Böðvar stendur við timburvagn með timbur úr fyrstu grisjun á Snæfoksstöðum
Í jólablaði Fréttabréfs Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps sem kom út síðla á nýliðnu ári er ýmislegt fróðlegt og áhugavert að finna. Meðal efnis í blaðinu er frásögn Böðvars Guðmundssonar skógfræðings sem starfaði síðast sem skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni og þjónaði skógarbændum á Suðurlandi. Böðvar lét af störfum hjá Skógræktinni 2019 en starfar áfram fyrir Skógræktarfélag Árnesinga eins og hann gerði raunar með fram störfum sínum hjá Skógræktinni einnig.
Böðvar hefur frá ýmsu að segja og hefur nú veitt góðfúslegt leyfi til að frásögn hans verði birt einnig hér á vef Skógræktarinnar og það gerði líka ritstjórinn, Kristján Einarsson. Skogur.is þakkar þeim kærlega fyrir texta og myndir.
Jólaspjallið
úr Fréttabréfi Skógræktarfélags Hraungerðishrepps
Einn er sá maður sem við hjá Skógræktarfélaginu höfum mikið leitað til varðandi nánast allt sem lýtur að skógræktarmálum. Sá maður er Böðvar Guðmundsson skógafræðingur. Hann er fæddur á Selfossi og hefur búið þar alla sína tíð. Böðvar á langan starfsferil að baki, u.þ.b. 55 ár. Þegar Böðvar kemur hingað í „Sandvíkur-amtið“ að okkar beiðni til að spá og spekúlera, mætir hann í skógarbuxunum, buxum með milljón vösum, dálk (hníf) í slíðri hangandi í beltinu og ekki síst stóra lyklakippu með mörgum lyklum hangandi í sama belti.
Við fengum Böðvar til að segja frá starfi sínu í skóginum.
Fyrst er að geta þess að ég réðst sem sumarstrákur til skógarvarðarins á Suðurlandi, Garðars Jónssonar, vorið 1966.
Fyrsta verkið sem ég var settur í var að fara með vinnufélaga mínum, Helga Garðarssyni, austur í Fljótshlíð (Þveráraura) og stinga þar daglangt upp lúpínuhnausa. Þar hafði lúpína komið sér fyrir á nokkru svæði.
Þá voru liðin liðlega 20 ár síðan Hákon Bjarnason kom með fyrstu lúpínufræin frá Alaska.
Daginn eftir fórum við með fulla kerru af lúpínuhnausum upp í Þjórsárdal og plöntuðum þessu skammt austan við Sandárbrúna, sunnan þjóðvegar, í tvær raðir. Raðirnar byrjuðu upp við veg og lágu til suðurs þvert á veginn, um 100 metra langar.
Þetta er nú, 50 árum síðar, orðið að allmörgum hekturum af lúpínu sem klæðir þarna sandinn og reyndar Sandár- og Þjórsáreyrarnar nánast allar þar suður af og er búið að gjörbreyta gróðurfari á þessu svæði.
Birki hefur sáð sér í stórum stíl inn í lúpínuna og einnig er þarna að vaxa upp lerkiskógur.
Lúpínu hefur verið dreift víðar um sandinn og er smám saman að klæða hann. Þetta er afar ódýr aðferð við uppgræðslu lands og plantan er þeirrar náttúru að hörfa fyrir öðrum gróðri þegar hún hefur unnið sitt starf.
Það tekur að vísu 30-40 ár, en hvað er það í eilífðinni?
Á síðari árum er einhver misskilin náttúruverndarstefna komin á kreik sem hefur það að markmiði að eyða lúpínu. Þetta er algjör vitleysa því henni er ekki hægt að eyða. Betur færi á því að planta trjám ofan í lúpínuna og láta hana fóðra þau. Ekki veitir af í okkar skóglausa og skjóllausa landi.
Helstu verk okkar fyrstu árin voru að setja upp girðingar um skógarreiti og viðhalda þeim. Á þessum árum var rollufárið í algleymingi og skepnurnar afar ágengar við þá bletti sem ekki voru þrautnagaðir niður í rót. Gróðursetning var einnig allmikil. Það hefur nú verið mitt hlutskipti í lífinu að standa að og fyrir gróðursetningu vítt og breitt um Suðurlandið, bæði fyrir Skógræktina og Skógræktarfélag Árnesinga. Merki þessa má orðið sjá víða.
Ég fór út til Noregs til náms í skógarfræðum síðsumars 1970. Dvaldi ég við þetta fram á haust 1972 og kom þá heim útskrifaður sem skógtæknir. Mín beið starf hjá Garðari skógarverði sem skógverkstjóri hjá Skógrækt ríkisins. Helstu starfsvæðin voru þær jarðir sem Skógræktin átti og á enn, Ásólfsstaðir og Skriðufell í Þjórsárdal, Skarfanes í Landsveit, Þórsmörk og Haukadalur.
Við sáum um fleiri lönd þótt þau væru ekki í eigu Skógræktarinnar, t.d. skógana við Kirkjubæjarklaustur, við Laugarvatn, við Hrauntún í Biskupstungum, ofan Garðyrkjuskólans við Hveragerði og fleiri.
Vinnan fólst í eftirliti með girðingum og að planta til skógar. T.d. var grenið ofan Garðyrkjuskólans gróðursett 1966-1968, að mestu af vinnuflokki Suðurlandsdeildar Skógræktar ríkisins.
Eyðimörkin klædd
Við fórum að fitla við að græða upp og planta í eyðimörkina í Þjórsárdal, (Vikrana) upp úr 1990. Það tókst vonum framar. Galdurinn var að nota lúpínuna sem undanfara eða þá húsdýraáburð. Næringarvöntun er mikil á þessum þurru svæðum. Sandfok var einnig vandamál og til stórra bóta var auðvitað að binda sandinn með lúpínu eða grassáningum.
Hekluskógaverkefnið er framhald af þessu. Sú aðferð sem skógarvörðurinn notar núna við uppgræðslurnar er að dreifa kjötmjöli sem virðist langtum áhrifameira og endist betur en tilbúinn áburður og grasfræ.
Minnisstæðar eru hátíðirnar sem haldnar voru um verslunarmannahelgarnar í Þórsmörk, þær síðustu 1966 og 1967. Hátíðarsvæðið var í Húsadal og sá Skógræktin um þetta í fjáröflunarskyni. Þangað voru fengnar vinsælar hljómsveitir og haldið uppi dagskrá á kvöldin. Á daginn var sofið eða svallað.
Vínbann var á og leitað á mönnum við komuna inn á Mörk, en samt sem áður var nokkuð sukksamt á svæðinu. Menn höfðu ýmis ráð til að koma veigunum inn eftir og var algengt að fela vínið í varadekkjum, bensíntönkum, niðursuðudósum og fleiri stöðum. Einnig bar það við að menn mættu inn eftir og græfu niður veisluföng á völdum stöðum nokkrum dögum fyrir hátíðina. Stundum voru slík hreiður tóm þegar til átti að taka. Ég botna hreint ekki í því hvernig það gerðist svona sjálfkrafa, (eða þannig).
Við sáum um hreinsun svæðisins eftir hátíðirnar og það var mikil vinna. Öllu rusli var sturtað í Markarfljót og það sá um að mala það mélinu smærra á örstuttri stund þannig að ekki varð tangur né tetur eftir af því. Svona lagað er bannað að gera í dag, sem betur fer.
Ég tók við starfi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Árnesinga árið 1978. Garðar Jónsson hafði gegnt því um alllanga hríð. Þar sem hann var jafnframt skógarvörður á Suðurlandi og átti að taka út störf skógræktarfélaganna gekk ekki að hann væri jafnframt í forstöðu fyrir félag sem fékk styrki. Því varð að ráða nýjan mann í hans stað.
Aðalstarfsvettvangur Skógræktarfélags Árnesinga hefur lengi verið jörðin Snæfoksstaðir í Grímsnesi. Þar hefur verið plantað til mikilla skóga. Jörðin er um 700 ha að stærð og lætur nærri að 500 ha séu nú komnir undir skóg. Þar er nú í uppvexti mikið af jólatrjám auk timburframleiðsluskógar. Jörðin er nú að mestu sjálfbær og skapar tekjur fyrir skógrækt annars staðar í sýslunni, en félagið hefur deildir í 12 sveitarfélögum sýslunnar. Félagið styrkir deildir sínar með plöntuframlögum ár hvert.
Á Snæfoksstöðum er rekið lítið sagverk, þar sem afurðir skógarins eru nýttar eins og efni standa til og þar er einnig timbursala. Talsvert er flett af ókantsöguðu efni sem er orðið vinsælt í alls konar smíði, s.s. útivistarmublur og skjólveggi. Einnig er þetta efni notað í veggklæðningar, bæði utan- og innanhúss.
Skógarvarðarárin
1986 var ég ráðinn í stöðu skógarvarðar á Suðurlandi og gegndi því næstu 14 árin. Verkin voru í raun þau sömu og áður; varsla eigna Skógræktarinnar á Suðurlandi. Skömmu síðar bættist við nýtt verkefni í skógrækt. Kirkjujörðin Mosfell í Grímsnesi var fengin til skógræktar. Við höfðum verið fram að þessu að vinna í kjarrivöxnu landi sem var afar hagstætt til skógræktar, enda lifði nánast allt sem við settum niður í skjóli kjarrsins.
Nú tóku við erfiðari aðstæður. Landið var að mestu véltækt og því voru keyptar vélar sem hentuðu til jarðvinnslu. Allar plöntur voru þó gróðursettar með handafli. Ýmis áföll dundu á okkur þarna og ljóst varð að ekki yrði mögulegt að halda áfram að planta lerki sem átti að verða ein aðaltrjátegundin þar. Því var hætt að planta lerki í Mosfellslandið og nokkru síðar hættu Suðurlandsskógar að planta lerki sökum ýmissa sjúkdóma sem herjuðu á það, að hluta vegna hlýnandi veðurfars.
Stafafura gekk hins vegar vel á hinu rýra landi Mosfellsjarðarinnar. Þriðjungur jarðarinnar er láglend mýri sem reyndist vera einn mesti frostpollur sem hægt er að finna á Suðurlandi. Þar gekk heldur illa að fá upp skóg, annan en stafafuruskóg.
Mosfellsverkefninu fylgdi þokkaleg fjárveiting sem átti að koma á hverju ári næstu 15 árin. Fjárveitingin skilaði sér að fullu í tvö ár en svo dró úr henni og á endanum sátum við uppi með sömu fjárveitingu og áður en Mosfellsverkefnið bættist við. Það er lítið að marka stjórnmálamenn í langtímafjárfestingum. Þolinmæðin er engin.
Svona var nú þetta. Þegar ég byrjaði störf 1966 hélt ég að menn væru með trjátegundavalið alveg á hreinu, menn vissu hvað passaði við allar aðstæður. En ég komst fljótt að því að svo var ekki.
Því hefur orðið að prófa sig áfram með staðsetningu ýmissa trjátegunda eins og dæmið frá Mosfelli lýsir svo vel. Það er t.d. ekki hægt með góðu móti að planta grenitegundum í lyngmóa. Ekki heldur í frostpolla. Stafafuru er þó hægt að planta nánast alls staðar nema helst á mjög vindasama staði. Ég hef alltaf verið áhugasamur um að prófa nýjar tegundir og kvæmi trjáa og hefur sumt heppnast og annað ekki. Þetta er líklega söfnunaráráttan í manni.
Það er því orðið nokkuð ljóst núna að þær tegundir sem til framtíðar munu mynda skóga í þessu landi eru sitkagreni sem er verðmætast, alaskaösp sem vex hraðast tegunda ef hún fær nóg að éta og svo stafafura sem notuð er á rýrasta landið. Ársvöxtur er mældur í rúmmetrum pr. hektara á ári. Furan vex um 5 m3/ha/ár, grenið um 6-10 m3/ha./ár á hentugu landi og öspin toppar þetta allt á góðu landi með allt að 20 m3/ha/ár. Þetta eru nákvæmlega sömu vaxtartölur og við þekkjum frá sömu breiddargráðum í Skandinavíu. Birkið kemur ekki með í þessa upptalningu því það framleiðir aðeins 1 m3/ha/ári. Það er aðeins nothæft til landgræðslu og til að skapa frumskjól.
Fræsöfnunarleiðangurinn til Alaska
Eftir að hafa verið með í höndunum plöntur sem komu frá ýmsum stöðum í heiminum og margar þeirra frá Alaska, þar á meðal okkar bestu tegund, sitkagreni, þá voru ýmis staðarnöfn þar vestra orðin kunnugleg.
Það var því með mikill gleði að ég þáði boð um að taka þátt í fræsöfnunarleiðangri vestur til Alaska haustið 1985. Fyrir ferð þessari stóð Óli Valur Hansson garðyrkjuráðunautur sem nú er látinn. Við vorum fjórir sem réðumst í þessa ferð, Óli Valur, Kári Aðalsteinsson garðyrkjumaður, Ágúst Árnason, skógarvörður í Skorradal, og ég. Ferðin stóð yfir í 6 vikur og fórum við um Alaska frá Kotsebue í norðri við heimskautsbaug vestur til Nome og Unalakleet í vestri, ínn í Yukon-hérað í Kanada í austri allt til Dawson-borgar við Klondike-ána og suður til Cordova við Prince Williams flóa. Lengst vorum við þó á Kenai-skaga, þaðan sem við höfðum áður fengið efni hingað til lands, bæði sitkagreni, ösp og lúpínu.
Þetta var mikil vinna. Við ferðuðumst um í rúmgóðum bíl og stungum okkur inn í skóga með jöfnu millibili og tíndum fræ af barrtrjám, þ.e. við rændum könglum úr hreiðrum íkorna sem voru búnir að safna að sér vetrarforða, og klipptum stiklinga af öspum og víði. Einnig var safnað fræi og stiklingum af ýmsum runnum og plöntum. Á hverju kvöldi var afrakstur dagsins merktur vel með tegundarheiti og söfnunarstað og gengið fá sýnunum í blautan pappír. Einu sinni í viku var kassi eða tveir sent heim til Íslands með flugi. Þar tóku við því Sigurgeir Ólafsson í aðfangaeftirlitinu og starfsmenn tilraunastöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá. Allir könglar fengust þresktir í Alaska og kom fræið heim veturinn eftir. Það var unnið langt fram á kvöld nánast alla daga. Enn þá er verið að vinna úr þessu efni og prófa það.
Það að koma með þessu móti til Alaska var fyrir mig eins og fyrir múslima að koma til Mekka. Nú var maður orðinn staðkunnugur á nokkuð víðu svæði og betur í stakk búinn til þess að velja söfnunarstaði erfðaefnis.
Við gleymum því oft hér á landi í hversu hafrænu loftslagi við búum. Tré sem eiga uppruna sinn inni í meginlöndum búa við kaldan vetur og heit sumur. Þau þekkja ekki saltdrífu strandaloftslagsins. Þau geta vaxið hér áfallalaust eða lítið nokkurn tíma en fyrr eða síðar minnir strandloftslagið á sig og sendir saltdrífu yfir og innlandstrén bíða mikið tjón af. Þetta höfum við séð hér og skemmst að minnast vetrarins 2014-2015 með sínum 36 suðvestan saltlægðum, sem gerðu nærri út af við innlandsstafafuruna okkar; tré sem voru ættuð innan úr Bresku-Kólumbíu og Yukon í Kanada. Öll þau tré sem best ganga hér sunnanlands eru ættuð frá strandhéruðum Alaska. Við erum að uppgötva það núna síðustu árin að jafnvel skógarfura frá sömu breiddargráðum úr strandhéruðum Noregs er að gera það gott hérna. En eins og menn vita þá var búið að afskrifa þá tegund úr ræktun hér fyrir áratugum síðan. Reyndin var nefnilega sú að menn voru að taka hingað inn skógarfuru af allt of norðlægum uppruna. Á síðari árum hafa menn nefnilega uppgötvað að skógarfuru er lítið hægt að færa frá norðri til suðurs og öfugt, en hægt er að færa hana frá austri til vesturs og öfugt, svo framarlega sem loftslagið sé svipað. Skógarfuran þolir illa breytingu á daglengd sem verður við færslu suður eða norður.
Saltveturinn 2014-15 fækkaði kvæmum stafafuru nokkuð eins og áður er sagt. Annað sem kom á óvart eftir þennan vetur er það að á blágreni sáust engar skemmdir. Blágreni er innlandstegund sem á ættir að rekja til háfjalla í Colorado-ríki í Bandaríkjunum. Þar ríkir algjört meginlandsloftslag og því er þetta saltþol blágrenis ráðgáta.
Skordýrum hefur fjölgað við hækkandi hitastig og sköðum af þeirra völdum. Ertuygla er að gera okkur lífið leitt þessi árin og veldur verulegum skaða á gróðursetningum í graslendi, þar sem hún étur upp plönturnar á heilu hekturunum. Hún er einnig sérlega skæð í lúpínubreiðunum. Aukinn hiti hefur hins vegar aukið vöxt trjáa þannig að þau sem komast á legg vaxa nokkru hraðar nú en þau gerðu fyrir 30 árum. Þessi eina auka hitagráða sem orðin er að veruleika, hefur afar mikil áhrif bæði til góðs og ills. Náttúran er síbreytileg og viðfangsefnin einnig og það er það sem gerir þetta starf svo áhugavert.
Skógræktarráðgjöf
Skógarvarðarárin 14 voru fljót að líða. Árið 2000 æxlaðist það svo að ég gerðist ráðunautur í skógrækt hjá Skógrækt ríkisins og vann aðallega fyrir Suðurlandsskóga sem voru þá búnir að starfa í 11 ár. Vinnan fyrir Suðurlandsskóga varð brátt mitt aðalstarf og ég réðst þangað 2002. Mín vinna hefur að mestu falist í því að búa til skógræktaráætlanir fyrir skógarbændur. Skógræktaráætlun er plagg sem segir til um hvernig skógarbóndi með aðild að Suðurlandsskógum skuli meðhöndla sitt land, hvaða trjátegundum hann skuli planta í það og hvernig með skuli farið. Allt er þetta unnið á pappír þannig að skógarbóndinn á að geta flett upp í áætlun sinni og séð hvernig meðhöndla skuli hvern reit og hvern kima af því landi sem hann hefur ætlað til skógræktar og samið um við Suðurlandsskóga [nú Skógræktina, innsk.].
Hrunið 2008 gerði strik í reikninginn hjá Suðurlandsskógum. Fjármagn okkar dróst þá saman um 40% og viðbúið að segja þyrfti upp fólki. Það var þó ekki gert, heldur minnkuðu starfsmenn starfshlutfall sitt. Ég fór í 49% stöðu. Á móti kom að vinnan hjá Skógræktarfélagi Árnesinga jókst og mátti heita að fyllti upp í restina af vinnutíma mínum.
Það má segja að vinna og áhugamál hafi farið saman í mínu lífi. Ég hef alla daga hlakkað til að fara í vinnuna og aldrei leiðst eitt andartak.