Stjórnendur síðdegisþáttarins Dagen á DR2, rás 2 danska sjónvarpsins, þau Henrik Lerche og Marie Yde…
Stjórnendur síðdegisþáttarins Dagen á DR2, rás 2 danska sjónvarpsins, þau Henrik Lerche og Marie Yde.

Danska sjónvarpið fjallar um skógrækt á Íslandi

Fjallað var um skógrækt á Íslandi í þætt­inum Dagen á sjónvarpsstöðinni DR2 í Danmörku síðdegis í gær. Rætt var við Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingar­sviðs Skógræktarinnar, og Karsten Raulund-Rasmussen, prófessor í endur­hæfingu vistkerfa við Kaupmannahafnar­háskóla.

Í þættinum var farið yfir að landið sem tók á móti landnámsmönnum á sínum tíma hefði haft allt aðra ásýnd en Ísland hefur nú. Um fjórðungur landsins hefði verið vaxinn birkiskógi en skógurinn hefði horfið fljótt þegar landbúnaður hófst og búfjárbeit.

Hreinn er í þættinum spurður um skógræktarverkefnin á Íslandi og svarar því til að starfið hafi aukist að mun þegar bændur hófu fyrir alvöru að rækta skóg á jörðum sínum. Nú séu um 600 skógarbændur á Íslandi og bændur sjái um bróðurpartinn af þeirri nýskógrækt sem fram fer í landinu. Hann nefnir markmið eins og  að vernda jarðveg og auka landgæði, koma upp skóglendi á gosbeltinu og stuðla að því að Íslendingar verði í fyllingu tímans sjálfum sér nógir um skógarafurðir. Markmiðið sem sett hafi verið með lagasetningu 2006 hafi verið að koma upp skógi á 5 prósentum láglendis en með því framhaldi sem nú er taki 150 ár að ná því marki.


Fram kemur að á Íslandi fari fram eitthvert stærsta nýskógræktarverkefni í Evrópu og þá er væntanlega miðað við hlutfallslega aukningu skógarþekju sem er nær engin á landinu. Karsten Raulund-Rasmussen prófessor nefnir þær miklu náttúruhamfarir sem orðið hafi á Íslandi með gróður- og jarðvegseyðingu á umliðnum öldum. Laus eldfjallajarðvegurinn blási auðveldlega upp og þegar gróðurþekjan sé horfinn sé hætt við að stöðugt fok jarðvegsefnanna viðhaldi eyðileggingunni. Gróður eigi erfitt með að ræta sig á ný, því verði engin kolefnisbinding, líffjölbreytni verði ekki eins og hún ætti að geta orðið og engin viðarmyndun vegna skógleysis. Margar ástæður séu því fyrir því að Íslendingar vilji endurheimta skóga, meðal annars sú einfalda ástæða að verja landið.

Sýndar eru myndir í þættinum af breytingunni sem getur orðið á landi á nokkrum áratugum með skógrækt. Fram kemur að þrjár milljónir trjáplantna séu gróðursettar á Íslandi árlega. Auk vandamála vegna fokjarðvegs nefnir Karsten frostlyftingu sem sé til trafala í skógrækt á Íslandi og sömuleiðis lausaganga búfjár enda sé sauðfé sólgið í trjáplöntur en hefðin fyrir frjálsri sauðfjárbeit sé sterk á Íslandi. Hreinn bendir á að í áætlunum sem gerðar eru vegna skógræktarverkefna sé gróðursetning skipulögð miðað við landgerðir og aðstæður og til dæmis megi með áburðar­gjöf og uppgræðslu, til dæmis með niturbindandi plöntum eins og lúpínu, búa svæði betur undir gróðursetningu þar sem hætta er á frostlyftingu. Gegn búfjárbeitinni sé eina ráðið að girða skógræktarsvæðin af.

Hreinn er spurður að því hvernig eldfjallaaskan fari með skógræktina og hann svarar því til að hún sé bæði góð og slæm enda séu í henni áburðarefni sem gagnist gróðrinum. Falli askan á nakið land taki hún hins vegar að fjúka og geti spillt grónu landi. Á Íslandi hafi orðið til mikil þekking og reynsla í skógrækt og í raun vanti fátt annað en fjár­magn til að greinin geti vaxið.

Þá er rætt um hvaða tegundir séu ræktaðar á Íslandi og Hreinn getur þess að um þriðjungurinn af gróðursettum trjám á Íslandi séu birki, ekki síst á uppgræðslusvæðum þar sem birkinu er ætlað að sá sér út sjálfu, en svo séu þetta innfluttar tegundir eins og alaskaösp, sitkagreni, stafafura o.fl.


Karsten er spurður um loftslagsáhrif þess­arar skógræktar og hann svarar því til að mestu áhrifin verði staðbundin, skógurinn skýli og geti bætt veðurfar á viðkomandi svæði og hamlað gegn gróður- og jarðvegseyðingu. Slík áhrif sjáist annars staðar en á Íslandi þar sem skóglausu landi hafi verið breytt í skóg. Það sem víkingarnir gerðu á Íslandi sé nú að gerast í regnskógunum. Skógur sé ruddur til viðarnytja og landbúnaðar með skelfi­legum afleiðingum. Og jafnvel þótt skógur sé ræktaður þar á ný vanti innviðina sem tryggi að skógurinn fái að vaxa upp aftur og verði nýttur með sjálfbærum hætti. Slíkir innviðir séu hins vegar til staðar á Íslandi.

Fram kemur að í raun hafi Danir staðið í svipuðum sporum kringum aldamótin 1800 og Íslendingar öld seinna, nær öllum skógi hafi verið eytt í Danmörku. Fyrstu skógræktarlögin hafi verið samþykkt í Danmörku 1805 með friðun skógarleifa. Þá hafi hafist það starf sem enn stendur að auka skógarþekju í Danmörku. Rétt eins og á Íslandi gangi það hægar en vænst hafi verið, til dæmis með lögum frá 1989 þar sem markið var sett á að tvöfalda skógarþekju Danmerkur.

Það er því víðar en á Íslandi sem skógræktarfólki þykir of hægt ganga að efla skóglendi, auka skógarþekju og byggja upp þá verðmætu auðlind sem skógar hvers lands eru sannarlega. Viðtalið við þá Hrein og Karsten má sjá á vef danska ríkissjónvarpsins.

Texti: Pétur Halldórsson