Tuttugu bændur frá sautján býlum sóttu kynningarfund um búskaparskógrækt á Gauksmýri. Greinilegur áh…
Tuttugu bændur frá sautján býlum sóttu kynningarfund um búskaparskógrækt á Gauksmýri. Greinilegur áhugi er meðal bænda á verkefninu enda margt að vinna með því að flétta saman skógrækt og hefðbundnum búgreinum. Mynd: Johan Holst.

Greinilegur áhugi meðal bænda

Tuttugu bændur af sautján býlum í Húna­þingi vestra sóttu á þriðjudaginn kynn­ing­ar­fund um búskaparskógrækt sem Skóg­rækt­in hélt í sveitarfélaginu. Mikill áhugi virðist vera á verkefninu meðal bænda.

Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi  umhverfis­ráðherra, fól Skógræktinni í október að ann­ast þróunar- og átaksverkefni í bú­skap­ar­skógrækt í Vestur Húnavatnssýslu. Hug­takið búskaparskógrækt er tilraun til að ís­lenska það sem á ensku hefur verið kallað agroforesty en fleiri útgáfur hafa heyrst svo sem skógarbúskapur, skógarlandbúnaður, landbúnaðarskógrækt og e.t.v. fleiri. Þessa búskapar­aðferð má skil­greina sem svo á einfaldan hátt að það sé sjálf­bær land­nýting  þar sem skóg- eða trjárækt er á sama svæði og annar bú­skapur og afurðir búsins komi jafnt úr skóginum sem úr akuryrkju eða kvikfjárrækt.

Verkefninu fylgir 11 milljóna króna fjárveiting og þar af eru sjö milljónir ætlaðar til beinna aðgerða eða framkvæmda. Aðgerðir sem breytt geta hefðbundnum búskap í búskaparskógrækt eða skógarbúskap geta verið þessar meðal annars:

  • Heilstætt skjólbeltakerfi fyrir hvers konar ræktun/stórgripabeit (öflugt og umfangsmikið)
  • Skjóllundir/skjólskógar/snjófangarar sem geta einnig þjónað hlutverki beitarhólfa (stýrð beit)
  • Hagaskógur, víðattumikill á ógirtu rýru beitilandi. Trjátegundir sem þola a.m.k. létta beit, helst 20-30 ha
  • Akurskógur: (stuttlotu) aspar- eða víðiakrar á góðu ræktarlandi, 6-8 ha

Allnokkur reynsla hefur fengist víða hérlendis af þessum ræktunarflokkum sl. 17 ár í starfi bænda með samninga við Landshlutaverkefni í skógrækt (Norðurlandsskóga t.d.) sem nú eru hluti af nýrri stofnun, Skógræktinni. Því þykir óþarfi að finna upp hjólið, fremur að smíða hjól sem hentar. Í því skyni er ætlunin að skoða núverandi stuðningskerfi við skógrækt á lögbýlum og hvort móta megi úr því aðgengilegra form en tíðkast hefur  fyrir bú í fullum rekstri. Verk­efninu verður  eingöngu beint að jörðum í rekstri.


Til þess að vel megi til takast hefur Skóg­ræktin óskað eftir að settur verði upp formlegur samstarfsvettvangur nokkurra aðila, Skógræktarinnar, Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda, Sveitarfélagsins Húnaþings vestra og jafnvel fleiri aðila. Í því verður unnið nánar á næstunni.

Á fundinum sem haldinn var á þriðjudag á Gauksmýri í Línakradal komu tuttugu bændur úr héraðinu frá sautján bújörðum og var greinilegt að áhugi þeirra á verk­efninu var mikill. Aðferðir búskapar­skóg­ræktar geta stutt mjög við hefðbundinn búskap, veitt skjól fyrir skepnur, ekki síst lambfé á vorin, skýlt túnum og öðrum ræktarlöndum og þar með aukið bæði frjósemi og uppskeru, breytt snjóalögum og skýlt húsum svo minni þörf verður á kynd­ingu og þannig mætti áfram telja. Með tím­anum myndast líka timburauðlind á búunum. Fyrstu afurðirnar verða sveppir, girðingastaurar og trjákurl svo eitthvað sé nefnt en síðar meir einnig smíðaviður eða iðnviður sem eykur tekjur búsins og fjölgar störfum í héraði. Í vel grón­um sveitum eru einnig auknir möguleikar til ýmissar annarrar starfsemi, hvort sem það er ræktun eða kvikfjárrækt, ferða­þjónusta eða hvers kyns önnur nýsköpun.

Skógræktin fól Sæmundi Þorvaldssyni skógfræðingi stjórn þessa verkefnis og honum til fulltingis er Johan Holst, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar í Húnavatnssýslum.Í kjölfar fundarins á þriðjudaginn var geta áhugasamir bændur nú sótt um að gerast þátttakendur í þessu þróunarverkefni um búskaparskógrækt. Báðir veita þeir nánari upplýsingar um verkefnið, Sæmundur og Johan, og má finna símanúmer þeirra og netföng með því að smella á nöfn þeirra hér fyrir neðan.

Texti: Pétur Halldórsson