Eftirfarandi fréttatilkynning var að berast frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga:
"Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga var haldinn þann 3. mars síðastliðinn.
Að undanförnu hefur stjórn félagsins unnið að miklum skipulagsbreytingum á rekstrinum og voru þær kynntar á fundinum og samþykktar einróma.
Breytingarnar eru þær helstar að stofnað hefur verið einkahlutafélagið Gróðrarstöðin í Kjarna sem taka mun við rekstri gróðrarstöðvar og jólatrjáasölu, ásamt drjúgum hluta af eignum og skuldum Skógræktarfélagsins. Skógræktarfélag Eyfirðinga mun áfram mun annast útivistarsvæði, skógarreiti og félags- og fræðslumál.
Með þessum breytingum er verið að draga áhugamannafélagið út úr áhætturekstri og leggja grunn að nýju fyrirtæki sem starfar í hefðbundnu viðskiptaumhverfi. Á næstu vikum verður unnið að því að fá fleiri hluthafa að rekstri hins nýja félags. Verður þar bæði leitað til félagsmanna og starfsmanna svo og fyrirtækja og einstaklinga sem áhuga kunna að hafa fyrir því að koma að slíkum rekstri
Rekstur síðasta árs gekk mjög erfiðlega einkum vegna áfalla sem urðu í ræktunarstarfi gróðrarstöðvarinnar. Öllum fastráðnum starfsmönnum félagsins var sagt upp störfum sl. haust en nú hafa allir sem þess óskuðu verið endurráðnir. Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, fyrrverandi ræktunarstjóri félagsins, þáði ekki endurráðningu og hefur látið af störum. Guðrúnu þakkar félagið dygga þjónustu undanfarin ár og óskar henni velfarnaðar.
Nýr framkvæmdastjóri hefur tekið til starfa hjá Gróðrarstöðinni í Kjarna ehf. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga og ræktunarstjóri gróðrarstöðvarinnar. Það er Jón Kristófer Arnarson sem er vel þekktur í skógræktargeiranum, m.a. fyrir að hafa stýrt gróðrarstöðinni í Laugardal í Reykjavík og gróðrarstöðinni Barra á Egilsstöðum. Tveir fastráðnir starfsmenn verða hjá Skógræktarfélaginu og fjórir hjá Gróðrarstöðinni í Kjarna ehf, auk framkvæmdastjóra.
Í janúar var gengið frá ráðningarsamningi við Hallgrím Indriðason í starf forstöðumanns skógræktar- og útivistarsvæða en Hallgrímur hefur verið framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga um árabil. Fram kom í máli Hallgríms á aðalfundinum að hann hafi ákveðið að segja upp þessu starfi og harmar stjórn Skógræktarfélagsins það mjög.
Sú breyting varð á aðalstjórn Skógræktarfélagsins að Jón Þórðarson, sem um árabil hefur setið í stjórninni, bauð sig ekki fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Í hans stað var kosinn Aðalsteinn Svanur Sigfússon.
Í stjórn hins nýja félags, Gróðrarstöðvarinnar í Kjarna ehf. eiga sæti Ásgeir Magnússon formaður, Vignir Sveinsson og Sigrún Stefánsdóttir".
Birt á vef Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is
Ólga innan Skógræktarfélags Eyfirðinga (frétt á Morgunvakt RÚV, 5. mars 2004)
Ólga er innan Skógræktarfélags Eyfirðinga eftir fjölmennan aðalfund félagsins. Þar var ákveðið að stofna hlutafélag um meginstarfsemina en áhugamannafélagið mun starfa áfram um Kjarnaskóg og skógarreiti í Eyjafirði. Nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn fyrir bæði félögin en Hallgrímur Indriðason hefur gengt þessu starfi í áratugi. Hann segist axla sín skinn og hætta hjá félaginu að öllu óbreyttu.
Á aðalfundinum voru samþykktar róttækar skipulagsbreytingar á félaginu. Samkvæmt því hefur verið stofnað einkahlutafélag sem tekur við meginstarfsemi félagsins. Skógræktarfélagið mun hins vegar starfa áfram um rekstur útivistarsvæðisins í Kjarnaskógi, hirðingu skógarreita í Eyjafirði og framgang gömlu hugsjónarinnar um skógrækt til betra lífs í landinu. En hvers vegna var þessi leið farin?
Vignir Sveinsson, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga: Já þetta hefur verið í umræðunni nokkuð langan tíman, nokkur undanfarin ár og ástæðurnar eru nokkrar. Í fyrsta lagi hefur starfsemi félagsins verið að aukast mjög ört ár frá ári og félagið hefur verið að þróast úr því að vera áhugamannafélag í það að stunda atvinnurekstur sem að er í sjálfu sér ekki hlutverk félaga af þessu tagi. Þannig að það sem að ýtti þessu kannski af stað núna var það að við horfum fram á ákveðna erfiðleika í rekstrinum, það var erfiður rekstur á síðasta ári og við fengum ráðgjafafyrirtæki í lið með okkur til þess að gera úttekt á starfsemi og félagsforminu líka. Og niðurstaðan úr þeirri vinnu var sú að stjórnin tók ákvörðun um það að fara út í þessar skipulagsbreytingar sem að við teljum að verði félaginu til góðs í framtíðinni og séu kannski óhjákvæmilegar miðað við það umhverfi sem að atvinnurekstri er skapaður í viðskiptalífinu í dag.
Vegna þessara breytinga var öllum starfsmönnum félagsins sagt upp en þeir sem þess óskuðu áttu kost á starfi áfram en ekki þó til sömu verkefna. Jón Kristófer Arnarson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Barra á Egilsstöðum var ráðinn framkvæmdastjóri beggja félaganna. Hallgrímur Indriðason, sem verið hefur framkvæmdastjóri félagsins í áratugi segir að þessi tíðindi hafi verið eins og hnífsstunga í bakið.
Hallgrímur Indriðason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga: Já það var auðvitað sjokk því að við höfðum fram að þeim tíma þá var svona, þá var annað á borðinu, ég er ekkert að leyna því og ég hafði reiknað með því að þessi mál gerðust þannig að ég yrði framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga áfram og annaðist þar útivistarsvæðið og aðra starfsemi Skógræktarfélagsins í héraðinu. Þannig að þetta kom mér á óvart já já, ég leyni því ekki. Ég hins vegar sko, það beinist engan veginn gegn þeim manni sem var ráðinn, ég tek það fram.
Gísli Sigurgeirsson: Finnst þér eins og þarna sé verið að ja bola þér í burtu?
Hallgrímur Indriðason: Tilfinningin er eitthvað í þá veruna já, að það sé sem sagt, að ég sé ekki æskilegur starfskraftur þarna áfram. Ég er búinn að framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga síðan 1976.
Gísli: Og áður en þú kemur þarna sem starfsmaður og framkvæmdastjóri þá ertu búinn að vera ja svona eins konar hlaupastrákur hjá þeim sem að komu þessum skógi til í upphafi?
Hallgrímur Indriðason: Jú það er reyndar alveg rétt, ég byrjaði þarna sem unglingur, ég held ég hafi verið 12 ára gamall þegar ég vann þarna mína fyrstu launuðu vinnu við gróðursetningar í Kjarnaskógi, þannig að samleiðin er orðin löng, hjá Ármanni og Jóni B. Ármannssyni það er alveg rétt, þannig að þetta hefur verið mitt ævistarf. Þannig að það er svona, maður er ekki alveg geðlaus þannig að það eru svona svolítil átök að hverfa frá þessu á þessum punkti og við þessar aðstæður.
Vignir segir að það hafi verið niðurstaða stjórnar að fara þessa leið þar sem starfsemin og fjárhagur félagsins gefi ekki tilefni til að hafa tvo framkvæmdastjóra. Hann vísar því hins vegar á bug að stjórnin hafi með markvissum hætti verið að bola Hallgrími í burtu.
Vignir Sveinsson: Nei því fer fjarri, það var gengið frá endurráðningu 6 starfsmanna af 7, þar á meðal ráðningu Hallgríms Indriðasonar sem að tók að sér ákveðin verkefni við umsjón útivistarsvæða og skógræktarreita og við vonum svo sannarlega að við njótum hans starfskrafta áfram í því. Hallgrímur hefur unnið gríðarlega gott starf að skógrækt á undanförnum árum.
Gísli: Nú segist hann hafa verið með í þessu ferli, það er að segja þessum breytingum sem fyrirhugaðar voru, fram eftir vetri. Síðan hafi hann frétt það, fengið það í bakið að búið væri að ráða nýjan mann sem ætti í raun og veru að vera hans yfirmaður. Er ekki skiljanlegt að maður sem er búinn að starfa við þetta í áratugi, nánast ja vaxið upp með þessum skógi, finnist eins og hann hafi fengið hnífinn í bakið?
Vignir Sveinsson: Ja ég vil nú ekki tjá mig mikið um þessi sjónarmið, frekar heldur en annarra einstakra starfsmanna félagsins, en þetta er ekki sýn eða sú mynd sem að stjórnin hefur af framgangi þessa máls.
Fréttamaður: Gísli Sigurgeirsson