Allir vita að unnt er að fá orku úr viði með því að brenna viðinn. Unnt er að kynda gufuvélar með viði, en fáir mundu mæla með því að nota þá aðferð til þess að knýja bílaflota heimsins. Hins vegar er hægt að nýta sellulósa viðarins til þess að framleiða fljótandi eldsneyti, svo sem etanól og lífdísil. Gallinn er sá að sú tækni sem hingað til hefur verið notuð við framleiðsluna er nokkuð kostnaðarsöm. Nú hillir undir hagkvæmari framleiðsluaðferðir sem byggja á notkun örvera. Í tímaritinu Microbiology birtist nýverið grein um svepp, Gliocladium roseum, sem framleiðir ýmis efnasambönd sem nýtst geta sem eldsneyti í lífdísil þegar hann er ræktaður á sellulósa. Prófessor við háskólann í Montana í Bandaríkjunum fann sveppin á viði í frumskógum Patagóníu og þykir þetta afbrigði sveppsins lofa góðu. Þessi sveppategund er hins vegar algeng um allan heim og hefur töluvert verið notuð sem lífræn vörn gegn sveppasjúkdómum á plöntum. Við Umeå Plant Science Center hefur tekist að þrefalda etanólframleiðslu úr viðarafurðum með því að nota fúasveppina Chalara parvispora og Trametes versicolor samhliða gersveppnum Saccharomyces cerevisiae.

Þessi dæmi sýna glöggt að miklir möguleikar eru í að auka framleiðslu á fljótandi eldsneyti úr viði og að gera hana hagkvæmari. Í lyfjaiðnaði hafa örverur verið kynbættar svo að afköst þeirra eru margföld á við villta örverustofna í náttúrunni. Það sama mun eiga sér stað í eldneytisframleiðslunni. Auk þess er byrjað á að kynbæta (erfðabæta) tré til þess að auka hlutfall sellulósa í viðnum á kostnað ligníns. Við Purdue háskólann í Bandaríkjunum er unnið að erfðabæta aspir í þessa veru.

Íslenskir skógareigendur þurfa því líklega ekki að kvíða því að ekki verði not fyrir afurðir þeirra í framtíðinni, þótt ekki verði unnt að framleiða borðvið úr öllu sem í skóginum vex.

 

Heimildir

Holmgren, M. and A. Sellstedt, 2008. Identification of white-rot and soft-rot fungi increasing ethanol production from spent sulfite liquor in co-culture with Saccharomyces cerevisiae. Journal of Applied Microbiology, 105:134-140
Vefslóð á grein: http://www3.interscience.wiley.com/cgibin/fulltext/120091884/PDFSTART

Strobel, G.A. et al., 2008. The production of myco-diesel hydrocarbons and their derivatives by the endophytic fungus Gliocladium roseum (NRRL 50072). Microbiology 154 (2008), 3319-3328
Vefslóð á úrdrátt: http://mic.sgmjournals.org/cgi/content/abstract/154/11/3319

Vefsíða Purdue University, 2006: Fast-growing trees could take root as future energy source. http://www.purdue.edu/UNS/html4ever/2006/060823.Chapple.poplar.html

Vefsíður sem vitnað er til eru allar skoðaðar 7.11.2008)

 

 

Texti: Halldór Sverrisson