Heitari sumur og langir þurrkar gera árásir fúasveppa eins og rótarsældu (Heterobasidion annosum) og hunangssvepps (Armillaria mellea) verri en áður var. Sá síðarnefndi finnst hér, en hefur ekki valdið miklum skaða enn sem komið er. Með vaxandi skógarhöggi má reikna með aukinni útbreiðslu fúasveppa hér á landi. Fáir nýir sjúkdómar hafa fundist á Norðurlöndum síðustu fimmtán árin, en einn af þeim er ryð á gráelri (Melampsoridium hiratsukanum). Þessi ryðsveppur er ættaður austan úr Asíu og hefur verið að breiðast vestur á bóginn á síðustu áratugum. Óvíst er hvort tengja má það breyttu veðurfari. Nýjasti sjúkdómurinn í Svíþjóð er nálasveppur á furu, Mycospherella dearnessii. Þessi sveppur veldur miklum usla á furu í Kína, þar sem hann er tiltölulega nýr. Engu skal um það spáð hvort þessi sveppur gæti fest sig í sessi hér á landi, bærist hann hingað.


Almennt séð er ekki ástæða til að óttast aukinn skaða í íslenskum skógum samfara hlýnun. Helst er ástæða til þess að hafa áhyggjur af birkiskógunum okkar. Þeir búa nú þegar við mikið álag vegna beitar skordýra. Nýir skaðvaldar hafa bætst við, svo sem birkismugan, og aðrir eru enn að breiðast út, t.d. haustfeti og tígulvefari. Á Norðurlöndum eru skæðir skaðvaldar í birkiskógi sem enn hafa ekki borist hingað. Ef það gerðist, og hlýnun heldur áfram, gætu afleiðingarnar orðið alvarlegar í skógum víða á landinu.

 

 

Texti: Halldór Sverrisson