Á Þórsmörk og nágrannasvæðum má víða sjá efnilegar fræplöntur einis. Þessi gerir sig líklega til að …
Á Þórsmörk og nágrannasvæðum má víða sjá efnilegar fræplöntur einis. Þessi gerir sig líklega til að vaxa eins og tré frekar en skriðull runni.

Verðugt rannsóknarefni fyrir trjáerfðafræðinga

Nú þegar lauf er fallið af birkitrjám í Þórsmörk og nágrenni kemur undirgróðurinn betur í ljós. Það sem helsta athygli vekur er grænleitur undirgróður sem víða myndar nokkuð þéttar breiður. Þessi undirgróður sem prýðir skógarbotnana og hefur aukist mjög á síðustu áratugum er einirinn eða Juniperus communis. Ýmsan fróðleik um eininn má finna í grein Þrastar Eysteinssonar um Bakkaselseininn sem talinn er hæsti einir á landinu.

Það sem helst vekur athygli varðandi eininn á Þórsmerkursvæðinu, er hversu margar af fræplöntunum sem eru að spretta upp úr skógarbotninum eru uppréttar og nokkuð beinvaxnar. Ekki hefur verið gerð sérstök úttekt eða mæling á stærð einirunna á svæðinu, en fundist hafa nokkrir einstaklingar sem náð hafa rúmlega eins metra hæð og sumir farnir að slaga í mannhæð.

Ljóst er að í hinum víðfeðmu birkiskógum á Þórsmerkursvæðinu kunna að leynast hærri runnar. Ekki er ljóst af hverju einirinn vex nú í meira mæli upp í loft í stað þess að láta sér nægja að skríða eftir jörðinni. Líklegt má þó telja að erfðaþættir skýri þennan breytileika. Hugsanlega var meira af uppréttum eini hér á landi áður fyrr og líklega hefur beit og trjáhögg til eldiviðar útrýmt upprétta stofninum og þeir jarðlægu orðið algengari. Þetta væri verðugt rannsóknarefni fyrir trjáerfðafræðinga.

Hér fylgja nokkrar myndir af einirunnum úr Þórsmörk.



Ekki er að sjá að snjóþyngsli haldi þessum eini niðri og neyði hann til að vaxa
með jörðinni. Hvort það er ríflega 80 ára beitarfriðun eða eitthvað annað
sem veldur er ekki gott að segja.


Einirinn getur birst í ýmsum myndum.
Hér vex hann vissulega lóðrétt
en ekki upp í loftið heldur niður.

Texti: Hreinn Óskarsson
Ljósm. Þorsteinn Kristinsson og Hreinn Óskarsson