Verkefnin í ársbyrjun og íslensk þýðing greinar um fjallaþin

Ein er sú stétt manna, þótt ekki sé hún stór hérlendis, sem hugsar allt árið um jólatré. Það eru jólatrjáabændur. Á fræðsluvef Skógræktar ríkisins um jólatré má finna dagatal jólatrjáabóndans og þar má sjá hvaða verk þarf að vinna í hverjum mánuði ársins. Þar er líka ný þýðing á bandarískri grein um ræktun fjallaþins og korkfjallaþins.

Jólatré hafa verið ræktuð á Íslandi frá því laust fyrir miðja 20. öld. Ræktunin hefur að mestu farið fram á skógræktarsvæðum og í birkiskógum eða birkikjarri. Framleiðsla jólatrjáa á ökrum hefur lítið verið stunduð hérlendis og því er lítil staðbundin þekking til á þessu sviði. Í útlöndum er algengt að jólatré séu ræktuð á frjósömum ökrum og jólatrjáaræktun er stunduð sem sjálfstæð búgrein með markvissa og umfangsmikla framleiðslu.

Óvíst er hvernig þessi búgrein á eftir að þróast hér á landi, hvort hún verður aðallega blönduð annarri skógrækt, til dæmis með ræktun undir skermi eldri trjáa eða hvort akurræktun á eftir að vaxa fiskur um hrygg. Hvort sem verður þarf ávallt að sinna væntanlegum jólatrjám meira og minna allt árið og á jólatrjáavefnum má finna leiðbeiningar um þau störf sem vinna þarf á mismunandi árstímum.


Dagatal jólatrjáabóndans

Í dagatali jólatrjáabóndans eru gefnar leiðbeiningar um þau verk sem gott er að vinna í tilteknum mánuðum ársins. Fyrir þá jólatrjáabændur sem hafa selt jólatré og jólagreinar fyrir nýliðin jól er gagnlegt að gera upp stöðuna í byrjun árs. Það getur verið gott að eiga tölurnar fyrir hvert ár til að bera saman. Bæði nýtast slíkar tölur hverjum bónda og jólatrjáagreininni allri því heildartala fyrir landið gefur gott yfirlit sem nýtist til að fylgjast með þróun mála frá ári til árs.

Grein um ræktun fjallaþins

Þegar uppgjöri er lokið getur jólatrjáabóndinn sest niður með lesefni um fagið og slíkt er einmitt að finna líka á jólatrjáavefnum. Þar er nýjust bandarísk grein um ræktun fjallaþins og korkfjallaþins sem Sigríður Hjartardóttir í Múlakoti hefur þýtt. Guðmundur Halldórsson hjá Landgræðslunni tók að sér að þýða hluta greinarinnar, þar sem fjallað er um skordýr og sjúkdóma. Á íslensku heitir greinin Ræktun korkfjallaþins og fjallaþins.

Texti: Pétur Halldórsson