Birkiþéla er nýr landnemi hérlendis og hegðar sér með svipuðum hætti á birkinu og birkikemban nema h…
Birkiþéla er nýr landnemi hérlendis og hegðar sér með svipuðum hætti á birkinu og birkikemban nema hvað birkikemba herjar snemmsumars en birkiþéla síðsumars. Einkennin eru svipuð því lirfur beggja tegundanna koma sér fyrir milli laga í laufblaðinu og éta það innan frá. Mynd: Edda S. Oddsdóttir.

Lirfan leynist milli laga á laufblöðum birkis líkt og lirfa birkikembu

Ný vesputegund hefur fundist á birki víða um landið og herjar hún á lauf trjánna síð­sumars með svipuðum hætti og birkikemba í sumarbyrjun. Nýja tegundin hefur hlotið heitið birkiþéla. Eftir er að sjá hvaða áhrif þessi nýja óværa hefur á íslenska birkið sem nú breiðist á ný út um landið.

Margir skóga- og garðeigendur ættu nú að þekkja til  birkikembunnar (Heringocrania unimaculella). Hún fannst fyrst í Hveragerði árið 2005 og hefur síðan dreift sér um víða um birkiskóga landsins. Núverandi út­breiðslu­svæði hennar nær frá Markarfljóts­aurum á Suðurlandi vestur yfir landið upp í Skorradal. Einnig finnst hún í Skagafirði og Eyjafirði (Mynd 1).


Birkikemba er fiðrildategund sem verpir á ilmbjörk (Betula pubescens) að vori. Þegar lirfurnar koma úr eggjum smjúga þær inn í lauf birkisins og éta innri vefi þess sem gerir að verkum að í júní fara að sjást brún lauf á birkinu (mynd 2). Lirfurnar hverfa síðan niður í jörðina seinna í júnímánuði sem þær púpa sig og eru í dvala fram á næsta vor. Þar sem lirfur birkikembunnar hverfa af vettvangi fyrri hluta sumars hefur birkið á útbreiðslusvæði hennar oft náð að jafna sig og fengið ný græn lauf fyrir vetur­inn.

Nokkra furðu vakti hjá starfsmönnum Rannsóknastöðvar Skógræktar Mógilsá þegar þeir urðu varir við lifandi lirfur innan í birkilaufi haustið 2016. Lirfurnar litu í fyrstu út fyrir að vera alveg eins og lirfur birkikembu. Þegar betur var að gáð benti þó ýmislegt til þess að þetta væri ekki sama tegundin, enda fannst hvergi í erlendum heimildum að birkikemba væri einnig að störfum að hausti. Nú í haust fóru aftur að sjást álíka skemmdir og staðfest hefur verið að um sé að ræða nýja tegund sem nú hefur fengið íslenska heitið birkiþéla (Scolioneura betuleti) (mynd 3).

Mynd 2. Skemmdir á birki af völdum birkiþélu (til vinstri) og birkikembu (til hægri). Skemmdir af völdum birkikembu koma fram fyrri hluta sumars en þéluskemmdir sjást er líða tekur á sumarið. Að öðru leyti er erfitt að greina mun milli tegunda úr fjarska. Mynd t.v.: Edda S. Oddsdóttir, myn t.v.: Brynja Hrafnkelsdóttir.

Þótt skemmdir eftir birkikembu og birkiþélu séu áþekkar (Mynd 2) eru þetta tvær óskyldar tegundir. Ólíkt kembunni er birkiþéla vesputegund sem lifir ekki bara á ilmbjörk heldur einnig hengibjörk (Betula pendula), sitkaöl (Alnus viridis ssp. sinuata) og grænöl (Alnus viridis).


Athyglisvert er hversu víða um land þessi nýja skordýrategund virðist vera komin, sem bendir til þess að hún hafi verið hér um hríð áður en hún uppgötvaðist (mynd 4). Tegundin er evrópsk að uppruna og barst til N-Ameríku seint á síðustu öld, þar sem hún hefur enn sem komið er takmarkaða útbreiðslu. Í hvorugri heimsálfunni telst hún til alvar­legra skaðvalda, en skyldar tegundir (einnig evrópskar að uppruna) hafa valdið nokkrum áhyggjum í Kanada.


Það er því óvíst hvað gerist með birki­þél­una í framhaldinu en ljóst að koma hennar hingað til lands er ekki góð frétt fyrir birkið. Nú eru ekki bara færri lauf sem ljóstillífa að vori heldur fækkar grænum laufum einnig að hausti.

Erfitt er að segja til um hversu mikil áhrif þessir tveir nýju skaðvaldar hafa á birki langframa. Þar spilar margt inn í, svo sem hver áhrif veðurfars verða annars vegar á skaðvaldana og hins vegar á birkið. Ljóst er að birkið er að breiðast út um landið og sækir tegundin nú sífellt hærra upp, þar sem svalara er í veðri. Áhrif þess á þrif skaðvaldanna eru óljós, sem og hvort munur sé á skemmdum milli birkikvæma. Þá er lítið vitað um hvort né þá hvaða afræningjar á birkikembu og birkiþélu finnast hér á landi.

Texti og myndir: Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir